Fara í efni
Mannlíf

„Viltu gefa ömmu minni karl í skóinn?“

Súlusveinar á góðri stund! Ketkrókur klár með lærið góða. Mynd: aðsend

Börnin sem hittu Kjötkrók á Akureyri fyrir 60 árum síðan, eru mörg hver búin að fylgja sínum börnum, barnabörnum og jafnvel barnabarnabörnum til fundar við jólasveininn geðþekka. Það er hann Skúli Viðar Lórenzson sem er Ketkrókur, en nú er vissara að stóla á að yngsta kynslóðin lesi ekki akureyri.net!

Skúli er aðalsprautan í liði Súlusveina, sem hafa glatt bæjarbúa í áratugi, en sjálfur er hann að skemmta sín 68. jól í ár, og stefnir á því að ná upp í 70. Blaðamaður akureyri.net heimsótti Skúla og forvitnaðist um ævintýri Kjötkróks í gegnum tíðina. 

Þetta er seinni hluti viðtalsins við Skúla/Kjötkrók, en fyrri hlutinn var birtur í gær á akureyri.net

Margt skeð á löngum ferli

„Þetta er orðinn langur tími, sem ég hef verið jólasveinn,“ segir Skúli, og það eru sennilega ekki margir staðir í bænum, sem Súlusveinar hafa ekki heimsótt á einhverjum tímapunkti. „Ég held að ég hafi verið jólasveinn á hverju einasta barnaheimili í bænum og vel flestum af stóru fyrirtækjunum, svo eitthvað sé nefnt. Við förum í Hrafnagilsskóla, Svalbarðseyri, Hrísey, Grímsey, Dalvík og fleiri staði. Maður er búinn að upplifa margt og sjá ýmislegt.“

Eftir allan þennan tíma sem jólasveinn, þá hittir maður heilu kynslóðirnar á mismunandi stað í lífinu

Ekki hefur Kjötkrókur alltaf gengið heill frá borði, en einu sinni var félagi hans að fá smakk af hangilærinu og köstuðu þeir því á milli sín. Ekki fór það betur en svo að þegar Skúli fékk lærið aftur í fangið, stakkst hnífurinn í stígvélið hans. Þegar líða tók á, fann Skúli að hann var orðinn heldur blautur í fótinn, en það kom á daginn að það þurfti að fara með jólasveininn á slysó. Skórinn var fullur af blóði og táin saumuð í fullum skrúða sem var eflaust jólalegt fyrir starfsfólk sjúkrahússins.

 

T.v. Um tíma fóru Súlusveinar með Flugfélagi Norðurlands (nú Norlandair) til Grímseyjar til hátíðarbrigða. T.h. Sumir hafa setið hjá jólasveininum á hverju aldursskeiði! Myndir: aðsendar

Kláraði jólaballið með mölbrotna hendi

Eitt skipti var jólaball hjá Flugbjörgunarsveitinni, og Skúli sá sér leik á borði og ætlaði að eiga glæsilega innkomu á ballið. „Ég stökk upp í mjólkurkassa sem ég sá þarna og ætlaði að láta mig renna svona inn í salinn,“ rifjar hann upp. „Ég var nú aðeins stærri um mig þarna, en ég hef nú alltaf verið liðugur. Þarna rann ég stjórnlaust á súlu sem var í salnum, kassinn hvolfdist og ég lamdi hendinni í súluna og mölbraut hana. Hendina, ekki súluna!“ Skúli er mikill fagmaður og kláraði ballið áður en hann fór á sjúkrahúsið og fékk gips, en það er bersýnilega ekki hættulaust að vera jólasveinn.

