Lausnin 2/7
Annar hluti ljóðabálksins er óður til vímunnar, þeirrar langþráðu gleði sem helfrosinn hugur saknaði og þráði frostkaldar nætur. Ljóðmælandinn bókstaflega dansar um himingeima og brosir út að eyrum, tilfinningarnar streyma og það er eins og vorið vakni til lífsins. Þeir sem halda að „þú“ táknir konu eða ástina sjálfa vaða í villu og svíma því þetta er auðvitað víman og gleðióður til hennar.
Það er stundum sagt að festist óvirkur alkóhólisti á fallbraut þá verði trauðla aftur snúið og oft skást fyrir alla aðila að hann detti bara í það og losi um spennu. Slíkt getur hins vegar haft mikinn háska í för með sér og ber ekki að taka með léttúð. Ófullkominn bati eða bakslag í bata eru hugtök sem maður hefur heyrt í þessum bransa og ljóðmælandinn virðist hafa verið á þeirri braut og síðan byrjað að drekka. „Ástin mín eina“ í lok þessa annars hluta ljóðabálksins er væntanlega flaskan.
Rétt er að taka fram fyrir þá lesendur sem munu þræla sér í gegnum alla sjö hlutana að hver hluti hefur sinn bragarhátt. Þá er hver hluti sjö erindi og þaðan er titillinn Lausnin 7x7 sprottinn.
Það kviknaði í sálunni sólfagurt bros
á sífrerann komst loks töluvert los.
Ég mátti nú láta um daginn mig dreyma
og dansa frjáls um himinsins geima.
Þú varst mér fjarri um firn langa tíð
frostið mig beit í stanslausri hríð.
Í vansæld ég átti þrjóskur að þrauka
en þjáningin hlóðst samt upp í hrauka.
Í flatneskju hugans var helfrosin sál,
hugmyndir annarra flónska og tál.
Hví skyldi ég ráðum heimskunnar hlýða
og hanga í vetri og sumarsins bíða?
Þá birtist þú djörf með blómfagra lausn
og bauðst mér að njóta af mikilli rausn.
Svo ákafir litir, bæði stilla og straumar,
stigu fram elskandi hljómþýðir draumar.
Það birti á ný eftir biksvarta nótt
í brjóstinu slagharpan tifaði ótt.
Ruddist þá logandi eldur um æðar
ólgandi kenndir komust til hæðar.
Um tíma var tilveran aðeins sem hálf
og tæmt var að fullu mitt eigið sjálf.
Veruleikinn svo frosinn og flatur,
að finna til kenndar var eldsins matur.
Að fanga þig aftur var funi og bál
þótt fyrirheit væru ótrygg og hál.
Við hittumst að nýju, ástin mín eina
og unaði slíkum var vonlaust að leyna.
Hér telur ljóðmælandinn sig vera að losna úr viðjum, endurheimta gleðina gegnum vímu og fögur fyrirheit. Tilveran er ekki lengur frosin og svarthvít, hún er glóandi heit og gædd litum. Loksins virðist ljóðmælandinn hafa fundið lausn úr fangelsi hugans og þótt innst inni kunni loforð um unað að vera ótrygg þá ætlar hann að taka stökkið.
Stefán Þór Sæmundsson er framhaldsskólakennari og rithöfundur.
Lausnin 3/7
Lausnin 1/7
Nýtt ár, nýtt tungl og Hati á bak og burt
Þá riðu hetjur um héruð