Lausnin 7/7
Í gær var allt á leiðinni til andskotans en þó örlaði á löngun ljóðmælandans til að komast út úr ógöngunum. Núna í sjöunda og síðasta hluta ljóðabálksins sjáum við hvort hann finnur einhverja lausn. Bragarhátturinn er orðinn léttari og tilveran ekki alveg vonlaus, meiri yfirvegun komin þar sem mælandinn lítur yfir sviðið og viðurkennir að hvorki vín né ýmis lyf hafi virkað. Eitthvað hefur kveikt lítið vonarljós.
Við verðum samt að taka það með í reikninginn að hugur einstaklinga með virkan fíknsjúkdóm er óútreiknanlegur og hugmyndir á borð við að skipta um efni, umhverfi, vinnu eða gera eitthvað allt annað en að hætta neyslu geta verið ágengar.
Nú harmakveinin kveður
og kyrrðin hugann seður
er vonin kveikir lítið ljós
og sigrað fær þig svefninn
þótt seytli draumaefnin
vitund yfir og undir rós.
Slökunin fannst þér fölsuð,
festan undir þig sölsuð
því fróun ekki veitti vín,
eftirköst tættu tímann,
tilgangi snauð er víman
þá nóttin hin náföla gín.
Reynd voru lofuð lyfin.
lítt var ég af þeim hrifinn;
hugurinn fór í hálfgert mók.
Minning um misjöfn efni,
maríjúana nefni,
feginn oft þá fékk ég mér smók.
Ekkert þó virtist virka,
veröldin tóma, myrka
áfram kyrr eins og kertalog.
Alltaf að undri leita,
einhverri sælu veita,
stöðva ísköld fíkninnar flog.
Vísindin satt þau svara,
sinnið hafi sem mara
legið en ekki átt sitt búst.
Þá aðeins efnið rétta
angist þinni mun létta,
hlassi veltir oft þungu þúst.
Lausn í sýru og sveppum,
við sæluríkið hreppum
því komið er hér dýrðar dóp.
Happið í hendi geymir,
um hamingju þig dreymir
og hljóma sætt þín siguróp.
Á kvöldin ajúeska,
einatt ljómi mín freska,
loks þá sálar friðinn ég finn.
Ljóst að gleði og gæfa
geðraskanir mun svæfa
í hampi og sílósíbinn.
Jæja, það er greinilegt að mantran um ayahuaska hreinsun, míkróskammta af psilocybin sveppum eða aðrar töfralausnir hefur náð að fanga huga ljóðmælandans. Hann hefur sjálfsagt prófað ýmis þunglyndis- og kvíðalyf, örugglega cbd-olíu, jafnvel thc og les nú allt með áfergju sem skrifað er um ajúeska og sílósíbinn. Þar telur hann lausnina að finna enda hafa fagmenn og frægir einstaklingar dásamað þessi efni.
Þegar öll efni virðast hætt að virka er leitað að nýju. Án þess að vera nokkur sérfræðingur á þessu sviði þá hef ég heyrt ýmislegt um boðefni og hvernig heilinn virkar öðruvísi hjá fólki með fíknsjúkdóm. Þessi skortur á náttúrlegum gleðiboðefnum leiðir til þess að einstaklingurinn leitar í efni sem losar um sæluhormón. Það er fljótvirkasta lausnin en í rauninni engin lausn, aðeins stundarfró en með faglegri meðferð á að vera hægt að koma heilastarfseminni í réttan farveg. Sjálfsagt er að benda á heilsugæslu og SÁÁ fyrir þá sem eru í slíkum pælingum.
Lýkur nú ljóðabálki þessum. Ég hef hugsað hann sem texta við tónverk í stíl við þungt og þróað rokk, heila concept-plötu með áhrifum frá gömlu Genesis, Pink Floyd og jafnvel út í Uriah Heep og Deep Purple. Þar sem ég spila ekki á hljóðfæri hef ég aðeins samið þetta tónverk í huganum en ef einhver tónlistarmaður skyldi hafa áhuga á að ljá mér lið eða leika sér með textana þá er ég til í slaginn. Loks vil ég árétta að hugleiðingar mínar eru ekki fagleg umfjöllun heldur persónuleg túlkun á ljóðinu eftir að hafa horft á það úr hæfilegri fjarlægð.
Þakka þeim sem lásu. Lifið heil.
Stefán Þór Sæmundsson er framhaldsskólakennari og rithöfundur.
Lausnin 6/7
Sópaði Strákunum okkar út á fimm sekúndum
Lausnin 5/7
Lausnin 4/7