Fara í efni
Fréttir

2025 – Mikill áhugi á skipulagsmálum

Ýmislegt var til meðferðar hjá skipulagsyfirvöldum Akureyrarbæjar á árinu sem er að líða, sumt sem liggur ef til vill ekki beint við að lesendur tengi við skipulagsmál. Allt frá hjartalaga rauðum umferðarljósum að viðbyggingu sjúkrahúss, frá smáhýsum yfir í flutningslínur fyrir rafmagn, frá breyttri nýtingu íþróttavallar og tjaldsvæðis yfir í jöfnunarstöð fyrir strætisvagna sem ávallt kallar fram spurninguna: Hvað er jöfnunarstöð? Og allt þarna á milli. Skipulagsmálin ná yfir margt sem skiptir íbúana máli í daglegu lífi og aldrei skortir á skoðanaskipti þegar þessi málefni ber á góma. Næstum öll höfum við skoðanir á skipulagsmálum og mörg okkar láta þær skoðanir óspart í ljós þegar nýjar ákvarðanir eða breytingar eru í farvatninu. Um það bera athugasemdakerfi samfélagsmiðla glöggt vitni.

Hér verður farið á hundavaði yfir fréttaflutning á akureyri.net af skipulagsmálunum hjá Akureyrarbæ á árinu 2025. Ekki tæmandi yfirferð um allt sem bæjaryfirvöld fengust við í skipulagsmálum enda yrði það langur lestur. Fyrir áhugasama lesendur sem vilja kynna sér skipulagsmálin enn betur og ítarlegar en hér er gert skal bent á að allar fundargerðir skipulagsráðs, eins og annarra nefnda bæjarins, eru aðgengilegar á vef bæjarins. 

JANÚAR

    • BLÖNDULÍNA Í JÖRÐ EÐA Á MÖSTRUM?
      Lagning Blöndulínu 3 í landi Akureyrarbæjar bar á góma í upphafi árs þegar skipulagsráð samþykkti að auglýsa breytingu á aðalskipulagi sem fæli í sér leyfi fyrir að þessi háspennustrengur yrði lagður á möstrum frá bæjarmörkum í norðri að spennistöð á Rangárvöllum. Bæjaryfirvöld höfðu lengi vel lagt áherslu á að strengurinn yrði lagður í jörðu í bæjarlandinu, en Landsnet þvertók fyrir það, sagði það raunar ekki tæknilega mögulegt að svo stöddu.
    • Alvarlegar athugasemdi –

      Fram komu alvarlegar og ítarlegar athugasemdir frá íbúum í Giljahverfi við þessa ákvörðun skipulagsráðs, meðal annars að athugasemdafresturinn væri stuttur og næði aðallega yfir hátíðardagana, en strax var brugðist við því og fresturinn lengdur. Meginefni athugasemda voru að farið væri á svig við stefnu stjórnvalda varðandi háspennustrengi við þéttbýli, fulltrúar Landsnets voru sakaðir um að fara með rangt mál, íbúarnir lýstu áhyggjum af áhrifum á verðgildi fasteigna og bentu á skerðingu nýtingarmöguleika svæðisins til framtíðar og fleira. 
    • Öll umfjöllun akureyri.net um Blöndulínu 3

 

  • SKORAÐ Á NÝJA RÍKISSTJÓRN AÐ HEFJAST HANDA
    Bæjarstjórn samþykkti í janúar breytingu á aðaskipulagi með heimild fyrir byggingu hjúkrunarheimilis við Þursaholt og þjónustu við eldri borgara, auk íbúða. Þá verði heimilt að þróa svæðið í samhengi við hugmyndafræði um lífsgæðakjarna. Bæjarstjórn skoraði í leiðinni á þá nýja ríkisstjórn að hefjast handa sem fyrst við byggingu hjúkrunarheimilis, með ábendingu um að tvær skipulagðar lóðir væru tilbúnar undir starfsemina og að skrifað hafi verið undir samning 2019 um byggingu 80 hjúkrunarrýma, en síðan þá hafi lítið gerst.

