Sennilega reyndasti jólasveinn bæjarins!
„Fyrst þegar ég klæddist jólasveinabúningnum, var ég bara 10 ára gamall, á jólaballi í gamla Lóni hjá karlakórnum Geysi,“ rifjar Skúli Viðar Lórenzson upp, en hann getur að öllum líkindum fengið titilinn sem reyndasti jólasveinn bæjarins, þar sem hann hefur verið jólasveinn í 68 ár. „Eftir þetta fyrsta ball, þá hef ég alltaf verið jólasveinn, mismikið reyndar, en síðustu 60 árin hef ég verið á hverju ári í ströngu prógrammi. Ég ætla að minnsta kosti að ná tveimur árum í viðbót, svo ég nái upp í 70.“
Viðtalið við Skúla/Kjötkrók er í tveimur hlutum, sá seinni verður birtur á morgun á akureyri.net
- Á MORGUN – „VILTU GEFA ÖMMU MINNI KARL Í SKÓINN?“
Valdi Kjötkrók út af nestinu
Skúli hefur alltaf verið Kjötkrókur, en hann er náttúrulega með besta nestið af þeim bræðrum, og býður jafnan upp á væna flís af feitum sauð. „Ég vildi vera Kjötkrókur vegna þess að ég þekkti gamlan mann á Eyrinni sem vann í reykhúsinu hjá Kaupfélaginu,“ rifjar Skúli upp. „Ég fór til hans þegar ég var um 16 ára aldurinn og spurði hvort hann gæti ekki skaffað mér læri. Síðan hef ég fengið læri frá ýmsum stöðum, og er alltaf Kjötkrókur.“

Kjötkrókur hefur átt góða að í gegnum tíðina og fengið dýrindis hangilæri að gjöf frá ýmsum fyrirtækjum. Myndir: aðsendar
Margir hafa reimað á sig Súlusveinaskóna
Þeir kalla sig Súlusveina, Skúli og félagar sem hafa skemmt börnum og fullorðnum á svæðinu í fjöldamörg ár. „Við erum ansi margir, sem höfum komið og farið í þessum hópi. Til dæmis má nefna Gest Einar Jónasson, Theódór Júlíusson, Reyni Eiríksson og einhvern tíma var ritstjórinn ykkar með, Skapti Hallgrímsson!“
Síðustu árin hafa þeir Felix Jósafatsson og Jón Knudsen verið mest með Skúla í Súlusveinum. „Felix vann hjá lögreglunni og Jón var að vinna með mér hjá slökkviliðinu. Það er samt ég sem er ábyrgðarmaður fyrir þetta og sé um skipulagningu og utanumhald sem er mjög mikið. Ætli sé ekki hægt að segja að ég sé mesti jólasveinninn!“
Jólin þurfa að koma innan frá
„Mér finnst reyndar að í seinni tíð vanti meiri jólasveina á viðburðum á vegum bæjarins, eins og til dæmis þegar kveikt er á stóra jólatrénu í miðbænum,“ segir Skúli. „Sá viðburður var alltaf virkilega vel sóttur áður fyrr og við mættum þarna með epli og mandarínur sem Nettó gaf okkur. Mér finnst það svo jólalegt þegar börnin fá að hitta jólasveina og spjalla við þá.“

