Fara í efni
Fréttir

2025 – Fjölmargt reyndist sólarmegin

Eins og dyggir lesendur akureyri.net vita þá reynir miðillinn oftast að vera sólarmegin í lífinu. Á árinu voru því sagðar margar jákvæðar og skemmtilegar fréttir og mannlegar sögur. Hér höfum við tekið saman örlítið brot af þeim sólskinssögum sem sagðar voru á árinu. 

  • Smellið á rauða letrið til að lesa meira

 

JANÚAR

  • SUNGIÐ Í SÍMEY 
    Í fyrrahaust byrjaði Símey, Símenntunarmiðstöð Eyjafjarðar, að bjóða upp á söngstundir tvisvar í mánuði. Markmiðið með söngstundunum, sem kallast „Syngjum í Símey“, er að efla íslenskunám hjá innflytjendum, mynda tengsl og hafa gaman. Hermann Arason hefur séð um undirspilið á söngstundunum en allir eru velkomnir og það kostar ekkert inn.

 

  • ÁNÆGÐAR MEÐ VIÐBRÖGÐ BÆJARSTJÓRANS
    Tvær 11 ára vinkonur í Glerárhverfi, Birta Kristín og Karítas Alda, tóku til sinna vegna hættu sem skapaðist í brekku í Sunnuhlíð þar sem þær renna sér oft. Vinkonurnar skrifuðu Ásthildi Sturludóttur bæjarstjóra bréf og glöddust innilega þegar svarbréf bæjarstjórans barst þeim og vegna þess að starfsmenn bæjarins höfðu tekið sig til og lagað girðingu til bráðabirgða svo nú er engin hætta á ferðum lengur.

 

  • „EITT TÆKNIVÆDDASTA APÓTEK LANDSINS“
    Merkilega nýjung var að finna í Akureyrarapótek sem opnað var í verslunarkjarnanum Norðurtorgi í morgun, róbot sem tekur til lyf og flytur fram í afgreiðslu á fáeinum sekúndum. Aðeins einn sjálfvirkur lyfjalager (eins og fyrirbærið kallast formlega) hafði verið í notkun á Íslandi, í Lyfjaveri í Reykjavík. „Þetta er eitt tæknivæddasta apótek landsins,“ segir Gauti Einarsson, lyfjafræðingur og einn eigenda Akureyrarapóteks við akureyri.net
  • Varð strax ástfangin af íshokkí og Íslandi – Sumir bera nafn með rentu. Sarah Smiley er ein af þeim, en jákvæðni hennar, elja og brosmildi bergmála um Skautahöllina á Akureyri, þar sem hún er þjálfari, fyrrum leikmaður og órjúfanlegur partur af hokkífjölskyldu SA. Sarah var í viðtali um líf sitt og íshokkíið í tveimur hlutum.  


 

FEBRÚAR 

 


  • GUFUGUSUR HJÁ MÆJU 
    Sánavagn Mæju hóf starfssemi sína af fullum krafti á árinu og hefur honum verið tekið fagnandi.
  • Kaupir kaffibrennslu og flytur til Akureyrar Kaffipressan á Akureyri keypti rekstur handverkskaffibrennslu Kaffistofunnar í Hafnarfirði og flutti kaffibrennsluna til Akureyrar.  Akureyri á því enn kaffibrennslu í bænum þó kaffi sé ekki lengur brennt hjá Nýju kaffibrennslunni við Tryggvabraut en kaffi hafði verið brennt og malað þar í nærri 100 ár þar til í ár. 

 

MARS

  • GOTT OG HEIÐARLEGT FÓLK ENN TIL 
    Karl Jónsson, forstöðumaður Íþróttamiðstöðvar Eyjafjarðarsveitar, lenti í óvæntu ævintýri á ferðalagi sínu til London þegar hann týndi farsíma sínum í neðanjarðarlestinni. Ótrúlegt en satt þá endurheimti Karl símann í stórborginni og hann deildi þessari sólskinssögu með lesendum Akureyri.net. 
  • Silfrið rýkur út – Mikil sala var á silfurlituðu efni hjá Vouge fyrir öskudaginn í ár. Ástæðan var júróvision dúettinn VÆB sem margir krakkar vildu líkjast og þá var ekkert annað í stöðunni en að taka fram saumavélina. 