    • DRÖG AÐ DEILISKIPULAGI TJALDSVÆÐISREITSINS

      Í lok janúar auglýsti bærinn drög að deiliskipulagi fyrir tjaldsvæðisreitinn við Þórunnarstræti.  Sú breyting hafði þá bæst við fyrri drög að gert var ráð fyrir íbúðum í norðvesturhorni reitsins þar sem áður var fyrirhugað að byggja heilsugæslustöð. Helstu áhersluatriði í nýju skipulagi eru blönduð byggð, íbúðir fyrir 60 ára og eldri, þétt og lágreist byggð með bílakjallara og fjölbreytt rými.

 

FEBRÚAR

    • NÁGRANNAR ÓSÁTTIR VIÐ BREYTINGAR
      Nágrannar mótmæltu margir breytingum á skipulagi við Miðholt vegna lóðanna nr. 1-9, sunnan götunnar, sem fólu í sér að leyfð yrðu hærri hús og þar með fjölgun íbúða um 50%. Skert sýn, umferðarþungi og fleira var nágrönnum ekki að skapi. Skipulagi hafði verið breytt þannig að leyfð var hækkun húsa um eina hæð og fjölgun íbúða úr 40 í 60. 

 

    • GAGNRÝNDU SEINAGANG Í MÓAHVERFI
      Stjórn Meistarafélags byggingarmanna á Norðurlandi kom fram með harða gagnrýni á bæjaryfirvöld í tengslum við framgang mála í hinu nýja Móahverfi. Byggingamenn voru ósáttir við seinagang við lagningu veitna að úthlutuðum byggingarlóðum í hverfinu og bentu á gríðarlegan aukakostnað sem fallið hafi á byggingaverktaka sem hafi sjálfir þurft að verða sér úti um allar veitur. Kostnaður við að keyra rafstöð á hverjum verkstað geri ekkert annað en að hækka íbúðaverð í hverfinu.
    • Gengu „ansi langt í að koma til móts við lóðarhafa“ – Akureyrarbær svaraði því til að ýmislegt hafi orðið til þess að áætlanir um byggingarhæfi lóða í Móahverfi hafi ekki staðist, en lóðarhafar hafi frá upphafi verið upplýstir um stöðu mála á hverjum tíma og hafi Akureyrarbær og Norðurorka „gengið ansi langt í að koma til móts við lóðarhafa á svæðinu.“ 

 

    • NÝIR EIGENDUR AÐ VIÐJULUNDI 1
      Byggingaráform á lóðinni Viðjulundi 1 tóku nýja stefnu í febrúar þegar tilkynnt var að Skálabrún, dótturfélag KEA, og Húsheild-Hyrna hefðu keypt fasteignir og lóðina. Skipulagi hafði verið breytt árið áður þannig að þar yrði leyft að byggja tvö háhýsi, en við eigendaskiptin var upplýst að farið yrði í að endurmeta hönnunarforsendur. Ætlunin var að hefja framkvæmdir á lóðinni strax síðastliðið sumar ef öll undirbúningsvinna og hönnun gengi að óskum. 

 

    • ÞÖRF FYRIR TÆPLEGA 200 ÍBÚÐIR Á ÁRI
      Samkvæmt endurskoðaðri húsnæðisáætlun Akureyrarbæjar fyrir árið 2025 var spáð að íbúum sveitarfélagsins myndi fjölga um 2.358 manns á næstu tíu árum. Samkvæmt húsnæðisáætluninni var gert ráð fyrir að þörf fyrir um 195 íbúðir á ári, 980 íbúðir á næstu fimm árum og 1.946 íbúðir næstu tíu ár. Til samanburðar þá hefur fullbúnum íbúðum fjölgað að meðaltali um 137 á ári síðastliðin fimm ár. 