T.v. Það þarf ekki að vera barn til þess að hafa gaman af jólasveinunum! Helena Eyjólfs bregður hér á leik með Súlusveinum. T.h. Ungir menn að spyrja jólasveininn hvernig landið liggur, en Skúli segir að spurningar barnanna til jólasveinsins séu alltaf áhugaverðar og skemmtilegar. Myndir: aðsendar
Jólalegt heimili hjá jólasveininum og frú
Það er ekki laust við að jólaskapið svífi yfir vötnum á heimili Skúla við Melateig, en blaðamaður hefur aldrei séð jafn marga jólasveina til skrauts áður. Tónninn er settur við innganginn, en á meðan beðið er eftir því að Skúli komi til dyra, er hægt að gæða sér á nammi í skál og virða fyrir sér jólaskreytingar af ýmsu tagi.
Spurður um skreytingarnar, en það er morgunljóst að það er heilmikil vinna sem fer í að koma þessu öllu saman upp, þá segir Skúli að hann byrji alltaf að skreyta heima hjá sér um miðjan nóvember. „Það er þá sem ég þarf að byrja að skipuleggja og útvega það sem ég þarf fyrir Súlusveina. Það er bara skemmtilegra þegar ég er búinn að koma mér í jólaskapið. Jólin þurfa að koma innan frá.“
Konan hans Skúla, Guðrún N. Þorkelsdóttir, gjarnan kölluð Nunna, er mikil listakona og jólabarn eins og Skúli. Þau hjálpast að við skreytingarnar og margt er heimagert og hefur safnast í sarpinn í gegnum tíðina. Skúli er flinkur í höndunum og lunkinn við rafmagn og hann dundar sér við að lagfæra gamlar jólaseríur og fleira skraut sem gengur fyrir rafmagni.
„Ég er minnsta hönnunarverkstæði sem ég veit um hérna í garðinum,“ segir Skúli. „Þar er ég að dútla við þetta, að búa til ýmislegt og lagfæra það sem þarf.“

Ótalmargir jólasveinar af öllum stærðum og gerðum prýða húsið hjá Skúla og Nunnu. Mynd: RH

Mikið af jólaskrautinu hjá þeim hjónum er einstakt og persónulegt. Mynd: RH

Í skúrnum hans Skúla, 'Húsi jólasveinsins', kennir ýmissa grasa. Mynd: RH
Hlýjar minningar um æskujólin á Eyrinni
Æskujólin hans Skúla voru lágstemmd en hátíðleg í minningunni, en hann ólst upp í stórum systkinahópi við Fróðasund 3 á Eyrinni. „Það var fátækt á mínu heimili, það var ekkert bruðlað þá,“ segir Skúli. „Það voru bara þrjú herbergi í húsinu, en við vorum níu á heimilinu með pabba og mömmu.“
Það var passað upp á, að enginn væri svangur
„Jólin eru eftirminnileg, en ég man sérstaklega eftir því að hafa verið kennt að þvælast ekki fyrir mömmu á aðfangadag, og helst ekki á Þorláksmessu heldur,“ segir Skúli og hlær. „Um hádegið á aðfangadag vorum við einfaldlega rekin í rúmið og áttum helst að sofa til fimm! Þá var búið að skreyta jólatréð og allt klárt. Það var yndislegt að alast upp á Eyrinni, en þarna var gott fólk og við vorum samstillt. Allir voru að vinna saman.“
Manngæska og samvinna
Pabbi hans Skúla var góð rjúpnaskytta og hann gaf yfirleitt nágrannafólkinu með sér, en Skúli segir að þarna hafi verið mikill skiptimarkaður og fólk útvegaði hvort öðru það sem þurfti. „Það var passað upp á, að enginn væri svangur,“ segir hann. „Ég á margar góðar minningar frá jólum á þessum tíma. Ég man eftir gamalli konu, Kristínu nokkurri, sem bjó rétt hjá, en hún átti ekki börn sjálf. Hún kom alltaf á aðfangadag með pakka handa okkur systkinunum með sokkum eða vettlingum sem hún prjónaði. Ég man ekki eftir að hafa kynnst þvílíku gullblómi eins og þessari konu. Hún mátti aldrei neitt aumt vita.“
Skúli man helst eftir klæðum í jólagjafir, en þau systkinin duttu í lukkupottinn þegar næstelsti bróðir hans fór á sjó, en hann sigldi á togurum til útlanda og keypti framandi dót fyrir krakkana. „Ég á til dæmis ennþá hjólhest, þríhjól sem hann gaf mér, það vakti athygli á þeim tíma.“
Þetta var fyrri hlutinn af viðtalinu við Skúla. Seinni hlutinn verður birtur á morgun á akureyri.net
- Á MORGUN – „VILTU GEFA ÖMMU MINNI KARL Í SKÓINN?“

Fríður flokkur Súlusveina við heimili Skúla að Melateig. Mynd: aðsend