Fara í efni
Pistlar

Við nennum ekki þessu uppeldi

ÞESSI ÞJÓÐ – 12

„Íslenskir foreldrar eru svo gjörsamlega steiktir að þeir ætlast til að skólinn kenni börnunum þeirra að reima skóna, þvo sér um hendurnar, tala íslensku, öðlast kynvitund, siðvit, fjármálalæsi og umhverfisþekkingu, tileinka sér kurteisi og mannasiði, læra umferðarreglur, greina mun á réttu og röngu, öðlast samkennd, sjóða hafragraut, tjá sig, skeina sér, passa sig á fíkniefnum, dónaköllum og veðmálasíðum og bara nefndu það. Foreldrarnir vilja vera lausir við svona amstur til að geta einbeitt sér að símanum, búbblunum, þáttaseríunum, vinunum, skemmtanalífinu, smáhundunum, tískunni, ræktinni, lituninni, plokkuninni, tattúunum og fokkings tikktokkinu!“

Hér var Aðalsteinn vinur minn Öfgar gjörsamlega að fara á límingunni. Ég hafði gert þau mistök að bera það undir hann hvað ég ætti að fjalla um í síðasta pistli mínum um þjóð vora. Þá varð fjandinn laus og hann gjörsamlega tætti í sig nútímaforeldrið og taldi, eins og margir af hans (okkar) kynslóð, að uppeldið hefði nú verið talsvert markvissara hér áður fyrr. Honum fannst foreldrahlutverkið vera orðið ryk sem væri sópað undir persneska mottu og skiljanlegt að fæðingartíðnin hrapaði.

„Fyrir utan allt þetta eiga skólarnir, frá leikskólum og upp úr, auðvitað að kenna börnunum allar mögulegar námsgreinar og aðferðir til að búa þau undir margbrotið líf og langskólanám,“ hélt Alli áfram og kyngdi oft og títt eins og gjarnan heyrist þegar menn sitja að drykkju í símanum. „Samanlagt þýðir þetta að kennarinn á fyrir utan fræðsluhlutverkið að taka það að sér að vera foreldri, afi eða amma, systkini, vinur, góðhjörtuð ömmusystir eða Nonni í næsta húsi. Og helst líka uppeldisfræðingur, sálfræðingur, viðburðarstjóri, áhrifavaldur, markþjálfi, fangavörður og guð má vita hvað. Nei, slepptu þessu með guð, kennarinn má auðvitað ekki fara í forboðið hlutverk prestsins. Trú er tabú.“

Nú setti mig hljóðan, enda kennari að mennt og með ríflega þrjátíu ára starfsreynslu. Ég gat ekki neitað því að eitthvað í upptalningu Aðalsteins hreyfði við mér en samt gat ég ekki tekið undir þessa romsu. Vissulega hefur uppeldis- og félagsmótunarþátturinn verið stór í starfi mínu og fagmennska kennarans snýst ekki bara um námsgreinar. Mannlegi þátturinn er mikilvægur og skólastarf er samvinna. Foreldrar þurfa vissulega á mörgum stigum að koma inn í þá samvinnu.

„Alli minn, ertu ekki aðeins of dómharður í garð foreldra? Þessi kynslóð í dag er öðruvísi en...“

„Ég, dómharður?“ greip Aðalsteinn Öfgar fram í fyrir mér. „Ég skal bara nefna nýlegt dæmi. Það var mikilvægur fundur með foreldrum í fjölmennum skóla á dögunum. Mjög brýnt mál. Miðað við fjölda barna eru um 700 foreldrar tengdir skólanum en það mættu ekki nema 12 á fundinn. Hugsaðu þér, 12 foreldrar og þar af voru tveir frá einu eða tveimur heimilum. Þarna var kannski verið að sinna velferð 10 barna af 400 í skólanum. Kallarðu þetta dómhörku? Heldurðu að ég sé að ýkja? Nei, svona er þessi þjóð sem þú hefur verið að skrifa einhverja vemmilega pistla um.“

Jæja. Þetta var orðið gott. Alli var farinn að verða ansi hávær og fortíðarglansinn var svo geislandi að mig sveið bæði í augu og eyru. Hann hafði að einhverju leyti lög að mæla þegar hann rifjaði upp kosti einfaldara lífs í æsku vorri. En þetta var lífið þá. Við þurfum að tækla lífið nú. Þar liggur vandinn. Hvernig ætlar þessi þjóð að byggja afkomendunum líf til framtíðar?

Ég kveð að sinni og þakka þeim sem lesið hafa. Lifið heil.

Stefán Þór Sæmundsson er framhaldsskólakennari og gamall blaðamaður

Álfar og huldufólk

Jóhann Árelíuz skrifar
12. október 2025 | kl. 13:00

Geðheilbrigðisdagurinn 2025

Ólafur Þór Ævarsson skrifar
10. október 2025 | kl. 06:00

Hin einmana eik eyðimerkurinnar

Sigurður Arnarson skrifar
08. október 2025 | kl. 15:00

Eyrarrokk – Uppáhalds helgin

Ólafur Torfason skrifar
07. október 2025 | kl. 18:00

Frumbyggjar Vopnafjarðar

Jóhann Árelíuz skrifar
05. október 2025 | kl. 11:30

Þegar maður flýgur of hátt

Stefán Þór Sæmundsson skrifar
04. október 2025 | kl. 06:00