 

    • ÁFRAM UNNIÐ MEÐ NAUSTAGÖTU 13
      Áfram var hugað að uppbyggingu á lóðinni Naustagötu 13. Meirihluti skipulagsráðs samþykkti að kynna nýja tillögu að deiliskipulagi fyrir lóðina og jafnframt að kynnt verði drög að breytingu á aðalskipulagi til samræmis við ákvæði deiliskipulagsins. Áfram eru áform um að byggja þar tvö hús, annað fimm hæða og hitt tveggja hæða með bílakjallara. Í aðalskipulagi er gert ráð fyrir verslun og þjónustu á jarðhæð en íbúðum á efri hæðum.

 

    • „GÖNGUGATAN“ ÞOLIR VART MEIRI BÍLAUMFERÐ

      Ástand þess hluta Hafnarstrætis á Akureyri sem í daglegu tali er nefndur Göngugatan var orðið það slæmt vegna skemmda að gatan var vart sögð þola meiri bílaumferð. Ekki var lengur hægt „að viðhalda umferð á henni án umfangsmikilla viðgerða,“ eins og það var orðað í minnisblaði sem unnið var fyrir umhverfis- og mannvirkjaráð í febrúarmánuði. 

 

      • VANGAVELTUR UM HEILSUGÆSLUSTÖÐ

        Í febrúarmánuði velti skipulagsráð fyrir sér þeim möguleika að koma nýrri heilsugæslustöð (suður) fyrir á lóð sunnan við Kjarnagötu 2, milli verslunar Bónus og íbúðarhúsa við Jaðarstún. Skipulagsfulltrúa var falið að hefja vinnu við gerð breytinga á deiliskipulagi svæðisins til samræmis við tillögu sem kynnt var á fundi skipulagsráðs. Sérstök áhersla yrði lögð á umferðarflæði.

  

MARS

    • LOKANIR Í HAFNARSTRÆTI VEGNA FRAMKVÆMDA
      Miklar framkvæmdir hafa verið í gangi í Hafnarstrætinu og var talið nauðsynlegt á vormánuðum að loka hluta götunnar fyrir allri umferð, gangandi og akandi, vegna framkvæmda við hús númer 73-75 og 80-82.

 

 

 

    • NÝ HUGMYND AÐ STAÐSETNINGU HEILSUGÆSLUSTÖÐVAR
      Byggingarfélagið Bergfesta varpaði í mars fram nýrri hugmynd að staðsetningu heilsugæslustöðvar í suðurhluta bæjarins. Bent var á lóðina Naustagötu 13 þar sem breytt skipulag leyfir byggingu tveggja húsa með verslun og þjónustu á jarðhæð, en íbúðum á efri hætðum. Samkvæmt þessari hugmynd Bergvestu yrði verslun og þjónusta á neðstu hæð, en heilsugæsla á tveimur efri hæðum.

 

    • GÖNGUGATAN LOKUÐ BÍLAUMFERÐ Í SUMAR
      Ákveðið var í mars að
      Göngugatan í miðbæ Akureyrar yrði lokuð fyrir umferð vélknúinna ökutækja frá 1. maí til 30. september 2025. Það var samþykkt samhljóða á fundi bæjarstjórnar. Um er að ræða hluta Hafnarstrætis, spottann á milli Kaupvangsstrætis og Ráðhústorgs.

 

    • BETRA AÐ GERA STRAX RÁÐ FYRIR BÍLAKJALLARA
      Fyrirhuguð stækkun Sjúkrahússins á Akureyri rataði reglulega í fréttirnar. Í lok mars fjallaði skipulagsráð um tillögu Nýs Landspítala að breytingu á deiliskipulagi vegna fyrirhugaðrar viðbyggingar. Ráðið bókaði þá að það teldi skynsamlegt að gera strax ráð fyrir bílakjallara í stað þess að dreifa bílastæðum yfir eins stórt svæði og nýja tillagan gerði ráð fyrir. Þá efaðist ráðið
      um staðsetningu þyrlulendingarsvæðis vegna nálægðar við bílastæði, gangstíg og götu.

