Björgum heilsunni hið snarasta

ÞESSI ÞJÓÐ – 6
Til allrar hamingju er þessi þjóð í senn opin fyrir nýjungum og trygglynd við fornar hefðir. Þannig getum við bæði ausið úr gömlum heilsubrunnum og fengið tækifæri til að prófa allt það nýjasta í bætiefnageiranum. Ég fæ reglulega tilkynningar um lífsbjargandi efni, nú síðast eitthvert gerjað ensím úr japönskum sojabaunum sem gæti haft verulega góð áhrif á hjartaheilsu mína. Þetta verð ég að prófa, ekki spurning.
Við erum sérstaklega lotningarfull gagnvart því sem sagt er koma frá Asíu og Austurlöndum. Útdráttur af kóreskri rót, eimaður sveppur úr Himalajafjöllum, skordýraleifar úr haugum í útjaðri Hokkaídó, seyði af stöngli töfrajurtar frá Balí, útdráttur af hægri fæti tiltekinnar frosktegundar frá Íran og svo auðvitað súrsuð laufblöð af tré sem indverskir fílar sækja óspart í. Sennilega bjóðast okkur á að giska 10 þúsund bætiefni í plastglösum sem kosta frá 2.500 upp í jafnvel 20.000 kr. stykkið. Auðvitað kemst maður ekki yfir að nota nema kannski 20 tegundir á mánuði og greiðir ca 100 þúsund fyrir og breytir svo og bætir eftir þörfum.
Nú gætu einhverjir haldið að ég væri að grínast en svo er ekki. Í framhaldi af síðasta pistli um hina dugmiklu athafnamenn sem skapa sífellt nýjar þarfir fyrir okkur þá er þetta bara lýsandi dæmi um hugmyndauðgi og framtakssemi. Ég efast heldur ekki eitt augnablik um það að þessi iðnaður hafi gott eitt í huga, að hjálpa neytendum að bæta heilsu sína og auðvelda lífið. Því til hvers að vesenast við að borða lax, avókadó og hörfræ þegar maður getur keypt omega 3 hylki í plastglasi? Hver nennir að slafra í sig skyri, kjöti, fiski og baunum þegar hægt er að kaupa prótín í duftformi? Og auðvitað er út í hött að vera nota lauk, hvítlauk, engifer, túrmerik, rauðrófur, bláber og annað ofurfæði í matseldinni þegar hægt er að kaupa þetta sem pillur og hylki.
Þessi þjóð hafði að vísu um talsvert skeið skipað sér ofarlega á heilsuskölum og línuritum um langlífi og það áður en öll þessi bætiefni tóku að streyma í apótek, matvörubúðir og sérverslanir. Jú, reyndar tóku margir lýsi, sumir sanasól og eitthvað smávegis af vítamínum og steinefnum. Engu að síður var þetta nú aðallega hinn íslenski matur og vinnusemi í harðbýlu landi sem styrkti okkur og stælti.
En svo kom kókópöffsið og allur sykurinn, pítsurnar og frönskurnar og allar transfiturnar og óendanlegur listi aukefna og sætuefna og hvers kyns gerviefna. Ég get nefnt að í kleinupoka sem ég skoðaði um daginn reyndust 12 E-efni í vörunni. Missti ég þá lystina – og reyndar hef ég engar góðar kleinur fengið eftir að Siggi Arnfinns hætti að setja sínar úrvals kleinur og soðið brauð í búðir. Það er svo önnur saga en oft hafa ýmsir kvillar verið raktir til nútíma mataræðis þar sem gjörunnið, saltpæklað og sykrað drasl með gerviefnum kemur í stað náttúrulegrar fæðu.
Þessum bætiefnapistli ætla ég hins vegar að ljúka með því að staðhæfa að flest sé nú gott í hófi og stundum veit ég eða fæ ráðleggingar um að mig vanti D-vítamín, B12, magnesíum, kalk, góðgerla o.s.frv. Ekkert af slíku nota ég að staðaldri en ég hef reynt ýmislegt til að slá á liðverki eða sofa betur, svo helstu dæmi séu tekin en hef ekki haft árangur sem erfiði. Veit að margt virðist virka fyrir aðra. Þegar CBD æðið reið yfir freistaði ég þess auðvitað að slá á kvíða og verki og bæta svefn með þessum rándýru dropum en ákvað fljótlega að láta ekki hafa mig að fífli. Samt, svo varnagli sé sleginn, sumt virðist virka fyrir suma, hvort sem trúin flytur fjöll eða við svona mismunandi gerð.
Óska öllum eins góðrar heilsu og kostur er á.
Stefán Þór Sæmundsson er áhugamaður um hina íslensku þjóðarsál


Númer

Sól um hádegisbil

Orkuveita heilans

Þessi þjóð er óð í gróða