  • „ENN AÐ RYÐJA BRAUT FYRIR KONUR Í FLUGI“
    T
    vær ungar konur sem starfa sem flugmenn á Akureyri, þær Helga Sigurveig Kristjánsdóttir og Auður Birna Snorradóttir, brenna fyrir málefnum kvenna í flugi, og ákváðu því að stofna samtökin Flugsystur. Samtökin eru fyrir allar konur sem tengjast flugi og hafa áhuga á því.  Stöllurnar voru í viðtali í tveimur hlutum. Seinni hlutinn: Flugsystur: „Erum með háfleyg markmið“
  • Seðlabankinn kaupir gamla mynt af listasmið – Hörður Óskarsson, listasmiðurinn á bak við Mynthringar og allskonar, hefur um árabil skapað einstakt skart úr íslenskri mynt sem hefur verið aflögð af Seðlabanka Íslands. Í ár bar svo við að Seðlabankinn keypti mynt af Herði í formi mottna sem hann smíðaði í tilefni af Mottumars. 

 

APRÍL 

    • PÚLA Í HRÚTAKOFANUM Í GÓÐRA VINA HÓPI  
      Akureyri.net heimsótti Sölku, félagsmiðstöð fólksins í Víðilundi og komst að því að þar leiðist engum. Rætt var við hressar konur í tveimur prjónaklúbbnum  þar sem margt er skapað og skrafað.  Eins var hús tekið á stórskemmtilegum körlum í hrútakofanum, herbergi í kjallaranum þar sem hægt er að spila pílu og pool.    
    • Gervigreindin lækkaði matarreikninginn – Margir prófuðu sig áfram með gervigreindina á árinu, meðal annars Arnar Gauti Finnsson, skrifstofustjóri hjá KA. Með hjálp gervigreindar er hann ekki aðeins farinn að elda meira spennandi mat heldur hefur honum tekist að lækka matarreikninginn heilmikið.
    • Russel æðið kom undir þau fótunum – Egill Einarsson og Berglindi Tulinius, eigendur Sportvers og Útisports á Glerártorgi fögnuðu 30 árum í verslunarrekstri á árinu og sögðu skemmtilegar sögur úr verslunarrekstrinum af því tilefni. Í lok árs bárust síðan fréttir af því að þau hafi gengið frá sölu til Arnarins í Reykjavík og mun Örninn mun taka við rekstri beggja verslananna þeirra um áramótin.
    • Vínbúð í JMJ, kýr á Amtinu og fróunarklefi – akureyri.net gabbaði lesendur sínar á 1. apríl og sagði frá því að JMJ væri farið að selja vín í verslun sinni eftir að Vínbúðin flutti úr miðbænum á Norðurtorg. 

       

MAÍ

  • EIGINHANDARÁRITUN FYRIR PRJÓNASKAPINN
    Sjálfboðaliðar Rauða krossins standa reglulega á Ráðhústorgi með sölubás og selja þar prjónaflíkur. Ferðamenn eru ánægðir með að geta keypt ekta íslenskar prjónavörur og styðja gott málefni í leiðinni.
  • Kjólaleigur spretta upp á Akureyri – Við sögðum fréttir af því að tvær kjólaleigur hófu starfssemi sína á Akureyri á árinu. Flott framtak hjá ungum stúlkum í báðum tilfellum. Algengt er að konur kaupi sér dýran kjól, noti hann einu sinni og svo safnar hann ryki inn í skáp. Vilja stelpurnar á bak við kjólaleigurnar meina að það sé umhverfisvænna að leigja sér hátíðarfatnað.

