Fara í efni
Pistlar

Þessi þjóð er á tali

Ég sagði ranglega í síðasta pistli að hundurinn væri besti vinur mannsins. Það voru gamlar fréttir. Í dag er það auðvitað síminn og uppfærist það hér með. Án símans sem gróinn er við greipina getur þessi þjóð hvorki sinnt daglegum þörfum, opinberum viðskiptum, félagslífi eða tjáð ást sína eða skoðanir yfirhöfuð. Þetta þýðir að margir þeir sem tilheyra gamla settinu og hafa ekki snjallsímavætt sig verða útundan að flestu leyti og þurfa á reiða sig á yngri og tæknilegri afkomendur til að fúnkera í samfélaginu. Við hin erum auðvitað himinlifandi með þennan óbilandi trausta vin.

Upplyfting hitti sannarlega naglann á höfuðið þegar hún söng um trausta vininn sem getur gert kraftaverk. Akkúrat þannig er snjallsíminn, sem geymir allt vit heimsins. Í Hávamálum segir einmitt að vit sé besta veganestið og hugsið ykkur bara að reyna að lifa daginn af án síma, hversu innantóm og merkingarsnauð tilveran yrði og óhamingjan gjörsamlega botnlaus í fásinni og tilgangsleysi.

Þar sem ég feta ekki alltaf slóð fjöldans á ég það til að hlaupa útundan mér í þessum efnum. Móðir mín heitin þurfti einmitt að heyra það frá kennurum í Gagnfræðaskólanum á sínum tíma að sonurinn væri baldinn, hortugur, léti illa að stjórn, uppreisnargjarn en þó prýðilegum gáfum gæddur. Æ, ég þoldi bara ekki yfirgang og hroka sumra kennara og almenna hjarðhegðun og svaraði stundum í sömu mynt. En hvert er ég að fara, jú, ég er ekki alveg sannfærður um að síminn sé besti vinur mannsins.

Síðustu þrjá áratugi hef ég fengist talsvert við kennslu og skemmst er frá því að segja að snjallsíminn er í senn besta hjálpartækið og mesti skaðvaldurinn sem nemendur hafa fengið upp í hendurnar. Vissulega var fartölvan skref í þessa átt; nemendur gátu gúgglað svör, leitað sér þekkingar jafnóðum og svo auðvitað sprengt blöðrur eða spilað aðra leiki meðan kennarar rúlluðu heilu glærusýningunum út úr skjávarpanum með tilheyrandi tuldri. Síminn færði síðan þennan veruleika yfir á annað tilverustig; skyndilega voru allir möguleikar heimsins lagðir í lófa manns. Hins vegar verður hið mannlega óhjákvæmilega útundan en ef til vill er það bara eðlileg þróun að menn breytist í maskínur.

Þegar ég tala um að feta ekki í fjöldans slóð á ég t.d. við að í kennslu langar mig gjarnan að hafa samskipti við nemendur og stuðla að gefandi samræðum og gagnvirkni. Í gönguferðum vil ég hlusta á náttúruna og er því ekki með tónlist í eyrunum eða gónandi á símann. Mér finnst raunar stórfurðulegt að sjá fólk á gangi með símann á lofti líkt og það rati ekki spönn og ráfi eftir korti eða það geti ómögulega gert hlé á glápi sínu á einhverja heilalausa þáttaseríu. O, jæja, kannski á þetta fólk svona marga vini og þá er þetta bara öfund hjá mér eins og út í karlana sem eru alltaf með risastórt plögg í eyranu því þeir eru svo mikilvægir og þurfa alltaf að vera í sambandi.

Mér finnst á hinn bóginn gott að kúpla mig út úr sambandi við alheiminn svona annað slagið. Vera frjáls. Vera á tali. Óínáanlegur (skemmtilegt orð!). Fara í göngu, sund, hjóltúr eða hitta fólk án síma og skoða bara eftir á hvort ég hafi misst af einhverju óskaplega áríðandi – sem gerist afskaplega sjaldan. Og vei þeim sem fara með símann í rúmið og eru jafnvel með kveikt á væfæinu yfir nóttina.

Þessi þjóð er svo sem ekkert frábrugðin flestum öðrum en þó reynum við að setja met í farsímaeign, notkun samskiptamiðla, veðmálum og kvíða ungmenna svo eitthvað sé nefnt. Ísland er jú land öfganna. Ég get heldur ekki neitað því að mér finnst ankannalegt að horfa yfir sal af fólki þar sem allir eru í símanum og tala ekki saman, ganga fram hjá þremur ungmennum í vinnuskólanum sitjandi á bekk í símanum og horfa upp á par á veitingahúsi þar sem hvort um sig er í símanum.

Ég er ekki á móti tækni eða framförum en ég vil halda í mennskuna og leyfa mér að vera á tali.

Stefán Þór Sæmundsson er íslenskukennari og rithöfundur og er stundum á tali

Ótilhlýðileg framkoma í eitruðu starfsumhverfi

Ólafur Þór Ævarsson skrifar
01. ágúst 2025 | kl. 09:30

Einkennisbarrtré suðurhvelsins

Sigurður Arnarson skrifar
30. júlí 2025 | kl. 09:00

Atlavík

Sigmundur Ernir Rúnarsson skrifar
28. júlí 2025 | kl. 11:30

Timburmenn

Ólafur Þór Ævarsson skrifar
27. júlí 2025 | kl. 06:00

Sumarfrí

Jóhann Árelíuz skrifar
27. júlí 2025 | kl. 06:00

Þessi þjóð er farin í hundana

Stefán Þór Sæmundsson skrifar
26. júlí 2025 | kl. 06:00