„Ekki vesenið!“ – Á JMJ-vaktinni í 60 ár
Á forsíðu Akureyrarblaðsins Dags 20. nóvember árið 1965 kom fram að menntamálaráðherra hefði í vikunni greint frá því á Alþingi að ráðgert væri að hefja sjónvarpsútsendingar á Íslandi árið eftir. Tveimur dögum síðar, 22. nóvember, hóf 16 ára drengur störf í Herradeild JMJ á Akureyri, hjá Jóni Marinó Jónssyni klæðskera. Hvergi birtist frétt um þau tímamót en í dag þætti líklega allt að því jafn fréttnæmt að ekki væri hægt að horfa á sjónvarp og að Raggi Sverris væri ekki við afgreiðslu í JMJ!

Sjö úr JMJ-fjölskyldunni voru við störf í versluninni í gærmorgun. Frá vinstri: Ragnar Sverrisson, Þórunn Jónsdóttir, Ólafur Andri Ragnarson, Andrea Jónsdóttir, Elvar Máni Ólafsson, Sara Sverrisdóttir og Jón M. Ragnarsson. Myndir: Skapti Hallgrímsson
Ragnar Sverrisson fagnaði 60 ára starfsafmæli í gær með viðeigandi hætti; við störf í Herradeild JMJ, nema hvað, og þar var ekki síður glatt á hjalla en aðra daga. Fjöldi fólks leggur gjarnan leið sína í verslunina á laugardögum að sögn Jóns M. Ragnarssonar Sverrissonar, sem nú stýrir ferðinni, en blómvendir voru fleiri en venjulega auk þess sem boðið upp á konfekt í kílóavís, glæsilegar og gómsætar afmælistertur, og fólk var vinsamlega beðið um að skrá nafn sitt í gestabók.

Jón Marinó Jónsson stofnaði Herradeild JMJ og rak allt til 1982 þegar hjónin Ragnar og Guðný, dóttir Jóns M. og Huldu Jónatansdóttur, keyptu reksturinn. Þau ráku fyrirtækið til ársloka 2016 þegar börn þeirra hjóna tóku við. Raggi er fæddur 1949 og þegar hann varð sjötugur, árið 2019, hætti hann að vinna; settist í helgan stein. Það héldu í það minnsta allir, þar á meðal hann sjálfur. En ekki leið á löngu þar til kaupmaðurinn var mættur í búðina á ný. Sonurinn Jón Marinó sagði svo frá fyrir nokkrum árum: „Hann ætlaði að hætta. Gekk hring eftir hring í bænum og kom svo hérna inn einn daginn og spurði: strákar, má ég koma aftur í vinnuna?!“
Nú er Raggi 76 ára en hvergi nærri hættur. Glaðværðin er sjaldnast fjarri Ragnari og lausnir ofar á blaði en vandamál. „Ekki vesenið!“ segir hann gjarnan með hárri raust, og svo er málið leyst.
Ragnar lék handbolta í mörg ár með Þór og þar sem akureyri.net birtir gamla íþróttamynd alla laugardag var við hæfi að birta mynd af gamla handboltakappanum í gær. Hana má sjá hér:
Harðjaxlinn hugljúfi í Herradeild JMJ
Til hamingju með tímamótin, Raggi!


Ragnar Sverrisson og Þórunn Jónsdóttir tengdadóttir hans, eiginkona Jóns M. Ragnarssonar.

