Fara í efni
Pistlar

Ekki ganga af göflunum

ÞESSI ÞJÓÐ – 8

Kæru lesendur. Ég viðurkenni að síðasti pistill minn var eiginlega flótti frá brýnum og brennandi málefnum sem voru í deiglunni og ég treysti mér ekki í þann slag. Þá var tiltölulega saklaust að tala bara um skordýr og hettumáva en það eru vissulega kvikindi sem tengjast þjóðarsálinni og óhætt að hafa sterkar skoðanir án þess að mála sig út horn og verða fyrir útskúfun, slaufun, skautun, bugun og böggi. En hvers vegna erum við svona dómhörð og er staðan virkilega orðin þannig að stór hluti fólks veigrar sér við að tjá skoðanir sínar?

Þessi menning að tefla alltaf fram tveimur pólum og láta mann velja á milli er komin í öfgar. Lífið er ekki annað hvort eða og hið sanna mál- og skoðanafrelsi snýst ekki um tvö skaut, mínus eða plús, svart eða hvítt, Bítlana eða Stones, Laxness eða Gunnar, Duran Duran eða Wham, KA eða Þór og þannig mætti lengi telja. Ég vil geta svarað „hvorugt“ eða „hvort tveggja“ og helst bætt við „en/og“ og rökstutt mál mitt. Lífið er ekki yfirheyrsla þar sem svarað er með einsatkvæðisorðum.

Í starfi mínu reyni ég að hvetja nemendur til þess að efast, þróa gagnrýna hugsun, mynda sér sjálfstæða skoðun og rökstyðja hana. Einnig að hlusta og leyfa öðrum að viðra sínar skoðanir þótt maður sé ekki sammála en þá er einmitt kominn góður grunnur að rökræðum. Við erum sífellt að túlka samfélagið, fólk, bókmenntir, hugmyndir, tilveruna. Ég reyni að selja nemendum það að ekki sé til einhver ein og rétt kennaratúlkun á tilteknu ljóði, hver nemandi hafi frelsi til að upplifa, skynja og túlka á sinn hátt og koma túlkun sinni í orð og samhengi.

Ég vona að þessi þjóð fari í auknum mæli að rækta með sér gagnrýna hugsun, víðsýni og umburðarlyndi og kveiki á litasjónvarpinu. Þetta svarthvíta dugar ekki lengur. Heimurinn skiptist ekki lengur í hægri-vinstri, bláir-rauðir, íhald-kommar, heimamenn-aðkomumenn, vestur-austur, Evrópa-Ameríka eða hvernig maður á að orða þess skörpu skil sem vor hér áratgum saman. Alltaf einhverjir „við“ og svo „hinir“.

Núna virðist skiptingin samkvæmt netmiðlum og umræðunni felast í því að í öðru liðinu er eitthvert samkrull sem er uppnefnt góða fólkið, vók og vinstrið en í hinu liðinu eru fasistar, hægri öfgamenn, rasistar og ég veit ekki hvað og hvað. Svo er þessum fylkingum att saman lon og don og úr verður oft hinn fáránlegasti hanaslagur þar sem fólk treður illsakir upp að öxlum. Deilt er um það hvað fólk má segja, hvernig og hvenær og ég hef jafnvel séð á prenti fullyrðingu um að málfrelsi eigi ekki við í sumum efnum enda um að ræða vitund en ekki skoðun.

Hvað sem öllu þessu líður þá fylgja orðum ábyrgð og sumir þurfa að gjalda fyrir illmælgina meðan flestir sleppa nokkuð létt en það hlýtur að vera grundvöllur hins mannlega samfélags að koma fram við aðra eins og þú vilt að þeir komi fram við þig. Og ef þú vilt segja „koma fram við önnur eins og þú vilt að þau komi fram við þig“ þá er það bara í góðu lagi. Við eigum að vera umburðarlynd gagnvart þeim sem eru að þreifa sig áfram með málfræðilegt kyn á sama hátt og við verðum að leyfa nýbúum að æfa sig á íslenskunni án þess að ganga af göflunum. Það er ekki skylda að tala eitthvert ríkismál, gefum íslenskunni bara séns.

Stefán Þór Sæmundsson er íslenskukennari við Menntaskólann á Akureyri

Svartþröstur

Sigurður Arnarson skrifar
10. september 2025 | kl. 09:15

Fífilgerði, gamla íbúðarhúsið

Arnór Bliki Hallmundsson skrifar
09. september 2025 | kl. 06:00

Rabarbari

Sigmundur Ernir Rúnarsson skrifar
08. september 2025 | kl. 11:30

Tvístígandi

Jóhann Árelíuz skrifar
07. september 2025 | kl. 06:00

Hvar eru geitungarnir grimmu?

Stefán Þór Sæmundsson skrifar
06. september 2025 | kl. 06:00

Stál og hnífur stöðvuðu svefninn

Orri Páll Ormarsson skrifar
05. september 2025 | kl. 11:30