Skúli rifjar upp heldur skondna sögu, þegar hann fór í sendiferð fyrir Samherja með jólagjafir til starfsmanna, ásamt Kertasníki. „Þetta var mikið af pökkum og við fylltum Trabantinn hans bróður míns tvisvar eða þrisvar í þessum erindagjörðum,“ segir hann. „Á einu heimilinu fór ungur drengur að hágrenja af því að hann var hræddur við jólasveina. Mamma hans heyrði í honum og hélt að hann hefði meitt sig, og rauk úr sturtu á evuklæðunum og rakst beint á tvo jólasveina á ganginum!“

 

T.v. Allir fá kjötbita sem óska þess! T.h. Oftast er tónlistin ekki langt undan hjá Súlusveinum og blásið til samsöngs á jólalögum. Myndir: aðsendar

Gamla, góða kjötborðið var að sjálfsögðu í uppáhaldi hjá Kjötkróki. Mynd: aðsend

Hvað varð um jólaböllin?

„Ég hugsa oft um gömlu, góðu jólaböllin, og hvað hafi orðið um þau. Ég get til dæmis rifjað upp, að kvennadeild Þórs hélt einu sinni alltaf jólaball í Sjallanum, og þar komu kannski 300 manns. Núna förum við sveinarnir mest á litla staði, þar sem eru kannski litlar samkomur og við hittum börn starfsmanna í fyrirtækjum eða eitthvað slíkt. Mér finnst vanta þessi stóru jólaböll orðið. Þetta var svo mikið ævintýri fyrir börnin,“ segir Skúli.

Spurningar barnanna geta verið margvíslegar og merkilegar

„Við þurfum að gera meira fyrir börnin, þau eru gullmolarnir í lífinu,“ segir Skúli. „Þau þurfa að fá að upplifa eitthvað skemmtilegt sem mótar þau til framtíðar. Það er ekkert auðvelt, en það er margt í dag sem glepur börn og heldur þeim uppteknum við eitthvað sem skilur lítið eftir sig.“

Hvernig þarf jólasveinn að vera

Jólasveinninn þarf að vera líflegur, skemmtilegur og hann þarf að geta svarað spurningum, segir Skúli, um listina að vera góður jólasveinn. „Spurningar barnanna geta verið margvíslegar og merkilegar. Ég man eftir dreng sem spurði mig eitt sinn hvort ég gæti ekki gefið ömmu sinni karl í skóinn. Hún væri svo niðurdregin eftir að afi dó,“ rifjar Skúli upp og segist hafa lofað að athuga hvað Grýla gæti gert. „Þetta var nú fallega hugsað hjá unga manninum.“

„Eftir allan þennan tíma sem jólasveinn, þá hittir maður heilu kynslóðirnar á mismunandi stað í lífinu,“ segir Skúli. „Ég hitti mæður, sem ég man eftir frá því að þær voru litlar stúlkur, sem koma með börnin sín og barnabörn og jafnvel langömmubörn! Um tíma vorum við oft hjá Ragga í JMJ fyrir jólin, og þá var fólk að láta mynda sig með okkur. Þá var oft verið að biðja um myndir af sama fólkinu á mismunandi aldursskeiðum með okkur.“

 

T.h. Eflaust eiga margir nokkrar myndir af sér með Súlusveinum. T.h. Skúli segir það dýrmætt fyrir börnin að fá að hitta jólasveina. Myndir: aðsendar

Dýrmæt hefð fyrir okkur öll

„Í dag getum við Súlusveinar leyft okkur að velja svolítið hvaða verkefni við tökum,“ segir Skúli, alveg laus við jólasveinaþreytu. „Við tökum það sem hentar okkur og okkur langar til þess að gera. Við höfum ennþá gaman af þessu, og eins og ég sagði áðan, þá stefni ég á að taka tvö ár í viðbót svo ég nái 70 árunum. Og geri aðrir betur!“

„Krakkarnir, þau trúa á jólasveininn,“ segir Skúli að lokum. „Þau verða svo glöð þegar þau fá eitthvað, mandarínu, nammi eða kjötbita, og fá að hitta jólasveininn í eigin persónu. Ég held að það sé gott fyrir börnin, að fá að hafa þessa trú, og þetta er dýrmæt hefð fyrir þjóðina og þjóðfélagið. Það er svo gefandi að fá að vekja þessa gleði fyrir jólin hjá börnunum.“


Þetta var síðari hluti viðtalsins við Skúla/Kjötkrók, en fyrri hlutinn var birtur í gær á akureyri.net