Ættingjar og vinir í síðustu ferð Sigríðar
„Hún er bara mjög sérstök,“ segir Sigríður María Bragadóttir spurð um tilfinninguna eftir að hún kláraði sína síðustu ferð sem vagnstjóri hjá Strætisvögnum Akureyrar. „Ég held að ég sé ekki búin að átta mig alveg á því. Tilfinningin er bæði góð og líka bara eftirsjá. Þetta er gott starf og mér hefur líkað mjög vel að vinna við þetta,“ segir hún, en kveðst ekki eiga von á að fá hringingu til að leysa af, segir kollegana duglega að taka aukavaktir.
Klukkan 18:25 í gærkvöld, föstudagskvöldið 19. desember, lagði hún af stað á leið 5 úr Hofsbótinni þaðan sem allir vagnar fara og þangað sem allir vagnar koma. Þar lagði hún vagninum í síðasta sinn upp við kantstein hjá litlu kaffistofu vagnstjóranna kl. 19:06, að sjálfsögðu á réttum tíma.
Beint af 12 tíma vakt á eftirlaun?
Tíðindamaður frá akureyri.net var reyndar vantrúaður þegar hann fékk ábendingu um þessa ferð því kl. 6:53 í gærmorgun opnaði Sigríður dyrnar á vagninum fyrir þeim sem þetta ritar, í fyrstu ferð dagsins, lögð af stað úr miðbænum kl. 6:36, búin að fara um Innbæinn, Hagahverfi, Naustahverfi og Teigahverfi og komin á stoppstöð við Þórunnarstrætið kl. 6:53. Vagnstjóri á leið á eftirlaun að taka meira en 12 tíma vakt, gat það verið? Nei, skýringin kom. Sigríður var vissulega á morgunvaktinni, en kláraði hana upp úr hádeginu.
Hún átti þá eina hringferð eftir sem var ákveðin fyrirfram. Í tilefni dagsins söfnuðust ættingjar og vinir saman í miðbænum og fóru síðustu ferðina með henni kl. 18:25, sem þýddi að kollegi hennar, Marta Yates, fékk óvenju langan matartíma. Vagninn var fullur af fólki sem brast í söng og kyrjaði jólalög þegar Sigríður nálgaðist miðbæinn og ók síðustu kílómetrana fyrir SVA.

Síðasta ferðin að hefjast. Ættingjar og vinir fylltu vagninn og fylgdu Sigríði síðustu ferðina fyrir SVA þar sem hún hefur starfað sem vagnstjóri í 19 ár. Mynd: Skapti Hallgrímsson.
Sigríður hefur ekið strætisvögnum á Akureyri í 19 ár, en þar á undan starfaði hún við leigubílaakstur, var fyrsta konan sem fékk þau atvinnuréttindi á Akureyri. Ætli hún hafi oft lent í óhöppum á þessum tíma?
„Nei, ég hef verið mjög farsæl. Það hefur enginn tjónast út af mér,“ segir hún, spurð um óhöpp eða slys í starfi, segir frekar að einhverjir bílstjórar hafi ekið á vagninn hjá henni.
Margt hefur breyst á þessum 19 árum, meðal annars vagnarnir og þar með vinnuaðstaða vagnstjóranna. „Farkosturinn hefur batnað með árunum. Ég byrjaði að vinna á gömlu, grænu vögnunum. Það var mjög gott þegar flotinn var endurnýjaður," segir hún og samsinnir því að þægindin hafi ekki aðeins aukist fyrir farþegana heldur vagnstjórana einnig. „Já, það er allt annað líf og betur hugsað um okkur. Við fengum að fara yfir á nagladekk,“ segir hún og rifjar upp að áður fyrr var ekið upp og niður Gilið, Kaupvangsstrætið og Eyrarlandsveginn. Þá kom fyrir að vagnarnir komust ekki alla leið upp þegar mikil hálka var og runnu jafnvel stjórnlitlir til aftur til baka. Sigríður lenti reyndar aldrei í því sjálf.

Erlendur Haraldsson og Marta Yates voru á kvöldvaktinni og kvöddu Sigríði eftir síðustu ferðina. Marta fékk óvenju langan matartíma út af aukaferð Sigríðar, en Erlendur hélt áfram akstri til kl. 23. Þetta fólk flytur fólk næstum alla daga ársins. Mynd: Haraldur Ingólfsson.
Hún segir starfið fjölbreytt og skemmtilegt og vissulega hafi hún lent í hættu vegna hegðunar farþega. „Já, tvisvar sinnum. Það var bara vegna ölvunar, en leystist farsællega,“ segir hún aðspurð, en gerir ekki mikið úr því. Jákvæðu hliðar starfsins greinilega mun fleiri og tíðari en þær neikvæðu og kveðst hún vel geta mælt með þessu starfi.
„Algjörlega. Þetta er mjög skemmtilegt og gefandi. Þú ferð aldrei eins sama hringinn, það er alltaf eitthvað nýtt sem gerist. Stundum hittirðu fólk þegar það á sinn besta dag og stundum einhvern sem á ekki sinn besta dag. Þetta hefur bara verið mjög skemmtilegt,“ segir Sigríður María Bragadóttir, nú fyrrverandi vagnstjóri hjá SVA, að lokum.