 

APRÍL

    • ÁFORM UM BYGGINGU SMÁHÝSA
      Deiliskipulagi á svæði í námunda við Grænhól, norðvestan Síðubrautar nyrst í bænum, var breytt vegna áforma um að byggja þar fimm smáhýsi fyrir heimilislaust fólk með fjölþættan vanda. Reiturinn við Grænhól er sá fyrsti fór af stað í formlegt skipulagsferli, en fleiri svæði eru í vinnslu; við Baldursnes og við Hlíðarfjallsveg gegnt Réttarhvammi.

 

MAÍ

      • ENDURTEKIÐ ÚTBOÐ LÓÐANNA HOFSBÓT 1 OG 3
        Akureyrarbær auglýsti að nýju eftir tilboðum í lóðirnar Hofsbót 1 og 3. Engin boð bárust þegar þær voru fyrst boðnar út, en einhver áhugi var þó á að bjóða í aðra lóðina af tveimur. Það var ekki mögulegt því í skipulagi er gert ráð fyrir sameiginlegum bílakjallara fyrir báðar lóðir og hélt skipulagsráð sig því við að bjóða lóðirnar út saman.  

 

    • EINA TILBOÐINU HAFNAÐ
      Umhverfis- og mannvirkjaráð Akureyrarbæjar hafnaði eina tilboðinu sem barst í gerð göngu- og hjólabrúar yfir Glerá ásamt jöfnunarstöð fyrir Strætisvagna Akureyrar. Eina tilboðið sem barst var 55% yfir kostnaðaráætlun. 
    • Hvað er jöfnunarstöð? – Þannig var að jafnaði spurt í hvert skipti þegar frétt um þessa fyrirhuguðu byggingu var deilt á samfélagsmiðlum. Þarna mætti eins notast við orðið endastöð, miðstöð eða eitthvað annað, en hugtakið jöfnunarstöð vísar til tímaáætlana strætisvagna sem aka mismunandi hringi um bæinn. Á jöfnunarstöðinni hefjast allar ferðir innanbæjarvagna SVA og þar lýkur þeim einnig. Segja má að tímajöfnun á slíkri stöð gefi vagnstjórunum færi á að standa upp frá stýrinu í stutta stund, rétta úr sér, fá sér kaffibolla eða aðra hressingu og gera sig klára í næsta hring. Heitið jöfnunarstöð vísar þó sennilega ekki til þess að hún sé sérhönnuð til að vagnstjórar geti jafnað sig á milli ferða. 

 

JÚNÍ

    • Hreyfing í Hofsbótinni – Tvö tilboð bárust í lóðirnar Hofsbót 1 og 3, það hærra frá SS Byggi. Akureyrarbær auglýsti eftir tilboðum í byggingarrétt á lóðunum tveimur fyrir rúmu ári, en þá bárust engin tilboð. Aftur var auglýst í vor. SS Byggir ehf. bauð 251 milljón og eina krónu, en Sigtún þróunarfélag ehf. bauð 235 milljónir króna.
    • Mótmæla staðsetningu smáhýsa – Á sjötta tug athugasemda bárust frá íbúum við auglýsingu um breytt deiliskipulag í Síðuhverfi vegna fyrirhugaðrar byggingar smáhýsa fyrir fólk með fjölþættan geð- og fíkniefnavanda. Nær allar athugasemdirnar voru neikvæðar þar sem íbúar mótmæltu þessari skipulagsbreytingu og staðsetningu smáhúsanna.

