Fara í efni
Pistlar

Hvar eru geitungarnir grimmu?

ÞESSI ÞJÓÐ – 7

Undir- og ofanritaður er svo háaldraður að hann man Ísland áður en geitungar fóru að gera sig gildandi. Þetta voru bara einhver villidýr sem maður hitti í kringum pylsuvagna í Kaupmannahöfn. Síðan er liðin mörg ár, sár, bit og tár en aldrei þessu vant er ég eiginlega farinn að auglýsa eftir þessum lúsiðnu loftsins suðvélum. Það er komið fram í september og ég held svei mér þá að ég hafi ekki rekist á einn einasta geitung hvorki innan- né utanhúss þetta sumarið.

Skýringin á geitungaleysinu hér fyrir norðan hlýtur að vera fólgin í veðurfarinu. Það var of hlýtt í maí, of kalt í júní eða of rakt í lok ágúst eða... en reyndar væri þessum kvikindum alveg trúandi til að liggja í leyni og spretta fram ef september verður góður. Við höfum nóg af öðrum flugum og blessaðir geitungarnir hljóta líka að braggast. Ég viðurkenni alveg að lífið fyrir tíma þessara árásardýra var friðsælla en smám saman hefur manni lærst að sambúðin getur alveg verið átakalaus.

Yngra fólk getur sagt að það muni Ísland fyrir daga lúsmýsins, þegar hægt var að ganga meðfram vatni eða sofa í sumarbústað án þess að verða eins og gatasigti. Þetta fargan hefur tröllriðið þjóðinni í tíu ár eða skemur en smám saman venjumst við plágunni og bitunum. Sjálfur hef ég bara einu sinni orðið var við bit af skepnum þessum en það var austur á Eiðum í sumar.

Ein er sú óværa sem lítið hefur breyst í hálfa öld eða svo. Því til staðfestingar birti ég hér brot úr pistli sem ég skrifaði í dagblaðið Dag 10. ágúst 1991: „Önnur plága sem hefur dunið yfir oss er alæta himinhvolfsins, fljúgandi rotta, gargandi pestargemlingur, kölski í fuglslíki; mávurinn. Þetta ömurlega skoffín er á góðri leið með að útrýma kríunni í Eyjafirði svo og ýmsum smáfuglategundum. Mávurinn étur allt sem goggurinn kemst í tæri við, svo sem egg, unga, maðka, matarleifar, sorp, grillkjöt, brjóstsykur, tómatsósu og hreinlega allt lauslegt. Síðan ber kvikindið með sér salmonellu og alls kyns óhroða sem getur reynst mönnum æði varasamur.“

Höfundur fer mikinn og heldur áfram að úthúða hettumávinum: „Hann er búinn að eyðileggja andapoll bæjarins með ágengni sinni, hann er öllum til ama í grillveislum og hvar sem matvæli eru notuð og margir geta ekki sofið fyrir gargi hans. Aumingja ferðamennirnir eru steinhissa á þessu mávafargani og forða sér hið snarasta úr bænum.“

Já, þetta eru bæði gömul tíðindi og ný en eins og margir vita er vandamálið ekki bundið við þessa þjóð; ég hef séð ótrúlega bíræfna máva stela sér mat á veitingahúsum við höfnina í Ósló og flestir ættu að geta nefnt dæmi um sjálfsbjargarviðleitni þessara fugla. Bæði á Akureyri og a.m.k. við einn ísvagn í Ósló hef ég séð stóra og svarta, svífandi gervifugla notaðaða til að bægja mávunum frá og mætti þar tala um snjallar mótvægisaðgerðir.

Er það ekki málið? Þótt þessi þjóð hafi þurft að glíma við skeinuhættari plágur en skordýr og fugla þá er ljóst að við stjórnum ekki náttúrunni, við þurfum að læra að lifa með henni og grípa til mótvægisaðgerða við hæfi ef að okkur er sótt. Að því sögðu óska ég mönnum og málleysingjum friðar og farsældar og bind hæfilega miklar vonir við að geitungarnir braggist í haust.

Stefán Þór Sæmundsson er... eins og hann er

Stál og hnífur stöðvuðu svefninn

Orri Páll Ormarsson skrifar
05. september 2025 | kl. 11:30

Geðheilsa aldraðra

Ólafur Þór Ævarsson skrifar
04. september 2025 | kl. 12:30

Arnold Arboretum

Sigurður Arnarson skrifar
03. september 2025 | kl. 09:00

50 kall

Sigmundur Ernir Rúnarsson skrifar
01. september 2025 | kl. 11:30

Legið í gottinu

Jóhann Árelíuz skrifar
31. ágúst 2025 | kl. 06:00

Björgum heilsunni hið snarasta

Stefán Þór Sæmundsson skrifar
30. ágúst 2025 | kl. 06:00