Fara í efni
Fréttir

Miklar efasemdir – sameiningarferli verði hætt eða slegið á frest

Háskólinn á Akureyri. Ljósmynd: Þorgeir Baldursson

Akademískir starfsmenn þeirra þriggja deilda við Háskólann á Akureyri sem sameining við Háskólann á Bifröst hefði mest áhrif á lýsa miklum efasemdum um sameiningu og hvernig staðið er að málum. Skýrsla um mat á fýsileika sameiningar er harðlega gagnrýnd.

Þetta kemur fram í ályktunum sem samþykktar voru á deildarfundum. Um er að ræða Félagsvísindadeild, Viðskiptadeild og Lagadeild en deildirnar þrjár sem starfræktar eru við Háskólann á Bifröst eru samsvarandi þessum. Ályktun viðskiptadeildar HA var samþykkt fyrir jól og rædd á Háskólaráðsfundi snemma árs en hinar tvær voru samþykktar á deildarfundum í þessari viku og verða til umfjöllunar þegar Háskólaráð HA kemur saman í næstu viku.

Sameiningarviðræðum skuli hætt

  • Viðskiptadeild ályktar að sameiningarviðræðum við Háskólann á Bifröst skuli hætt. Deildin segir beinlínis að sameining skólanna tveggja sé ekki í þágu betra háskólastarfs á Íslandi. Í ályktun deildarinnar segir meðal annars að ljóst sé að verði skólarnir sameinaðir muni meirihluti akademískra starfsmanna deildarinnar verða staðsettur í Reykjavík og nafnið Háskólinn á Akureyri væntanlega verða aflagt
  • Deildin telur að verði hún sameinuð Bifröst verði mikið rask á starfsemi hennar, „sérstaklega á meistarastigi og allar líkur á að ekki verði hægt að bjóða slíkt nám áfram nema með skólagjöldum.“ 
  • Einnig segir að Háskólinn á Bifröst hafi seytlað jafnt og þétt til Reykjavíkur og nú sé svo komið að lang flestir starfsmenn Bifrastar hafi vinnuaðstöðu í Reykjavík og starfi þar.
  • „Þar með verður Viðskiptadeild HA komin á sömu braut og Bifröst fór, þ.e. að starfsemin seytli jafnt og þétt til höfuðborgarinnar og háskólasamfélag á Akureyri veikist ár frá ári.“

Smellið hér til að lesa ályktun Viðskiptadeildar HA í heild. 

Haraldur heitinn Bessason fyrsti rektor Háskólans á Akureyri hringir Íslandskukkunni 1. desember árið 2007. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

Slagorða- og áróðurskennt

  • Félagsvísindadeild HA lýsir miklum efasemdum um ágæti þess að halda áfram með sameiningarferli HA og Háskólans á Bifröst. Skýrslan Mat á fýsileika sameiningar Háskólans á Akureyri og Háskólans á Bifröst veiti engin svör við mikilvægum spurningum en sé slagorða- og áróðurskenndur málatilbúnaður fyrir sameiningu. Það veki furðu.
  • „Jafnvel þótt fráfarandi rektor HA [Eyjólfur Guðmundsson] hafi leitast við að skýra einstök atriði með öðrum hætti en skilja má af skýrslunni og rætt um að skilyrði væru sett af hálfu HA, er það ekki nóg til að draga úr þeim grundvallar efasemdum sem deildin hefur.“
  • Síðan segir í ályktun Félagsvísindadeildar: „Deildin hvetur því til þess að þessu sameiningarferli verði hætt eða að lágmarki slegið á frest þar til efasemdum starfsfólks deildarinnar og HA hefur verið eytt.“
  • „Starfsfólk Félagsvísindadeildar HA hefur áhyggjur af því að áskoranir við að sameina opinberan háskóla og einkarekinn háskóla reynist óyfirstíganlegar og að sameining muni koma niður á íslensku háskólastarfi fremur en að efla það.“
  • Starfsfólk Félagsvísindadeildar HA óttast meðal annars að verði deildin sameinuð Félagsvísindadeild Bifrastar muni hluti framhaldsnáms einungis verða í boði gegn greiðslu skólagjalda. Slík grundvallarbreyting myndi rýra jafnrétti til náms.
  • Langflestir starfsmenn Bifrastar eru búsettir á höfuðborgarsvæðinu (u.þ.b. 80%) og starfa þar. Verði af sameiningu háskólanna verður, að óbreyttu, um þriðjungur starfsfólks sameinaðs háskóla og enn hærra hlutfall starfsfólks sameinaðrar Félagsvísindadeildar staðsett fyrir sunnan.“ Í því felist gífurlega miklar áskoranir fyrir háskólasamfélagið á Akureyri og staðsetningu sérfræðistarfa á landsbyggðunum.
  • „Hætta er á að sameinaður háskóli seytli með tímanum til Reykjavíkur líkt og fór fyrir Bifröst. Vandséð er hvernig það sé í þágu háskólastarfs á landsbyggðunum og Íslandi öllu að þungamiðja þess færist enn nær Reykjavík en raunin er þegar. 

Smellið hér til að lesa ályktun og greinargerð Félagsvísindadeildar í heild. 

Vantar raunsæ og rökstudd svör

Lagadeild HA telur nefnda skýrslu ekki innihalda nægilegar upplýsingar um fýsileika sameiningar til þess að hægt sé að taka ákvörðun um hana, að því er segir í ályktuninni. Nauðsynlegt sé að leita raunsærra og rökstuddra svara við helstu álitamálum, og leggur deildiln áherslu á að akademísku starfsfólki sé gefinn raunhæfur kostur á að bregðast við áður en frekari ákvarðanir verði teknar um sameiningaráform.