 

JÚLÍ

  • BSO HAFÐI BETUR Í LANDSRÉTTI
    Landsréttur úrskurðaði Bifreiðastöð Oddeyrar (BSO) í vil vegna frávísunar Héraðsdóms Norðurlands eystra á máli BSO gegn Akureyrarbæ. Landsréttur vísaði málinu aftur til héraðsdóms til efnislegrar meðferðar. Málið varðaði kröfu BSO um lóðarréttindi og byggingarrétt á lóð við Strandgötu þar sem leigubílastöðin hefur haft aðstöðu frá 1955.
  • Umferðaröryggisáætlun 16 árum eftir yfirlýsingu – Bæjarráð Akureyrarbæjar samþykkti í sumar nýja umferðaröryggisáætlun 2025-2030 fyrir sveitarfélagið þar sem meðal annars má finna ítarlega aðgerðaáætlun eða framkvæmdalista með um 200 verkefnum sem ætlað er að auka umferðaröryggi í sveitarfélaginu. Aðdragandi að gerð umferðaröryggisáætlunar fyrir Akureyrarbæ var nokkuð langur. Síðla árs 2009 undirritaði þáverandi bæjarstjóri, Hermann Jón Tómasson, samning Akureyrarbæjar við Umferðarstofu þar sem bærinn skuldbatt sig til að gera sérstaka umferðaröryggisáætlun með það að markmiði að auka öryggi allra vegfarenda og fækka óhöppum og slysum í umferðinni.

 

    • LEITA LAUSNA VEGNA AKSTURS HÓPBIFREIÐA

      Eftir ábendingar um ónæði af völdum hópbifreiða í Innbæ Akureyrar og ábendingar rekstraraðila hópbifreiða um skort á aðstöðu tóku fulltrúar Samtaka ferðaþjónustunnar (SAF) og sviðsstjóri skipulagssviðs Akureyrarbæjar saman höndum og leituðu saman leiða til að leysa þær áskoranir sem tengjast umferð hópbifreiða innan bæjarmarkanna. 

 

ÁGÚST

    • Samið við SS Byggi – BSO þarf burt – Bæjarráð staðfesti úthlutun skipulagsráðs á lóðunum Hofsbót 1 og 3 til SS Byggis ehf. Í afgreiðslu bæjarráðs kom fram að þessi ákvörðun fæli í sér að Bifreiðastöð Oddeyrar ehf. (BS0) þurfi að fara með starfsemi sína og húsakost af lóð við Strandgötu innan sex mánaða. Jafnframt hafnaði bæjarráð erindi frá BSO þar sem úthlutuninni var mótmælt á þeim grundvelli að málaferlum um lóðina sé ekki lokið. Ákvörðun bæjarráðs er fullnaðarafgreiðsla þar sem bæjarstjórn er í sumarleyfi. 

 

SEPTEMBER

    • FRIÐAÐA HÚSIÐ REYNDIST ÓNÝTT
      Lundargata 13 var friðað hús sem rataði í fréttirnar í haust þegar það var rifið. Niðurrifið var að sjálfsögðu með fullri vitund og leyfi frá Minjastofnun, en fjórir ungir menn keyptu húsið og hyggjast byggja þar nýtt timburhús í sama stíl enda er það skilyrði Minjastofnunar að götumyndin haldist. Fyrri eigandi hugðist gera húsið upp, en þegar hafist var handa kom í ljós að húsið var verr farið en talið hafði verið og var það síðan dæmt ónýtt í heild sinni. Nýja húsið verður timburhús á tveimur hæðum með steyptum kjallara, en stefnt að nútíma þægindum innanhúss.

 

    • FLEIRI HJÚKRUNARRÝMI Í STAÐ LÍFSGÆÐAKJARNA
      Grundvallarbreytingar urðu á áformum um uppbyggingu við Þursaholt og ákveðið að þar muni rísa stærra hjúkrunarheimili en áður var á teikniborðinu. Miðað er við allt að 100 rými í stað 80 áður og að auki gert ráð fyrir að stækkað verði um 40 rými síðar. Þessi áform „gera að engu stórbrotnar hugmyndir um lífsgæðakjarna á sömu slóðum,“ stóð í bókun skipulagsráðs, en samhliða þessari afgreiðslu var lögð áhersla á að flýtt verði undirbúningi að lífsgæðakjarna við Kjarnagötu, vestan Hagahverfis. 
       

