Fara í efni
Umræðan

Stofnfé rannsóknasjóðs ekki frá sölu eigna á Bifröst

Háskólinn á Akureyri. Ljósmynd: Þorgeir Baldursson

Fé sem mögulega fæst með sölu fasteigna sem hýst hafa Háskólann á Bifröst (HB) verður ekki stofnfé rannsóknasjóðs nýs háskóla sem yrði til við sameiningu Háskólans á Akureyri (HA) og HB. Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, ráðherra háskólamála, upplýsti Akureyri.net um þetta.

Ráðherra var á Akureyri á föstudaginn þar sem hún undirritaði samkomulag ásamt Eyjólfi Guðmundssyni, rektor HA, um 200 milljóna króna fjárveitingu til að hefja undirbúning og uppbyggingu húsnæðis fyrir færni- og hermiseturs á skólasvæðinu, seturs sem ætlað er að stórefla kennslu í heilbrigðisvísindum við HA.

Akureyri.net ræddi við ráðherra og spurði m.a. um nefndan rannsóknasjóð.

Nefnt var í skýrslu um mat á fýsileika sameiningar skólanna tveggja að fé í rannsóknasjóðinn kæmi frá sölu eigna á Bifröst. Eru þær ekki meira og minna taldar ónýtar?

Áslaug Arna svaraði: „Ég er hætt við þá hugmynd sem sett var fram í skýrslunni. Ég tók það sem beint var til mín til skoðunar og hef ákveðið að fjármagna rannsóknasjóð með öðrum hætti.“ Ráðherra fór ekki nánar út í það en sagði að kynnt yrði í þessari viku hvernig staðið yrði að málum varðandi sjóðinn.

Eins og fram kom á Akureyri.net á föstudagskvöld lýsa akademískir starfsmenn þeirra þriggja deilda við HA sem sameining við HB á Bifröst hefði mest áhrif á miklum efasemdum um sameiningu og hvernig staðið er að málum. Skýrsla um mat á fýsileika sameiningar er þar harðlega gagnrýnd. Nánar síðar um viðbrögð ráðherra.

Í skýrslu stýrihóps um mat á fýsileika sameiningar skólanna er eftirfarandi kafli. Feitletrun er blaðamanns.

„Háskólinn á Akureyri hefur heimild til doktorsnáms en ekki Háskólinn á Bifröst. Hvorugur háskólanna hefur öflugan rannsóknasjóð, ólíkt Háskóla Íslands og Háskólanum í Reykjavík. Rannsakendur á Akureyri og Bifröst verða því að sækja nánast allt sitt rannsóknafé í samkeppnissjóði, sem eru mjög takmarkaðir á Íslandi. Rannsakendur í Háskólanum á Akureyri og Háskólanum á Bifröst hafa sótt í stærri erlenda sjóði en það er áskorun fyrir báða háskólana, vegna smæðar þeirra og lítilla rannsóknateyma, að byggja upp innviði til að leiða umsóknir um alþjóðlega styrki. Stofnun rannsóknasjóðs er lykilatriði fyrir auknar rannsóknir í nýjum háskóla. Stofnfé sjóðsins mun fást með sölu eigna á Bifröst, sem þá nýtast til sóknar í rannsóknum, auk þess sem sóst verður eftir mótframlagi frá ríki og mögulega fleiri aðilum. Rannsóknasjóðurinn getur t.a.m. farið þá leið að halda höfuðstól ósnertum og úthluta vöxtum til verkefna sem hlotið hafa jákvæða umsókn en ekki fjárframlaga frá samkeppnissjóðum. Með rannsóknasjóði, fleiri akademískum starfsmönnum sameinaðs háskóla og sterkari stoðdeildum skapast einnig ný tækifæri til umsókna í alþjóðlega rannsóknasjóði og aukinni þátttöku í alþjóðlegum rannsóknaverkefnum.“

Stýrihópinn skipuðu eftirtalin.

Frá Háskólanum á Akureyri:
Elín Díanna Gunnarsdóttir, starfandi rektor Háskólans á Akureyri
Brynjar Karlsson, forseti heilbrigðis- viðskipta- og raunvísindasviðs Háskólans á Akureyri
Hólmar Erlu Svansson, framkvæmdastjóri háskólaskrifstofu Háskólans á Akureyri

Háskólinn á Bifröst:
Margrét Jónsdóttir Njarðvík, rektor Háskólans á Bifröst
Bjarni Már Magnússon, forseti lagadeildar Háskólans á Bifröst
Halldóra Lóa Þorvaldsdóttir, framkvæmdastýra kennslu og þjónustu við Háskólann á Bifröst

Aðalsteinn Leifsson, fyrrverandi ríkissáttasemjari, var hópnum til ráðgjafar og aðstoðar.

Jöfn tæki­færi til menntunar

Ingibjörg Isaksen skrifar
08. október 2024 | kl. 22:30

Góð leiksvæði eru gulls ígildi

Hilda Jana Gísladóttir skrifar
08. október 2024 | kl. 09:30

Stærra mál en Icesave og þriðji orkupakkinn

Hjörtur J. Guðmundsson skrifar
02. október 2024 | kl. 06:00

Heil­brigðis­stofnun Norður­lands 10 ára í dag

Jón Helgi Björnsson skrifar
01. október 2024 | kl. 12:20

Séreignarsparnaðarleið Sjálfstæðisflokksins

Njáll Trausti Friðbertsson skrifar
28. september 2024 | kl. 12:00

Hvað segir það um málstaðinn?

Hjörtur J. Guðmundsson skrifar
28. september 2024 | kl. 06:00