Veisla einu sinni á dag á Andapollinum
Þegar kólna fer í veðri og snjór leggst yfir grund harðnar á dalnum hjá fuglum landsins. Vel er þó hugsað um fuglana á Andapollinum á Akureyri því þeim er að jafnaði gefið einu sinni á dag af starfsmanni bæjarins.
Bússuklæddur maður sem var út í miðjum Andapollinum í gær vakti athygli blaðamanns Akureyri.net. Í ljós kom að þar var á ferð Magnús Víðir Ásgeirsson, starfsmaður Umhverfismiðstöðvar Akureyrarbæjar, en meðal verkefna hans hjá bænum er að fóðra fuglana á Andapollinum. „Já, þeim er gefið einu sinni á dag. Þetta er bygg sem þeir fá. Öndunum finnst það gott en mávarnir líta ekki við því,“ segir Magnús og bætir við að það sé oft handagangur í öskjunni þegar hann mætir á staðinn og mikið andagarg. „Þær sjá bílinn og eru oft á tíðum bara að bíða eftir mér og matnum. Fuglarnir eru ekkert hræddir við mig en stundum svolítið fúlir þegar maður tekur vatnið frá þeim.“

Eitt af verkefnum Magnúsar hjá Umhverfismiðstöð Akureyrarbæjar er að færa öndunum og gæsunum á Andapollinum bygg. Mynd: SNÆ
Samlyndi í einni tjörn
Síðan framkvæmdir hófust við innilaug Sundlaugar Akureyrar hafa fuglarnir á Andapollinum bara haft eina tjörn til að synda í en Magnús segir að honum virðist sem fuglarnir séu alveg sáttir við það og samlyndið sé gott. „Ég hef að minnsta kosti ekki séð endurnar slást mikið.“ Aðspurður hvað hann haldi að það séu margir fuglar á Andapollinum um þessar mundir segist hann ekki hafa töluna á þeim. „Nei, ég hef ekki talið það en kynjahlutfallið er svona svipað og ég hef verið að horfa á það,“ segir hann og bendir um leið blaðamanni á einn framandi fugl innan um endurnar. „Þetta er dúfa eða eitthvað álíka.“

Þola vel meiri mat
Magnús gerir þó fleira en að færa öndunum bygg þegar hann kemur við á Andapollinum því oft tekur hann líka bússurnar fram og fer út í vatnið og týnir upp rusl. Þá þarf líka reglulega að hreinsa yfirfallið. „Það þarf að gera það svo endurnar drukkni ekki og Andapollurinn færi sig hingað niður á gatnamót,“ segir Magnús að lokum og notar einnig tækifærið og hvetur bæjarbúa til að koma við á Andapollinum í vetur og gefa fuglunum að borða því þeir megi alveg við því að fá eitthvað meira að borða en byggið frá bænum.