 

    • BOÐIÐ Í 15 AF 18 LÓÐUM Í MÓAHVERFI
      Akureyrarbær auglýsti eftir kauptilboðum í 18 einbýlishúsalóðir í september sem. Kauptilboð bárust í 15 af 18 lóðum í Móahverfi og var Hagamói 10 eftirsóttasta lóðin. Einn og sami bjóðandi átti hæsta tilboð í allar sex lóðirnar sem viðkomandi bauð í.
    • Fjölbreyttur hópur – Frumbyggjahópur Móahverfis verður fjölbreyttur og mikil ásókn í íbúðir að sögn Tryggva Gunnarssonar hjá fasteignasölunni Eignaveri. Í haust voru fimm íbúðir í raðhúsum auglýstar til sölu og áttu að afhendast fullbúnar fyrir áramót – sem þýðir líklega að þegar þessi annáll er skrifaður og birtur hafa íbúðirnar þegar verið afhentar. Íbúðirnar fimm seldust allar á einum sólarhring og fengu færri en vildu.
    • Fjórar íbúðarhúsalóðir auglýstar í Hrísey – Akureyrarbær auglýsti einnig fjórar íbúðarhúsalóðir í Hrísey lausar til úthlutunar. Lóðirnar eru við Austurveg 15-21.

 

OKTÓBER

    • VÍNBÚÐARHÚSIÐ SELT, ÓÁKVEÐIÐ MEÐ FRAMHALDIÐ
      Þegar Vínbúðin var flutt úr miðbænum á Norðurtorg komu fram ótal hugmyndir um hvað gera mætti eða ætti við Vínbúðarhúsið við Hólabraut, um það má meðal annars lesa í athugasemdum við deilingu frétta af flutningi Vínbúðarinnar. Óvíst er hvort eitthvað af þeim hugmyndum verður að veruleika, en hitt er víst að húsið hefur verið selt. Fasteignafélag í eigu Björns Ómars Sigurðarsonar hefur keypt Hólabraut 16. Björn Ómar er eigandi BB bygginga ehf. sem hyggur á mikla uppbyggingu steinsnar sunnan gömlu Vínbúðarinnar en hann segir húsið þó ekki keypt með þær framkvæmdir í huga og ekki séu áform um að rífa það eins og húsin í hans eigu sunnan Gránufélagsgötu; ýmsar hugmyndir hafi kviknað, vissulega gæti húsið við Hólabraut tengst uppbyggingu á svæðinu með einhverjum hætti þegar þar að kemur, en hugsanlega verði það leigt út í einhvern tíma.

 

NÓVEMBER

    • FRUMBYGGJAR MÓAHVERFIS
      Fyrstu íbúar hins nýja Móahverfis fengu íbúð í raðhúsi afhenta og fluttu inn í byrjun nóvember. Súsanna Karlsdóttir og Sindri Davíðsson eru frumbyggjar hverfisins ásamt börnum sínum, dótturinn Míu sem er sex ára og syninum Nökkva, tveggja ára. Þau voru að flytja búslóðina á nýja heimilið þegar akureyri.net leit við og hugðust ná þar fyrsta svefni aðfaranótt fimmtudagsins 6. nóvember.

 

    • SKIPULAGSMÁLIN KYNNT OG RÆDD Á OPNUM FUNDUM
      Skipulagssvið Akureyrarbæjar bauð annars vegar fagaðilum tengdum byggingariðnaði og skipulagsmálum og hins vegar íbúum bæjarins á opna fundi um skipulagsmál þar sem spurt var: Hvað er á döfinni í skipulagi bæjarins? Hvert stefnum við í uppbyggingu? Bæjarbúar voru hvattir til að taka þátt í umræðum um ásýnd Akureyrar og margir sýndu málinu áhuga.

 

    • NÝ ÁSÝND OG FLEIRI ÍBÚÐIR Í VIÐJULUNDI 1
      Bæjarstjórn samþykkti í byrjun nóvember, að tillögu skipulagsráðs, að auglýsa tillögu um breytingu á deiliskipulagi í tengslum við áform um byggingu tveggja fjölbýlishúsa við Viðjulund 1. Nýir eigendur lóðarinnar, Skálabrún og Húsheild-Hyrna, endurskoðuðu hönnunarforsendur og verður 51 íbúð í háhýsunum tveimur sem þarna rísa, í stað 36 íbúða eins og fyrri eigendur lögðu upp með. 

