600Klifur – „Nýtt viðmið í klifuraðstöðu“

600Klifur, ný klifuraðstaða á Akureyri opnaði um liðna helgi, 11. - 12.október. Þar er boðið upp á klifuríþróttaaðstöðu fyrir fullorðna og börn, til skemmtunar og æfinga. Vel var mætt og ungir sem aldnir spreyttu sig á veggjunum, en það er hægt að finna erfiðleikastig fyrir ungu kynslóðina, byrjendur og lengra komna. Og allt þar á milli.
Blaðamaður Akureyri.net hefur fylgst með uppbyggingu 600Klifur, en það hér má lesa fyrri umfjöllun og viðtöl við eigendurna Katrínu Kristjánsdóttur, Magnús Arturo Batista og Hjört Ólafsson:
5. mars 2025 - KLIFURPARADÍS OPNUÐ Í SUMAR Á AKUREYRI
19. ágúst 2025 - 600KLIFUR LANGT KOMIÐ OG OPNAR Í OKTÓBER
Í húsnæðinu er aðstaða fyrir grjótglímu, stór afmarkaður fjölskyldusalur, línuklifur með átta og tólf metra háum veggjum ásamt líkamsræktaraðstöðu og búningsklefum. Í húsnæðinu er einnig kaffitería, þar sem hægt er að setjast niður og fá sér kaffi og veitingar.
Mikið hefur gerst síðan í marsmánuði. Til vinstri eru Katrín og Magnús í húsnæðinu að Dalsbraut 1 í mars, en einmitt þar sem þau standa, er kominn stærðarinnar klifurveggur og gat ofan í gólfið niður á neðri hæðina. Klifurveggurinn sést einmitt þarna á myndinni til hægri, eins og hann er í dag. Myndir Rakel Hinriksdóttir / Þorgeir Baldursson
Námskeið á döfinni
Allur búnaður er til staðar og hægt að leigja, en klifurskór eru nauðsynlegir á klifurveggjum. Námskeið og æfingar hefjast í þessari viku og einnig verður tekið á móti hópum, afmælum og fleiru slíku, segir í fréttatilkynningu frá 600Klifur.
Nú tekur við venjuleg opnun í 600Klifur, en það verður opið mánudaga - föstudaga kl. 11.00 - 22.00, laugardaga frá 10.00 - 18.00 og á sunnudögum verður fjölskyldutími á milli 9:30 - 12:30 og almenn opnun eftir það til kl. 18:00.
Hjörtur, Katrín og Magnús, eigendur 600Klifur. Mynd: Þorgeir Baldursson
„Að baki verkefnisins er fjallafyrirtækið 600Norður sem hefur einsett sér frá 2017 að ýta undir vöxt fjallamenningar á Norðurlandi og Íslandi. Um helgina tekst stórt markmið: Að færa klifrurum landsins nýtt viðmið í klifuraðstöðu að evrópskri fyrirmynd,“ segir í tilkynningu frá 600Norður.
Hér má skoða heimasíðu 600Klifur og nálgast meiri upplýsingar.
Hér fylgja myndir frá opnuninni, ljósmyndari er Þorgeir Baldursson: