Fara í efni
Pistlar

Nýtt ár, nýtt tungl og Hati á bak og burt

Tunglið sem hefur fylgt okkur inn í nýtt ár er einstaklega stórt og bjart. Yfir því er einhver vonarblær. Algjörlega ótruflað af skýjum, þoku eða öðru sem gæti skyggt á það á einhvern hátt.

Ekkert bólar á Hata, úlfinum sem eltir Mána í norrænu goðafræðinni.

Þar segir frá Sól og Mána, sem ferðast um himinhvolfið vegna þess að þau eru stöðugt elt af úlfunum Skoll og Hata. Þannig eru dagur og nótt útskýrð, birting og dimma í tilveru okkar á jörðinni. Systkinin Sól og Máni eru börn Mundilfara sem var bróðir Óðins og einn af þremur fyrstu mönnum sem fæddust til lífsins í sköpunarsögu norrænu goðafræðinnar.

Þegar ég horfi á þennan mána, kallaður úlfamáni, fyrsta tungl, og einnig fyrsta ‘ofurtungl’ ársins, þá finnst mér yfirbragðið ekki minna á Mána sem er eltur af úlfi yfir himininn. Yfir þessum mána er mikil ró. Stöðugleiki.

Ég hafði mikið dálæti á norrænni goðafræði þegar ég var lítil. Að tilveran væri þessi ævintýralegi staður, þar sem sólin er kona á flótta undan úlfi, allt og allir eiga uppruna sinn að rekja til jötunsins Ýmis, fyrstu mennirnir drekka mjólk risakýrinnar Auðhumlu til þess að lifa og regnboginn heitir Bifröst og er brú til Ásgarðs.

Það er einhver taug í okkur, sem langar til þess að heimurinn sé æsilegri og ævintýralegri en virðist við fyrstu sýn. Fólk er hrætt við stöðnun, tilbreytingarleysi og litleysi. En hvað ef það er í raun kyrrstaða hvers andartaks sem er ævintýri í sjálfu sér? Án þess að það þurfi nokkurrar skreytingar við?

Kannski er Hati ekki til. Enginn eltir okkur nema eigið eirðarleysi. 

Í morgun var tunglið statt yfir Tröllaskaganum. Eins og perla á dimmbláum himni, og kastaði öflugu skini á tignarleg fjöllin. Seinna um daginn var sama tungl orðið gullbleikt, og nálgaðist Kaldbakinn eins og gamall vinur. Himininn orðinn pastelbleikur með ljósbláum tilbrigðum, eins og vetrarhiminn á norðurhjara verður fegurstur.

Enginn asi. Engir úlfar. Bara tilveran í sinni sönnu mynd.

Höfundur er blaðamaður á akureyri.net.

Lausnin 1/7

Stefán Þór Sæmundsson skrifar
05. janúar 2026 | kl. 09:00

Þá riðu hetjur um héruð

Jóhann Árelíuz skrifar
04. janúar 2026 | kl. 06:00

Hús dagsins: Aðalstræti 32

Arnór Bliki Hallmundsson skrifar
02. janúar 2026 | kl. 06:00

Nú árið er liðið …

Ólafur Þór Ævarsson skrifar
31. desember 2025 | kl. 06:30

Skógarpöddur

Sigurður Arnarson skrifar
31. desember 2025 | kl. 06:15

Jólin í eldgamla daga – Svanhildur Anna

31. desember 2025 | kl. 06:00