      Gagnrýnendur þessara áforma hafa meðal annars bent á að hæð húsanna sé ekki í neinu samræmi við nánasta umhverfi. Á bæjarstjórnarfundi um málið sagði Jón Hjaltason (óháður) meðal annars um þá hlið málsins: „Menn geta svo sem sett lepp fyrir bæði augu og sagt: „Þetta fellur mjög vel að.““

 

    • AKUREYRI KORTLÖGÐ FYRIR 3+30+300 REGLUNA

      Íbúar Akureyrar ættu allir að geta séð að minnsta kosti þrjú stór tré frá heimili sínu, vinnustað eða skóla, laufþekja innan hverfis ætti að ná að minnsta kosti 30 prósentum og hvergi ætti að vera lengra fyrir íbúa í næsta græna svæði en 300 metrar. Þetta eru meginatriði svokallaðrar 3+30+300 reglu sem stefnt er að hjá Akureyrarbæ og unnið verður út frá við skipulag og þéttingu byggðar. Vinna er hafin við að kortleggja stöðuna með tilliti til þessara þriggja þátta á Akureyri.

 

 

DESEMBER

    • TÍMAFLAKK ÚR LOFTI
      Í kortasjá sem unnin er af Loftmyndum í samvinnu við Akureyrarbæ er hægt að skoða skoða uppbyggingu með tímaflakki á milli loftmynda allt aftur til 1958 fram til ársins sem er að líða. Kortasjáin er bæði með tímaflakkinu og öðrum tengdum upplýsingum gagnleg þeim sem hafa áhuga á og vilja kynna sér skipulagsmál bæjarins.

 

    • VERÐUR LAMBHAGAVEGUR ÁFRAM Á VEGASKRÁ?

      Vegagerðin hefur tilkynnt Akureyrarbæ að fyrirhugað sé að fella Lambhagaveg í Hrísey af vegaskrá og stofnunin hætti þar með að sinna viðhaldi hans. Lambhagavegur í Hrísey er ríflega eins kílómetra langur vegur, sem liggur frá þorpinu upp að Kríunesi. Vegurinn hefur verið hluti af vegaskrá Vegagerðarinnar sem héraðsvegur og ber Vegagerðin ábyrgð á rekstri og viðhaldi hans. Umhverfis- og mannvirkjaráð bendir á að Landnámsegg séu ennþá með starfsemi í Kríunesi og hafi öll tilskilin leyfi frá MAST. Ráðið ítrekar að Vegagerðin haldi veginum á vegaskrá og sinni bæði sumar-og vetrarviðhaldi. Raunar hafi vetrarviðhaldi á veginum ekki verið sinnt undanfarin ár og úr því þurfi Vegagerðin að bæta.

 

    • ENN SEGIR AF JÖFNUNARSTÖÐ SVA
      Umhverfis- og mannvirkjaráð Akureyrarbæjar ákvað að ganga til samninga við SS Byggi ehf. um gerð brúar og stofnstígs yfir Glerá, ásamt jöfnunarstöð fyrir strætisvagna. Verkið hefur tvívegis verið boðið út, án þess að viðunandi tilboð bærust. Ekki var einhugur í ráðinu um ganga til samninga um verkið á þessum tímapunkti.

 

  • FALLEGASTA NÝBYGGINGIN Á LANDINU
    Síðasta frétt ársins tengd skipulagsmálum sem birtist á akureyri.net var jákvæð og skemmtileg.
    Hafnarstræti 75 á Akureyri, nýbygging Hótels Akureyrar, var valin fallegasta nýbygging ársins 2025 í kosningu Arkitektúruppreisnarinnar á Íslandi, sem er hópur áhugafólks um framtíð arkitektúrs.