 

JÚNÍ

    • FANN RÖDDINA AFTUR Í HLJÓÐHEIMI ÁN ORÐA  
      Karlotta Dögg Skagfield Jónasdóttir dreymdi alltaf um að syngja en eftir að hún að  söng í jarðarför pabba síns, var eins og hún hefði misst röddina um tíma. Karlotta var í viðtali í tveimur hlutum þar sem hún sagði frá því hvernig hún fann röddina aftur og sína leið í tónlistinni. 


    • SÝSLUMAÐUR NEITAÐI AÐ GIFTA ÞAU Á ÓHAPPADEGI
      Þýsku hjónin Olga Leinweber og Bert Schuch ákváðu að gifta sig á Akureyri fyrir 14 árum síðan þar sem þeim fannst rauðu hjartaljósin krúttleg og rómantísk. Í sumar voru þau á ferð um Norðurlandið og ákváðu þá að endurgera sem flestar ljósmyndirnar frá brúðkaupsdeginum sínum. Þau sögðu akureyri.net frá sinni ástarsögu. 

 

JÚLÍ 

  • UMVAFIN EYJAFIRÐI Í ÍSLENSKU ULLARTEPPI
    Guðrún Tinna Thorlacius heiðrar landslag, minningar og tilfinningar með teppum úr íslenskri ull og Norðurteppið, með Eyjafjörð sem miðju, á sérstakan stað í hjarta hennar. Foreldrar hennar,Guðný Jónasdóttir og Þorsteinn Thorlacius, ráku bókabúðina Eddu í miðbæ Akureyrar í rúman áratug og Guðrún Tinna sagði frá góðum minningum úr bænum og lífi sínu í dag í viðtali í tveimur hlutum.
  • Spinnur garn úr ull af husky hundum – Gunnar Eyfjörð Ómarsson, hundabóndi, tók rokkinn með á tónleikana Vor í Vaglaskógi og sat og spann ull - enga venjulega ull heldur ull af Siberian Husky hundunum sínum, sem eru orðnir 28 að tölu. Eiginkonan María Björk Guðmundsdóttir,  prjónar alls konar þarfaþing úr ullinni en saman reka þau ferðaþjónustu tengda hundunum sínum, sem heitir goHusky. 
  • Amma var mín helsta klappstýra í listinni – Við tjaldstæðið á Hauganesi eru mögulega ævintýralegustu náðhús norðan Vatnajökuls. Það er hinn 17 ára gamli Oddur Atli Reykjalín Guðmundsson sem hefur málað listaverkin, og blaðamaður Akureyri.net hitti hann á Hauganesi. 

 

ÁGÚST

 

SEPTEMBER

  • SÍÐASTA UPPSKERAN BÍÐUR BETRI TÍMA
    Viðtal við Sigurgeir Haraldsson  um karftöflugarðana  syðst á Eyrarlandsholti þar sem bæjarbúar hafa ræktað kartöflur í nær 130 ár. Þegar áform um nýbyggingar við Sjúkrahúsið á Akureyri, sunnan við núverandi byggingar, komust í hámæli og vinna fór af stað við breytingu á skipulagi svæðisins óttuðust garðeigendur að brátt kæmi að síðustu uppskeru. Það hefur þó enn ekki gerst og fylgdist  Akureyri.net með þegar Sigurgeir og kona hans Lára tóku upp í haust. 
  • Kex stúdíó - Ný fatabúð og skapandi rými„Með því að bjóða upp á skapandi rými er markmið Kex Studio að þjóna ákveðnu grasrótarhlutverki og skapa ramma fyrir hæfileikaríkt listafólk til þess að koma sér á framfæri,“ segja Sóley Eva Magnúsdóttir og Ylfa Rún Arnarsdóttir, eigendur Kex Studio sem opnaði í Týsnesi.

  • LÆRÐI AÐ HEKLA HJÁ ÖMMU Í BRASILÍU
    Luiza Santos er tiltölulega nýlega flutt á Eyrina. Hún vinnur á Kaffistofunni og heklar litríkar og lifandi peysur en hún lærði að hekla af ömmu sinni í Brasilíu. Peysur hennar má kaupa á Kaffistofunni. 