Sverrir heitinn Hermannsson var menntamálaráðherra þegar Háskólinn á Akureyri var settur á stofnun. Hann er hér, til vinstri, á 20 ára afmæli skólans árið 2007 ásamt Þorsteini Gunnarssyni þáverandi rektor. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

Í greinargerð með ályktun Lagadeildar HA segir meðal annars:

  • Deildin telur að rökstuðningur í áðurnefndri skýrslu, um mat á fýsileika sameiningar skólanna tveggja, sé „afar almennur og efnislega innihaldsrýr.“ Í raun sé hann svo rýr að ekki sé hægt að taka afstöðu á grundvelli hennar til þess hvort sameining geti talist fýsilegur kostur eða ekki.
  • Þá telur deildin að í skýrslunni sé einnig að finna villur eða fyrirfram gefnar forsendur. „Til dæmis er umfjöllun um stöðugildi á HB sem ekki eru í samræmi við upplýsingar sem lagadeild [HA] bárust haustið 2023 frá lagadeild HB ... Þá eru jafnframt settar fram órökstuddar staðhæfingar um að lagadeildinfámenn og rekstur ekki hagkvæmur.“
  • Að mati Lagadeildar er heldur ekki farið nægilega vel yfir það með hvaða hætti kennsla skuli vera skipulögð í hinum nýja háskóla. Þó báðir skólar bjóði upp á nám sem er að miklu leyti óháð staðsetningu þá sé skipulag námsins með afar ólíkum hætti.
  • Nokkrum mikilvægum spurningum er ósvarað að mati lagadeildar HA. Til að mynda sé það gefið til kynna í skýrslunni að meistaranám í félagsvísindum, viðskiptafræði og lagadeild skuli heyra undir hina nýju sjálfseignarstofnun og að heimild verði fyrir innheimtu skólagjalda í því námi. Á opnum upplýsingafundi með rektor HA á dögunum hafi aftur á móti komið fram að fyrir meistaranám sem teljist til faggildingar og sé meira en 60 einingar verði ekki innheimt skólagjöld. „Að mati deildarinnar er þetta ekki í fullu samræmi við það sem stendur í skýrslunni og telur lagadeildin nauðsynlegt að þetta, sem fram kom á upplýsingafundinum, verði nánar útfært og skjalfest áður en fleiri skref verði stigin. Þannig liggi t.d. klárlega fyrir að unnt verði að ljúka fullnaðarnámi í lögfræði á landsbyggðinni, en slíkt fullnaðarnám er fimm ára nám (BA og ML), án innheimtu skólagjalda, hér eftir sem hingað til. Þá er innheimta skólagjalda slík grundvallarbreyting á fyrirkomulagi náms að það þarfnast töluverðrar rannsóknarvinnu á mögulegum áhrifum þess á hina ýmsu þætti ...“

Allir fjórir rektorar í sögu Háskólans á Akureyri. Myndin er tekin á 30 ára afmæli skólans árið 2017. Standandi frá vinstri: Þorsteinn Gunnarsson, Eyjólfur Guðmundsson og Stefán B. Sigurðsson. Málverk af Haraldi Bessason á veggnum. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson 

  • Lagadeild HA bendir á að fyrirliggjandi upplýsingar gefi til kynna að til standi að innheimta skólagjöld vegna meistaragráðu í heimskautarétti og mótmælir þeirri ráðagerð harðlega.
  • „HA hefur margsinnis ítrekað sérstöðu sína á sviði norðurslóðafræða, bæði í rannsóknum og kennslu, og er meistaranám í heimskautarétti ein af grunnforsendum þeirrar sérstöðu. Til deildarinnar hafa komið helstu sérfræðingar heims á þessu sviði til að kenna og halda fyrirlestra á hverjum tíma og hefur deildin styrkt stöðu sína verulega á alþjóðasviðinu á undanförnum árum með þessari námsleið. Að mati deildarinnar er innheimta skólagjalda til þess fallin að raska þessari stöðu verulega.“
  • „Enn ber að nefna að meistaranám í heimskautarétti einnig sá farvegur sem líklegast er að doktorsnemar sæki í. Í doktorsnámi við HA hefur hingað til verið lögð áhersla á jafnrétti til náms, án tillits til fjárhags. Lagadeildin telur afar mikilvægt að hvika ekki frá þeirri stefnu. Jafnframt tekur lagadeildin undir áhyggjur sem kennarar viðskiptafræðideildar hafa greint frá á opnum fundum um efnið að því er varðar áhrif innheimtu skólagjalda fyrir meistaranám á möguleika HA til þess að byggja upp doktorsnám.“
  • Þá telur lagadeildin einnig rétt að koma á framfæri ábendingum við nokkra þætti í ferlinu, m.a. því að deildin telur varhugavert að breyta nafni stofnunarinnar. „Háskólinn á Akureyri hefur unnið að því síðastliðna áratugi að koma skólanum og nafni hans á framfæri og hefur það tekist með mikilli vinnu akademísks starfsfólks, ásamt öðrum, bæði á innlendum sem og alþjóðlegum vettvangi. Að mati deildarinnar eru verulegar líkur á því að sú staða raskist við nafnabreytingu.“

Smellið hér til að sjá ályktun og greinargerð Lagadeildar HA í heild.