Fara í efni
Mannlíf

Umvafin Eyjafirði í íslensku ullarteppi

Tinna notaði minningar sínar frá unglingsárunum á Akureyri til að skapa Norðurteppið sem hún segir að sé lýsandi fyrir vetrarbirtuna á Akureyri.

Guðrún Tinna Thorlacius heiðrar landslag, minningar og tilfinningar með teppum úr íslenskri ull. Norðurteppið, með Eyjafjörð sem miðju, á sérstakan stað í hjarta hennar.

„Það er eitthvað við vetrarbirtuna við Eyjafjörð, það er þessi djúpblái litur og ró,“ segir Tinna. Tilfinningin varð kveikjan að Norðurteppinu sem nýlega fór í sölu hjá versluninni Kistu í Hofi.

Tinna selur Norðurteppið í Kistu á Akureyri og í versluninni Steinholti á Seyðisfirði. Þá fæst það einnig í vefversluninni natturulega.is

Norðlensk hlýja og ró endurspeglast í teppinu

Teppið dregur upp veturinn fyrir norðan í djúpum gráum og bláum tónum en mynstrið í teppinu er eins og landakort af Norðurlandi. Eyjafjörður er miðjan en eins má greina Ólafsfjörð, Siglufjörð, Hrísey og Húsavík. „Það eru mjúkar línur í mynstrinu sem gefa tilfinningu fyrir landinu. Ég teikna þetta upp í kollinum og læt síðan grafískan hönnuð útfæra svo hægt sé að prjóna mynstrið,“ segir Tinna og bætir við að litirnir og línurnar hafi komið nánast fullmótaðar til hennar, enda beri hún sterkar tilfinningar til Norðurlandsins.

„Ég flutti norður fimmtán ára gömul þegar foreldrar mínir, Guðný Jónasdóttir og Þorsteinn Thorlacius, keyptu bókabúðina Eddu og ráku í miðbænum í rúman áratug. Ég náði einu ári í Gagnfræðaskólanum en fór síðan í Menntaskólann. Ég á mjög sterkar minningar frá Akureyri, sérstaklega tengdar vetrinum, skólalífinu og vetrarljósunum. Ég man sérstaklega eftir hátíðleikanum á aðfangadag, að vera með pabba í búðinni þegar bækur voru að fara í jólapakkana. Þessi hlýja og ró tengd vetrarljósum Akureyrar og vetrarbirtunni endurspeglast í teppinu. Það er eitthvað mjög sérstakt við þennan árstíma og það var aldrei spurning um að Norðurteppið yrði með Akureyri og Eyjafjörð sem miðpunkt,“ segir Tinna.

Austur, norður og vestur

Áður en Norðurteppið fæddist í huga Tinnu hafði hún hannað annað teppi, Austurteppið. Það er karrígult og grátt á litinn, í takt við húsið Steinholt á Seyðisfirði þar sem hugmyndin kviknaði árið 2023, en Tinna rekur verslun í húsinu á sumrin. Teppið er eins konar óður til Austurlands með Seyðisfjörð sem miðju. „Ég elska að vera fyrir austan og mig langaði að gera eitthvað sem myndi virkilega fanga þá tilfinningu. Þá er sólarupprásin alltaf í austri þannig liturinn passar líka sérstaklega vel fyrir það og minnir á nýtt upphaf. Síðan kom Norðurteppið, sem Tinna segir að hafi kallað á sig og nú er Vesturteppið væntanlegt, með Snæfellsjökul sem miðju og er það teppi í hvítum og gráum tónum.”

Þessi hlýja og ró tengd vetrarljósum Akureyrar og vetrarbirtunni endurspeglast í teppinu. Það er eitthvað mjög sérstakt við þennan árstíma og það var aldrei spurning um að Norðurteppið yrði með Akureyri og Eyjafjörð sem miðpunkt.

Íslensk framleiðsla frá A-Ö

Teppin eru prjónuð úr íslenskri ull á prjónastofu Rammagerðarinnar í Reykjavík. „Ég myndi aldrei láta framleiða þetta erlendis, frekar myndi ég sleppa því. Heilindin í vörunni skipta mig öllu máli,“ segir Tinna. Fyrir henni snúast teppin nefnilega ekki bara um að hanna vöru til að selja heldur ekki síður um að heiðra stað og tilfinningu. Hún vill að teppin geti þannig verið tenging við landið fyrir Íslendinga og þá séu þau einnig góður kostur fyrir ferðamenn sem vilja taka eitthvað dýpra með sér heim en venjulega minjagripi. „Þú kaupir ekki bara ullarteppi. Þú kaupir minningu, tilfinningu og tengingu,“ segir Tinna.

Þetta er fyrri hluti viðtalsins við Tinnu. Í seinni hlutanum segir hún m.a. betur frá tengingunni við Akureyri og Seyðisfjörð og öllu því fjölbreytta sem hún er að fást við í lífinu.

  • Á MORGUN ÞAR SEM TEPPI, FORTÍÐ OG NÁTTÚRA MÆTAST