Lausnin 3/7
Áfram skal haldið með leitina að lausninni. Ljóðmælandinn baðar sig í birtu vímunnar og drekkur í sig sætleikann. Tilveran verður allt að því lostafull og það virðist útilokað að ætla sér líf án þessa gamla en hvikula vinar sem víman er. Sjálfsagt geta margir tengt við slíkar tilfinningar upp að vissu marki, að geta ekki hugsað sér líf án einhvers konar eldsneytis og hugbreytandi efna eða áhrifa.
Við sjáum samt örla á efa. Ljóðmælandinn vísar í fyrri reynslu og biður um að missa ekki tökin, að fá bara að njóta gleðinnar en ekki andhverfunnar. Líklega er það fullmikil bjartsýni en skynsemin er ekki alltaf við völd í aðstæðum sem þessum.
Sætleik þinn ég sötra af vörum,
syngur í huga mér lag.
Saman í gleði í ferð við förum,
framtíðin byrjar í dag.
Viltu nú bera mig betur en síðast
í blikandi velsældar geim?
Að missa öll tök ég læt ekki líðast,
mig langar í sælunnar heim.
Ég get það og vil og geri ekki framar
grundvallarmistökin sár.
Þá svikin ei líðast og ekkert sem amar,
við elskumst í firna mörg ár.
Manstu þær stundir, merlandi skærar
er munúðin rík tók öll völd?
Atlotin blíð og varirnar værar,
votar það örlagakvöld.
Þorstlátur dreypti af dýrlegum veigum,
dúandi mýkt var þitt skaut.
Fyrirheit gáfu að allt sem við eigum
er unaðsleg framtíðar braut.
Alsælan speglast í undrandi sjónum,
óminnið hríslast um sál.
Á stjarnanna her við gapandi gónum
og grípum í fagnaðar bál.
Þarf ekki meira en þrásprungið auga,
þýðlegar strokur og orð.
Á kafi í tjörn þíns losta vill lauga,
lífið án þín væri morð.
Já, þori, get og vil eins og segir í söngnum góða. „Ég get það og vil og geri ekki framar grundvallarmistökin sár.“ Ekki þarf að efast um vilja ljóðmælandans til að gera betur en áður og oft er því slengt fram að vilji sé allt sem þarf. Í tilfelli fíknsjúkdóma er hins vegar margsannað mál að neytendur komast harla skammt á viljanum þótt einhverjir hafi þrælaði sér í gegnum þurrk með kreppta hnefa og viljastyrk. Alvara málsins er þó sú að við erum að tala um sjúkdóm sem iðulega er sterkari en ást, skyldur, heiður, vilji og einlægur ásetningur.
Sjáum hvert kvæðið ber okkur á morgun.
Stefán Þór Sæmundsson er framhaldsskólakennari og rithöfundur.
Runnkennt elri til landgræðslu - Fyrri hluti: Almennt
Lausnin 2/7
Lausnin 1/7
Nýtt ár, nýtt tungl og Hati á bak og burt