Fara í efni
Umræðan

Hlaut verðlaun ÖBÍ fyrir doktorsverkefni

Sara Stefánsdóttir, lektor við Iðjuþjálfunarfræðideild Háskólans á Akureyri.

Sara Stefánsdóttir, lektor við Iðjuþjálfunarfræðideild Háskólans á Akureyri, hlaut í vikunni verðlaun ÖBÍ réttindasamtaka fyrir framúrskarandi doktorsritgerð í fötlunarfræðum. Greint er frá þessu á vef skólans.

Þetta er í fyrsta sinn sem ÖBÍ, heildarsamtök fatlaðs fólks á Íslandi, veitir verðlaun fyrir lokaverkefni til meistara- og doktorsgráðu með áherslu á fatlað fólk og/eða fötlunarfræði, eftir tilnefningar frá öllum háskólum landsins. Verðlaunin voru afhent á alþjóðadegi fatlaðs fólks 3. desember í Mannréttindahúsinu í Reykjavík.

Vekur athygli á stöðu fatlaðra foreldra

Doktorsritgerð Söru ber heitið „Glíma seinfærra foreldra við kerfislægar hindranir út frá réttindamiðaðri nálgun“ (e. Parents with Intellectual Disabilities Negotiating Systemic Challenges through a Rights Based Approach). Í umsögn dómnefndar kemur fram að rannsóknin varpi ljósi á stöðu seinfærra foreldra sem mæta kerfislægum hindrunum, meðal annars í aðgengi að viðeigandi stuðningi og í samskiptum við kerfi sem koma að málefnum fjölskyldna.

Við afhendingu verðlaunanna. Sara Stefánsdóttir er lengst til hægri, fyrir miðju er Alma Ýr Ingólfsdóttir, formaður ÖBÍ, til vinstri er Bjarney Lárudóttir Bjarnadóttir sem fékk verðlaun fyrir framúrskarandi meistararitgerð við Háskólann á Bifröst. Mynd af vef Háskólans á Akureyri.

„Það er mikill heiður að fá svona verðlaun. Það er viðurkenning á gæðum rannsóknarinnar en fyrst og fremst vekja þau athygli á stöðu fatlaðra foreldra innan kerfisins og þá sérstaklega seinfærra foreldra en hún er ákaflega þung, bæði hvað varðar aðgengi að viðeigandi stuðningi í foreldrahlutverkinu og réttlátri meðferð innan kerfisins,“ segir Sara á vef Háskólans.

Rannsaka þarf stöðu barna

Sara leggur áherslu á að þekking sem rannsóknir hafi þegar byggt upp um hindranir og árangursríkan stuðning skili sér inn í kerfin „á öllum stigum, frá stjórnsýslu niður í praktík“. Hún segir einnig brýnt að rannsaka þurfi betur stöðu uppkominna barna seinfærra foreldra á Íslandi: „Mér finnst að sérstaklega þurfi að rannsaka stöðu þeirra barna sem hafa verið tekin úr umsjá foreldra sinna og hafa alist upp sem fósturbörn. Það er margt sem bendir til þess að huga þurfi mun betur að afleiðingum slíks aðskilnaðar og áhrifa á velferð þeirra sem alast upp í „kerfinu“,“ segir Sara og bætir við að það verði spennandi að fylgjast með hvort og þá hvernig löggilding samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks muni hafa áhrif á fjölskyldulíf fatlaðs fólks.

Vefur Háskólans á Akureyri

Stafrænt kynbundið og kynferðislegt ofbeldi: alvarlegt og vaxandi samfélagsmein

Tryggvi Hallgrímsson skrifar
06. desember 2025 | kl. 11:00

Opið bréf til stjórnvalda

Hjúkrunarfræðingar, sjúkraliðar og aðrir starfsmenn lyflækningadeildar Sjúkrahússins á Akureyri skrifa
03. desember 2025 | kl. 10:00

Fundur á Akureyri um hættulega úrelta stjórnarskrá Íslands

Hjörtur Hjartarson og Katrín Oddsdóttir skrifa
28. nóvember 2025 | kl. 18:00

Jákvæð áhrif millilandaflugs til Akureyrar eru miklu meiri en þú heldur

Lára Halldóra Eiríksdóttir skrifar
27. nóvember 2025 | kl. 10:30

Opið bréf til Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar

Gunnar Már Gunnarsson skrifar
26. nóvember 2025 | kl. 17:30

Eflum SAk

Ingvar Þóroddsson skrifar
26. nóvember 2025 | kl. 15:10