Fara í efni
Pistlar

Þegar maður flýgur of hátt

ÞESSI ÞJÓÐ – 11

Ég hef átt það til að ofmetnast, þrátt fyrir að þekkja spakmælið að dramb sé falli næst og ráma í grísku goðsögnina um Ikaros. Þetta er mannlegur breyskleiki. Errare humanum est, minnir mig að það hafi verið kallað á latínu. Mistök eru mannleg. Íslendingar eru sennilega með allra mannlegustu (lesist: breyskustu) þjóðum og endurtaka sömu mistökin hvað eftir annað, eins og að fljúga of hátt og hrapa í sjóinn eins og Ikaros greyið. Fyrir meðalljón eins og mig hefur fallið aldrei verið mjög afgerandi því flugið hefur verið frekar lágt en þegar milljarðarnir koma saman er veisla fyrir vargana.

Rétt til getið. Ég er vissulega að vísa í nýfallið flugfélag. Konan mín er til vitnis um það að þegar „Leikur einn“ ætlaði að spila sig inn á Ameríkumarkað þá sagði ég að þetta væri upphafið að endalokunum, dramb væri falli næst. Af hverju þurfa íslenskir kapítalistar alltaf að skuldsetja sig meira, fljúga hærra, teygja sig í tómið akkúrat þegar vel gengur? Ég er ekki fjárfestir eða sérfræðingur hjá greiningarmiðstöð en mér fannst þetta svo augljós afleikur og sífraði endalaust um það eftir á að félagið ætti að hætta þessari útþenslu og einbeita sér að fáum og arðbærum leiðum. Auðvitað sökk það dýpra í fenið en samt kom það flestum á óvart að félagið fór í þrot!

Það er æði langt síðan ég sagði að ég þyrði hvorki að bóka með flugfélaginu Leikur einn né ferðaskrifstofunni Rúmba samba vegna þess að þarna væri í gangi gjörningur sem stefndi til glötunar. Vissulega var ég brenndur m.a. af ferðaskrifstofunni Bless og fyrirbærinu Gott og vel sem var gert út frá Akureyri og þóttist vera flugfélag. Jæja, ég fer nú varla að sýta einhverja hundrað þúsund kalla, hugur minn er frekar hjá öllum þeim sem nú hafa misst atvinnu sína. Gárungurnir geta pískrað um það að nú geti sjúkraliðarnir og hjúkrunarfræðingarnir snúið aftur til sinna starfa eftir að flugfreyjudraumarnir breyttust í martröð en ég er ekki svona illkvittinn og myndi aldrei segja neitt sem gæti hugsanlega gefið í skyn kvenfyrirlitningu. Ég er jafnréttissinni og jafnvel femínisti á köflum.

Í alvöru talað, við þurfum ekki annað íslenskt/maltneskt/litháískt flugfélag eða eitthvert lúxemborgíst samkrull; látum okkur Íslander vel líka og njótum þess að Neos, Norwegian, EasyJet, Wizzair og fleiri stór félög sækist eftir því að þjónusta landann. Alvöru ferðaskrifstofur og raunveruleg flugfélög geta hæglega annað eftirspurn og boðið upp á fargjöld á býsna breiðu verðbili. Við þurfum ekki enn eitt íslenskt „lággjaldaflugfélag“ sem skaðar þjóðarbúið þegar upp er staðið. Bláköld staðreynd.

Já, þegar vel gengur skulum við gleðjast og ekki sífellt sækjast eftir meiru. Maður verður að læra að una sáttur við sitt og hætta að horfa í þetta fjandans gras sem virðist grænna hinum megin. Það er tálsýn, líkt og fjarlægðin sem gerir fjöllin blá. Nægjusemi, skynsemi, hófsemi, tillitsemi og bara svona semi-lífstíll er eitthvað sem gæti gert íslensku þjóðina hamingjusamari. Það er jú tilgangur lífsins, er það ekki?

Þessi fokking hamingja!

Sjitt, maður.

I am an icelandic express eagle flying in the air playing a violine. Wow, it´s nice, but it takes two to tango.

Farvel.

Stefán Þór Sæmundsson er mátulega kaldhæðinn einstaklingur og brenndur af blysi útrásar.

Eyrarrokk – Uppáhalds helgin

Ólafur Torfason skrifar
07. október 2025 | kl. 18:00

Frumbyggjar Vopnafjarðar

Jóhann Árelíuz skrifar
05. október 2025 | kl. 11:30

Stirðastur í mannkynssögunni?

Orri Páll Ormarsson skrifar
03. október 2025 | kl. 15:30

Saga elris

Sigurður Arnarson skrifar
01. október 2025 | kl. 10:00

Fretur

Sigmundur Ernir Rúnarsson skrifar
29. september 2025 | kl. 11:30

Ytri-Tjarnir, gamla íbúðarhúsið

Arnór Bliki Hallmundsson skrifar
29. september 2025 | kl. 09:00