Fara í efni
Pistlar

Kanínuholan sem ekki er hægt að klípa sig frá

Í miðri lautarferð lífsins, kúrði ég mig á milli þúfna og horfði upp í himininn. Skoðaði skýjamyndir þó hvergi skyggði á tilveruna í þessari laut, á þessari stundu. Niðursokkin í sjónarspil himinsins, varð lítið þrusk til þess að trufla mig og fá mig til að rísa upp. Ég sá glitta í dindilinn á hvítri kanínu, sem stökk í skyndi bak við tré. 

Forvitnin bar mig ofurliði og ég reis upp úr lautinni góðu. Ég elti kanínuna, náði að sjá til hennar aftur örlítið lengra frá. Ég sá hana hverfa ofan í holu, rétt áður en hún rak upp höfuðið með löngu eyrun sín, og kallaði til mín að drífa mig. Við mættum engan tíma missa. Ég hlýddi umsvifalaust og stökk á eftir henni niður í holuna.

Ég datt og datt og datt. Lengi. Veggir holunnar voru skreyttir með alls konar myndum. Myndum af eldgosum. Risavöxnum hjólhýsum. Brosköllum. Mótmælum. Útsölum. Forsetaframbjóðendum. Alls konar. Ég náði samt ekki að skoða neitt nógu vel, ég datt svo hratt. Myndirnar þutu hjá eins og á fréttaveitum samfélagsmiðlanna. Þumlar, hjörtu og hláturkarlar þyrluðust í kring um mig eins og fjaðrir.

Loksins lenti ég á hörðu gólfi og við mér blasti langur gangur. Kanínan hoppaði fyrir horn, langt frá. Ég rölti af stað, heldur rasssár eftir lendinguna. Hvaða staður var þetta? Ég var töluvert ringluð eftir að hrynja niður holuna, allar upplýsingarnar sem mættu mér á veggjunum voru eins og troðfullur sekkur sem reyndi að berja sér leið út úr höfðinu á mér. Hvað var eiginlega þetta með stólaleikinn?

Ég rölti af stað eftir flísalögðu gólfi. Það voru lokaðar dyr eftir ganginum endilöngum. Flestar voru læstar, á þeim stóð að ég þyrfti að standast greiðslumat til þess að komast inn, og það var ekkert annað í stöðunni en að halda áfram eftir ganginum. Loksins sá ég hálfopnar dyr. Ég gekk varlega inn og við mér blasti undarleg sjón.

Hundrað manns stóðu í einum hnapp og óskuðu eftir því að ég myndi skrifa undir meðmælalista. Þau ætluðu öll að verða forseti Íslands. Ég reyndi að troða mér í gegn um mannhafið, bar hendur fyrir höfuð mér til þess að verjast oddhvössum pennum og háværum köllum. Loksins sá ég til sólar, og viti menn, þar var kanínan mætt aftur. Hún tísti með glettnissvip og fékk fullt af endurtístum, sem blikkuðu í kring um okkur eins og stjörnur. Broskarlarnir grenjuðu úr hlátri hver framan í annan. „Skrípaleikur!“ öskruðu þeir. 

Ég hljóp á eftir henni og heyrði kliðinn í forsetunum deyja út. Við kanínan stukkum ofan í Ittala skál (Ultima Thule) og soguðumst ofan í blátt hyldýpi með angistarkveini. Við lentum í skógarjaðri, ringlaðar og blautar í bossann. Ég reyndi að átta mig á tilverunni áður en ég stóð upp og elti kanínuna inn í skóginn. Þessi staður var í meira lagi undarlegur. Ég hefði viljað haft vit á því að halda mig í lautinni góðu. 

Það var farið að kvölda, og ég var ekki viss um að þessi skógur væri öruggur. Það var mikið af alls konar dýrum á ferð, og þó að þau væru ekki að skipta sér af okkur, stóð mér nokkur beygur af þeim. Það var skógi vaxin hæð í fjarska þar sem undarlegir ljóskastarar snerust hring eftir hring og lýstu upp himininn. Stór stuðlabergsturn skagaði upp úr kjarrinu og vakti voldugur yfir skóginum. Fljótlega fór kanínan að hægja ferðina og fyrr en varir var hún búin að heilsa einhverjum. 

Við langt borð í virðulegu kjarri sat hópur fólks. Það var teboð, en enginn tók eftir mér. Ég var ómerkileg stærð í boðinu, þrátt fyrir að vera nokkuð viss um að hafa valið eitthvað af þessu fólki til setu við borðið. Lágvaxin kona brosti sínu blíðasta og þakkaði fyrir ánægjulega samveru í boðinu, en hún þyrfti eiginlega að stinga af núna. Virðulegur karl í vandlega straujuðum jakkafötum gaf henni fimmu og beið þar til hún var horfin inn á milli trjánna, áður en hann settist í sætið hennar og rak upp hláturroku. Kanínan tísti aftur og nú lýstist himininn upp á augabragði með endurtístum alls staðar að. 

Enn mætti hópur fólks með undirskriftarlista, en í þetta sinn voru það ekki forsetar. Þeim gekk reyndar töluvert betur að fá undirskriftir og fljótlega stóðu þúsundir manna í kring um jakkafatamanninn. Öll með reiðisvip og heykvíslir. Hann kærði sig kollóttan og skar sér stóra kökusneið og sullaði í sig tei. Fljótlega ákvað hann að ein sneið væri ekki nóg fyrir sig og tók alla kökuna. Ég fann ógleðina og heimþrána ólga innra með mér.

Ég kleip mig fast í handlegginn og vonaðist til þess að lenda aftur í lundinum góða, þar sem heimurinn væri skiljanlegur. Ég kleip og kleip en ekkert gekk. Kanínan hallaði undir flatt og ég áttaði mig á því að ég var óheppnari en Lísa. Þetta var enginn draumur og ég uppskar ekki neitt nema marbletti með því að klípa sjálfa mig. Stundum er raunveruleikinn undarlegri en draumarnir. 

Rakel Hinriksdóttir er blaðamaður á Akureyri.net

Sperðlar

Sigmundur Ernir Rúnarsson skrifar
09. desember 2024 | kl. 11:30

Hér og nú – Frá augnabliki til augnabliks

Haukur Pálmason skrifar
09. desember 2024 | kl. 06:00

Íþróttasíða Halls Símonarsonar

Jóhann Árelíuz skrifar
08. desember 2024 | kl. 13:00

Hvar er hinn sanni jólaandi?

Hrund Hlöðversdóttir skrifar
06. desember 2024 | kl. 06:00

Grenivík

Jón Óðinn Waage skrifar
04. desember 2024 | kl. 13:00

Jólatré við JMJ og Joe's

Sigurður Arnarson skrifar
04. desember 2024 | kl. 10:30