Þessi þjóð er óð í gróða

ÞESSI ÞJÓÐ – 5
Við Íslendingar höfum frá upphafi verið einstaklingshyggjumenn, harðduglegir og ósérhlífnir, afskaplega hugmyndaríkir og ekki látið okkur allt fyrir brjósti brenna. Sumir hafa kallað þetta síngirni og þvaðrað um að hér séu menn uppteknir við að skara eld að eigin köku en það er nú bara öfund hælbítanna. Þessi þjóð er að stofni til afkomendur landnámsmanna sem byggðu sinn grunn á hagsmunum einstaklinga, ættartengslum, útsjónarsemi og óbilgirni og þá var barist með gáfum, orðum, brögðum - og reyndar vopnum líka en ekki nánar út í þá sálma.
Hinn sanni og stolti Íslendingur vill ekki láta fletja sig út í einhverja meðalmennsku, ekki vera blýantsnagandi ríkisstarfsmaður, valdalaust verkfæri, tannhjól í verksmiðju og afurð einhvers konar sósíalískra samkvæmisleikja. Nei, við viljum völd og frelsi til athafna, einstaklingurinn verður að fá að njóta sín, annars visnar hann upp og deyr eins og jurt í skugga of margra trjáa.
Á síðustu árum og áratugum höfum við orðið vitni að mörgum glæsilegum dæmum sem staðfesta snilligáfu einstaklingshyggjumanna. Við skulum ekkert velta okkur upp úr einstaka brotlendingum sem ytri aðstæður skópu því heilt yfir er Ísland kjörlendi fyrir hagnað hinna duglegu og frá örófi hefur þessi þjóð verið óð í gróða, svo maður rími aðeins. Reyndar virðist hugtakið gróði hafa neikvæðari merkingu en hagnaður, ábati, tekjur, arðsemi, jákvæð eiginfjárstaða eða hagstæður rekstur.
Lítum þá á nokkur dæmi um hina tæru snilld. Að stofna fyrirtæki í orði, borði eða skúffu, koma gróðanum undan, keyra það í þrot, skipta um kennitölu og byrja upp á nýtt. Þetta er þjóðaríþrótt sem þarf ekki að hafa fleiri orð um. Annað: Margir hagnast á því að telja Íslendingum trú um að þeir þurfi húðflúr, varafyllingu, há kinnbein, hin og þessi bætiefni, snyrtivörur, nikótínpúða og veip, orkudrykki, nýjan síma árlega, mörg pör af eyrnatöppum á ári og svo reiðinnar býsn af áfengi í netsölu, svo eitthvað sé nefnt. Sumsé, snilldin er í því fólgin að skapa (gervi)þörf og eftirspurn, dæla vörunum í kúnnann og ef þetta fer eitthvað illa í hann þá verður ríkið að grípa inn í og glíma við afleiðingarnar.
Við komum líka sterkir inn í ferðaþjónustuna; kaupum upp heilu blokkirnar til að leigja ferðamönnum og spenna upp verðið vegna skorts á íbúðum, stofnum alls konar fyrirtæki og blóðmjólkum túristana og skiljum þá jafnvel eftir uppi á jökli eða ofan í helli og látum aðra um björgunina. Við kaupum jörð eða bara einhvern skika nálægt vinsælum ferðamannastöðum, komum upp bílastæði með gjaldtöku og horfum á peningana streyma inn og þykjumst ætla að gera eitthvað til að bæta aðstöðu eða vernda landið en látum það svo ekki trufla tekjustrauminn. Er það ekki ríkið sem á að sjá um að hafa vegina í lagi og þessa svokölluðu innviði?
Mantra hins frjálsa einstaklings er svo að vera á móti ríkinu og skattlagningu og beita öllum brögðum til þess að borga engan eða allra lægsta skatt sem hægt er að komast upp með. Jú, jú, ríkið er að mörgu leyti gagnlegt í þessum bransa. Einkafyrirtæki semur við ríkið, t.d. um læknisþjónustu eða annað nauðsynjaverk og verðleggur þetta svo í topp og kúnninn maldar ekki í móinn þegar hann fær stóran hluta endurgreiddan frá ríkinu og einkafyrirtækið fær auðvitað sitt hlutfall og því hagstæðast að hafa reikningana sem feitasta.
En ríkið... það er ég, það ert þú. Jæja, ég ætla ekki að reyna að útskýra eðli skatta fyrir kapítalistum og við skulum ekki amast við einkaframtakinu en kannski mættu leikreglur vera skýrari. Þversagnirnar eru ansi margar og bilið á milli þess að vera svokallaður athafnamaður eða ótíndur þjófur og glæpamaður er býsna stutt á köflum. Annars er þjófnaður í einhverri mynd sennilega algengasta dæmið um einkaframtak og sjálfsbjargarviðleitni að minnsta kosti í hinum vestræna heimi þar sem menn missa hvorki útlim né líf fyrir smá gripdeildir eða t.d. fíkniefnasölu heldur vaxa jafnvel frekar í áliti og metorðum.
Lifi frelsið!
Stefán Þór Sæmundsson er óflokksbundinn Akureyringur á sjötugsaldri.


Bergfuran við Aðalstræti 44

Eyrarland, gamla íbúðarhúsið

Strandir

Í hita leiksins
