Lausnin 1/7
Fleiri en flesta grunar eiga í einhverjum vandræðum með sjálfan sig. Mikið hefur verið fjallað um kynusla, kvíða, kulnun, skerta sjálfsmynd og tilvistarkreppu af ýmsum toga. Meinsemdin er reyndar sjaldnast svo slæm að neysla vímuefna geri hana ekki enn verri. Á sama tíma er leitast við með öllum ráðum og dáðum að auka neyslu landans á áfengi og nikótíni með ljómandi góðum árangri fyrir þá aðila sem slíkar vörur selja.
Vissulega getur verið strembið að vera til. Jónas Hallgrímsson sagði að tíminn vildi ekki tengja sig við hann. Jóhann Jónsson spurði hvar dagar lífsins hefðu lit sínum glatað. Jóhann Sigurjónsson sat einn yfir drykkju aftaninn vetrarlangan og Kristján Fjallaskáld átti engan trúan vin og harmaði og stundi einn. Þeir og fleiri voru í tilvistarkreppu sem oftlega litaðist af alkóhólisma, sem stundum er kallaður sjúkdómur einmanaleikans.
Ekki ætla ég að vera með einhvern áróður hér. Tæpur helmingur landsmanna getur ugglaust notað áfengi vandræðalítið, æ fleiri sækjast nú í nikótín eftir að reykingar nánast þurrkuðust út og sveppir og ofskynjunarlyf eru að ryðja sér til rúms sem töfralausn. Það er kannski ráðið, að vera ekki alveg maður sjálfur, þá losnar maður við allan fjárann. Málið er bara að ef manni líður ekki nógu vel í eigin skinni leitar maður lausna og um það samdi ég ljóðabálk fyrir þremur árum, Lausnin 7x7 nefnist hann. Mig langar að birta hann hér í sjö hlutum með vangaveltum um hvern hluta.
Ósagt skal látið hvort eða hvernig eigin reynslu og samferðarmanna endurspeglast í þessum ljóðabálki. Hann fjallar öðrum þræði um fall eða bakslag og þrá eftir töfralausnum en svona almennt birtir hann fálmkenndar tilraunir einstaklings til að öðlast betri líðan. Fyrsti hlutinn lýsir kannski brotlendingu edrúmennskunnar, sem þó er klædd í fínan búning þar sem tónlist og tilfinningar leika um ljóðmælandann. Ný von, ný framtíð. „Með þér er lífið lágfiðluspil,“ segir í ljóðinu en hver skyldi þessi „þú“ vera?
Eflaust ég gæti gert það sem ég vil
því gæfan mig hefur nú blikkað.
Með þér er lífið lágfiðluspil
svo ljúft en þó dálítið klikkað.
Strokurnar magnast og strengur er hár,
stynur hver tónn sem er þaninn.
Tilfinning kviknar hér seiðandi sár,
að svíða svo mjög er ei vaninn.
Dýpkar nú tregi og dapurt er hljóð
í dimmtóna sellósins strengjum.
Það flytur oss bældan ákefðaróð,
sem umturnar saklausum drengjum.
Perlurnar dansa við píanóborð,
pákur í bakgrunni vakna.
Hér þarf ekki að syngja ámátleg orð,
einskis er lengur að sakna.
Hörpunnar kliður er höfugur tónn,
sem hljóðfærin máttugri styður.
Yfir svo gnæfir einn altsaxófónn,
um athygli fjöldans hann biður.
Hærra ei kemst og höfði ég lýt,
hljóðnar í sál minni harmur.
Þögninni undan er þóttakennt rýt,
í þokunni teygir sig armur
nándar sem fyrr var numin á brott
í næðingi liðinna tíma.
Að lifa í þátíð gerir ei gott,
gleymd vertu auma glíma.
Þannig hljómar fyrsti hluti og kannski óljóst hvert stefnir. Tónlistin gæti verið djass eða blús í reykfylltum kjallara en þó ægir saman ýmsum hljóðfærum og tilfinningarnar dansa upp og niður eftir tónskalanum.
Meira á morgun.
Stefán Þór Sæmundsson er framhaldsskólakennari og rithöfundur.
Nýtt ár, nýtt tungl og Hati á bak og burt
Þá riðu hetjur um héruð
Hús dagsins: Aðalstræti 32
Nú árið er liðið …