 

OKTÓBER

  • NÝTT VIÐMIÐ Í AÐSTÖÐU TIL KLIFURS 
    600Klifur, ný klifuraðstaða á Akureyri opnaði í október. Þar er boðið upp á klifuríþróttaaðstöðu fyrir fullorðna og börn, til skemmtunar og æfinga. Hjá 600 klifur er hægt að finna erfiðleikastig fyrir ungu kynslóðina, byrjendur og lengra komna. Og allt þar á milli.
  • Ævintýraferð til Kína reyndist afdrifarík – Árið 2004 var úrval meindýravara á Íslandi nánast ekkert og aðeins ein tegund af skordýraeitri í boði. Halldór Andri Árnason átti stóran þátt í að breyta því, en heildverslun hans, Streymi heildverslun á Akureyri, er í dag stærst á sviði framleiðslu og innflutnings á vörum til meindýravarna. Halldór var í viðtali í tveimur hlutum þar sem hann sagði m.a. frá afdrifaríkri ferð til Kína.   
  • Austfirskar verslanir í útrás til Akureyrar Austfirskar verslanir eru í auknum mæli farnar að sækja til Akureyrar. Fyrir tveimur árum opnaði Blóðberg á Seyðisfirði verslun í miðbænum og í sumar opnaði tískuvöruverslunin River við Tryggvabraut. Þá bættist þriðja austfirska verslunin  í hópinn í haust, Hús handanna á Egilsstöðum, sem opnaði  útibú í Brekkugötunni. 

 

NÓVEMBER

  • „EKKI VESENIГ – Á JMJ VAKTINNI Í 60 ÁR
    Ragnar Sverrisson fagnaði 60 ára starfsafmæli í nóvember með viðeigandi hætti; við störf í Herradeild JMJ. Glatt var á hjalla í versluninni á þessum tímamótum ekki síður en aðra daga í JMJ .
  • Veisla einu sinni á dag á Andapollinum – Viðtal við Magnús Víði Ásgeirsson, starfsmann Umhverfismiðstöðvar Akureyrarbæjar, en meðal verkefna hans hjá bænum er að fóðra fuglana á Andapollinum einu sinni á dag. 

 

  • GARÐI VIÐ KJARRLUND BREYTT Í HRYLLINGSHÚS
    Hrekkjavökuandinn var heldur betur tekinn á næsta stig hjá Andra Heiðari Ásgrímssyni og fjölskyldu sem breyttu garðinum sínum við Kjarrlund 1 í hryllingshús á hrekkjavökunni. Virkilega metnaðarfullt verkefni hjá fjölskyldunni sem gladdi marga. 

 

DESEMBER

  • ÆTTINGJAR OG VINIR Í SÍÐUSTU FERÐ SIGRÍÐAR 
    Sigríður María Bragadóttir, vagnstjóri hjá Strætisvögnum Akureyrar, hefur ekið strætó í 19 ár, en þar á undan starfaði hún við leigubílaakstur. Hún var fyrsta konan sem fékk þau atvinnuréttindi á Akureyri. Sigríður keyrði sína síðustu strætóferð í desember en vinir og fjölskylda fjölmenntu í síðustu ferðina og sungu þegar Sigríður nálgaðist miðbæinn og ók síðustu kílómetrana fyrir SVA. Sigríður var í viðtali í tilefni dagsins en ýmislegt hefur breyst á þessum 19 árum. 
  • MA-ingar gefa upplifanir fyrir 330 þúsund – Upplifanir skapa minningar sem eru mun verðmætari en hlutir. Þetta sögðu nemendur í umhverfisnefnd Menntaskólans á Akureyri fyrir jólin og hvöttu fólk til þess að gefa upplifanir í jólagjöf frekar en dót sem jafnvel endar í ruslinu.
  • Studera aðstoðar nýbúa við íslenskunám – Hans Rúnar Snorrason og Bergmann Guðmundsson settu í loftið  gervigreindarþjónustu sem virkar eins og persónulegur aðstoðarkennari fyrir fólk sem vill læra íslensku.