Fara í efni
Pistlar

Lausnin 6/7

Ágætu lesendur. Rétt er að vara við þessum hluta. Hann er skelfilegur. Allt það sem ort hefur verið hér á undan er aðeins forsmekkurinn þar sem fjörið og fíknin hafa togast á og ljóðmælandinn snapað eins og köttur í kringum heitan graut. Það glitti stundum í von en hér er skipbrotið algjört og hryllingurinn berskjaldaður.

Sjálfsblekking ljóðmælandans hefur leitt til þess að tilveran er daður við dauðann. Sá sem missir stjórn á neyslu vímuefna missir stjórn á eigin lífi. Um það er þessi sjötti hluti rækileg áminning. Kannski er varhugavert að hafa fleiri orð um kveðskapinn, leyfa honum frekar að tala. En þetta er erfiður lestur og bragurinn er líka strembnari en áður og efnið vægðarlaust.

Allt er nú komið í endalaust fokk,
sem ófreskja huga minn nagi.
Lausnin er varla að stíga á stokk,
staðhæfa að allt sé í lagi,
þá veröldin er sem villa og myrkur
og vesæll og þrotinn minn sálarstyrkur.

Ég taldi mér frjálst að fá mér í glas
og fínstilla huga míns strengi.
Svo reyndist það fljótt hið bölvaða bras
og blakkátið varði of lengi.
Daginn þann næsta var máttleysi mikið
því miður þá fór ég langt yfir strikið.

Vont er að iðrast þá veröldin sökk
og vargarnir sluppu úr hlekkjum.
Harmurinn myndar í hálsinum kökk
og hryggðina betur við þekkjum.
Þetta er meira en vitundar víma,
vonin og uppgjöf í huganum glíma.

Horfa í æskunnar harm er ei gott,
þá hugurinn bálast sem eldur.
Eltir hinn tannhvassi tregi þitt skott
og titringi minningin veldur.
Er það þess virði, lífinu að lifa,
sem lætur þig aðeins tregaljóð skrifa?

Að læsa eða ljúka upp á gátt,
leggja örlög og vit í strauminn.
Uggandi hvort vitundin verður sátt,
vogandi að afhjúpa drauminn?
Þótt spurningar frómar spennuna veki
er spilið búið og þú einn á reki.

Stundum er betra, staðreyndir að fá
að stjórnar þú alls ekki lengur.
Því væri ráðlegt aðstoð í að ná,
ekkert á vegum þínum gengur.
Brátt í æsingi öllu fljótt þú glatar,
til einskis um dapra tilveru ratar.

Er ekki bara best að kála sér
og búast til fundar við áa?
Tilgangur lífsins er ei lengur hér,
ljúfa vini áttu nú fáa.
Andans gróður er fölur og þú fallinn,
flatur liggur á botninum, grey kallinn.

Eins og sjá má er stjórnleysið búið að yfirtaka líf ljóðmælandans og skömm, örvænting, angist, sektarkennd, sjálfsvorkunn og vonleysi hafa öll völd. Innihaldsins vegna er rétt að benda á Píeta samtökin, hjálparsíma Rauða krossins og SÁÁ. Þessi staða er nefnilega grafalvarleg og einstaklingar sem þjást af fíknsjúkdómi hafa langflestir lent í ámóta sporum og ljóðmælandinn, sem segir þó að það „væri ráðlegt aðstoð í að ná“ því hann hefur enga stjórn lengur. Hann er fallinn og „flatur liggur á botninum.“

Einn frasinn í fræðunum segir einmitt að hver verði að finna sinn botn til að verða reiðubúinn að leita sér hjálpar en ég ætla ekki að setja mig í ráðgjafahlutverk en veit að þetta er umdeilt hugtak, það getur verið mislangt niður á botninn eftir einstaklingum og ansi margir lifa þennan niðurtúr ekki af. Það hlýtur að vera vænlegast að komast í viðtöl, ráðgjöf eða meðferð áður en staðan verður eins og hér er lýst.

Stefán Þór Sæmundsson er framhaldsskólakennari og rithöfundur.

Sópaði Strákunum okkar út á fimm sekúndum

Orri Páll Ormarsson skrifar
09. janúar 2026 | kl. 14:00

Lausnin 5/7

Stefán Þór Sæmundsson skrifar
09. janúar 2026 | kl. 06:00

Lausnin 4/7

Stefán Þór Sæmundsson skrifar
08. janúar 2026 | kl. 06:00

Runnkennt elri til landgræðslu - Fyrri hluti: Almennt

Sigurður Arnarson skrifar
07. janúar 2026 | kl. 10:00

Lausnin 3/7

Stefán Þór Sæmundsson skrifar
07. janúar 2026 | kl. 09:00

Lausnin 2/7

Stefán Þór Sæmundsson skrifar
06. janúar 2026 | kl. 09:00