Fara í efni
Pistlar

Framhleypnir og digurmæltir

ÞESSI ÞJÓÐ – 10

Íslendingar eru svo sem vænstu grey upp til hópa en eiga það til að vera óþolandi í umgengni. Sjálfur sækist ég alla jafna ekki eftir samneyti við þá erlendis og varast að bóka hótel eða vera í þéttbýliskjarna þar sem maður á meiri hættu á að rekast á landa sinn en á gangi niður Laugaveginn. Hins vegar er ekki sama hvar maður ber niður á landinu, mannlífið virðist afar mismunandi og kannski var eitthvað til í flokkun Eggerts og Bjarna í gamla daga á lyndiseinkunn eftir landshlutum.

Það er sjálfsagt óþarfi að rifja upp rannsóknir þeirra félaga og annarra á Íslendingum fyrri alda en allt í lagi að geta þess að þeir sögðu að við Eyfirðingar værum kyrrlátir og siðugir, Skagfirðingar framhleypnir og digurmæltir, Ísfirðingar og Strandamenn vel gefnir vinnuþjarkar, Borgfirðingar skynsamir, iðjusamir og fjörugir, íbúar í Gullbringu- og Kjósarsýslu tómlátir og ómannblendnir en á Eyrarbakka væru úrkynjaðir sóðar. Uss, uss, svona segir maður ekki í dag og raunar varasamt að alhæfa eitthvað um íbúa í landshlutum eða þjóðina í heild.

Við hjónin höfum víða farið og heilt yfir er einna lærdómsríkast að ferðast um Ísland. Yfirleitt er okkur fjarska vel tekið. Hjónadekur á Siglufirði, Húsavík, Selfossi og Egilsstöðum kalla fram minningar um gott mannlíf, ferðir um Norður- og Austurland, suðausturhornið, Snæfellsnes og víðar; góðar móttökur og ánægjuleg dvöl. Kannski er upplifunin síst á höfuðborgarsvæðinu og Reykjanesinu en margir ljósir punktar líka. Ætli fólksfjöldinn, umferðin, stressið og lætin dragi ekki aðeins úr ánægjunni þarna fyrir sunnan.

Eftirminnilegust er ferð okkar til Vestfjarða fyrir nokkrum árum. Á Ísafirði hafði verið ömurlegt veður allt sumarið en við komum með þrjá sólardaga með okkur og fyrir það var fólkið þakklátt en svo maður tali í alvöru þá lifnaði skiljanlega allt við í góða veðrinu. Já, Ísfirðingar og nærsveitungar voru vænir og á Suðureyri man ég að allir heilsuðu brosandi, meira að segja maður uppi á vinnupalli gerði stutt hlé á verkinu til að snúa sér við, brosa og heilsa okkur. Á Þingeyri vorum við stöðvuð á götu bara til að spjalla og þannig mætti áfram telja. Við voru alveg í skýjunum eftir þessa ferð og ekki leið á löngu þar til við gistum aftur á Ísafirði og síðan var það ferðin á Suðurfirðina m.a. með gistingu á Patreksfirði og enn á ný mættum við gleði og gestrisni.

Mig langaði bara til að nefna þetta sem mótvægi við allt fýlulega afgreiðslufólkið sem nennir varla að sinna manni og hendir einhverjum skufsum í mann og segir „hjadna“ eða „hanna“ eða „sonna“ eins og það sé að hendi beini í hund. Sumir ná varla að rífa sig úr símanum eða megna að tala fyrir tyggjói eða nikótínpúða og sjálfsögð kurteisi á borð við „get ég aðstoðað, gjörið þið svo vel, verði ykkur að góðu“ er víðs fjarri. Þetta eru auðvitað bara undantekningar og óráðlegt að dæma heilan hóp út frá nokkrum óalandi.

Ég stend hins vegar við það sem ég sagði í upphafi, að oftlega nenni ég ekki að vera nálægt Íslendingum erlendis. Á Tenerife, hvar ég hef dvalið í 8 skipti einn eða með öðrum, er fyrir minn smekk út úr korti að koma nálægt Amerísku ströndinni svokallaðri. Maður gæti eins verið í Kringlunni. Háværir og frekir Íslendingar æðandi um með ófullnægjusvip og útsöluglampa í augum, sífellt að leita að einhverju til að kaupa og á stanslausu trúnaðarskeiði á níunda glasi og til alls vísir. Til allrar hamingju hef ég fundið kyrrlátari og manneskjulegri staði á þessari ágætu eyju og þannig er þetta bara í lífinu; hver ætti að geta fundið það sem honum hentar og auðvitað á maður ekki að dæma aðra.

Góðar stundir.

Stefán Þór Sæmundsson er rithöfundur í frístundum

Gulrótnastuldurinn

Jóhann Árelíuz skrifar
28. september 2025 | kl. 06:00

Haust- og vetrarundirbúningur trjáa

Sigurður Arnarson skrifar
24. september 2025 | kl. 07:30

Í beinan kvenlegg

Ólafur Þór Ævarsson skrifar
22. september 2025 | kl. 12:00

Skólataska

Sigmundur Ernir Rúnarsson skrifar
22. september 2025 | kl. 11:30

Blómabíllinn, Pissubíllinn

Jóhann Árelíuz skrifar
21. september 2025 | kl. 06:00

Fallegt að fylgja hjartanu

Stefán Þór Sæmundsson skrifar
20. september 2025 | kl. 06:00