Eiginhandaráritunar óskað fyrir prjónaskapinn

Fyrsti söludagur sumarsins hjá götubás Rauða krossins á Ráðhústorgi var í gær, mánudaginn 20. maí. Eins og undanfarin sumur, hafa sjálfboðaliðarnir komið sér fyrir við Landsbankahúsið og á boðstólnum eru prjónavörur af ýmsu tagi, en básinn virkar eins og segull á ferðamennina af skemmtiferðaskipi dagsins.
Eflaust dreymir mörgum ferðamanninum um að næla sér í íslenska lopapeysu á góðu verði, og svo er það bara bónus að styrkja hjálparstarf í leiðinni, en sjálfboðaliðinn Ragnhildur Ingólfsdóttir segir að flestir þekki merki Rauða krossins vel og spyrji út í það, hvað þau séu að styrkja með kaupum sínum.
Sjálfboðaliðar dagsins. Ragnhildur, Júlíus Thorarensen, Sigurður Ringsteð, Bryndís Kristjánsdóttir, Guðbjörg Hjaltadóttir og Þórey Bergsdóttir. Mynd RH.
Skipuleggja söludagana eftir skipakomum
Básinn er ekki opinn alla daga, en Ragnhildur segir að þau skipuleggi opnun eftir skipakomum sumarsins. „Við mætum hérna um klukkan níu á morgnana, þá daga sem von er á mörgum farþegum,“ segir hún. „Í dag er skip í höfninni með 4000 manns, og það gengur ótrúlega vel framan af degi, í hádeginu vorum við búin að selja fyrir hundrað þúsund. Blíðviðrið spillir nú ekki fyrir! “
Það var alveg toppurinn hjá konunni sem keypti af mér peysuna, þegar ég sagði henni að ég hefði prjónað hana líka
Það er töluverð búbót fyrir Rauða krossinn í Eyjafirði að selja á torginu. „Við seldum fyrir sex milljónir síðasta sumar,“ segir Ragnhildur ánægð. „Það kom okkur eiginlega bara á óvart, hvað það gekk vel, þegar við fórum að taka þetta saman. Kostnaðurinn er lítill sem enginn, þetta er allt notað sem við erum að selja, í bland við nýprjónað, en það eru sjálfboðaliðar sem sjá um það. Rauði krossinn borgar eða leggur til efnið.“
Ragnhildur er ein af þeim sem sér um að halda utan um básinn, en hún er einnig í prjónahóp í Rauða krossinum sem framleiðir vörur til sölunnar. „Ég seldi eina peysu í morgun sem ég prjónaði sjálf, segir hún. Það var alveg toppurinn hjá konunni sem keypti af mér peysuna, þegar ég sagði henni að ég hefði prjónað hana líka. Hún bað um eiginhandaráritun! Fólki finnst það voðalega gaman, að fá að vita að við bjuggum vörurnar til sjálf,“ segir hún.
Mikið af peysunum sem eru í sölu eru nýprjónaðar af sjálfboðaliðum. Þær eru merktar þannig, og eru aðeins dýrari en þessar notuðu. Þó er verðið gott og lægra en gengur og gerist í verslunum fyrir nýjar, handprjónaðar peysur. Mynd: RH
Kynnast fólki allstaðar að úr heiminum
Sjálfboðaliðarnir fá aðstöðu á skrifstofu Vinstri grænna við Brekkugötu til þess að geyma fataslár, fatnað, borðin og allt sem til þarf til þess að setja upp básinn. „Það munar heilmikið um það, þetta er ansi mikið af dóti sem þarf að koma fyrir,“ segir Ragnhildur að lokum, en hún segir að það sé mjög gaman að þessu starfi. „Við kynnumst líka mikið af fólki, og þó við séum misgóð í enskunni, þá er alltaf hægt að spjalla svolítið. Hjónin sem sitja þarna undir markísunni, Sigurður Ringsted og Bryndís Kristjánsdóttir, eru færust í enskunni og þau eru liðtæk í spjallinu!“
Nokkrar myndir af sumarstemningu við Ráðhústorgið og bás Rauða krossins:
Það er ekki beint lopapeysuveður þessa dagana, en þessar konur vita að fyrr eða síðar þarf að kasta yfir sig peysu. Myndir: RH
Veðurblíðan í miðbænum er með eindæmum. Á torginu var hópur ferðamanna að fá leiðsögn frá heimamanni um bæinn, en í baksýn sést aðeins í hópinn sem fylgdist með af áhuga. Heimafólkið sem rabbar saman í bás Rauða krossins var léttklætt og naut blíðunnar fram í fingurgóma.