Fara í efni
Pistlar

Þokaðu úr lokunni, aðeins andartak

DREKADAGBÓKIN - 6

– Þokaðu úr lokunni, aðeins andartak, svo eg nái til þeirra. –

Sáputaumur fylgir skúringarmoppunni og minnir helst á brim eða steinvölur við lækjarbakka. Andleg klósettþrif skálavarðarins í Drekagili eru langt komin, og í lokin er skúrað í snyrtihúsinu. Stundum kýs ég að spreyja og strjúka klósettunum í þögn, en í dag hlusta ég á sögu á meðan ég þríf. Niðri í byggðum stilli ég gjarnan á háværa danstónlist, keyri hjartsláttinn upp í nítíu að lágmarki og reyni að laga til og þrífa klósettið heima hjá mér á eins stuttum tíma og ég mögulega get. En ekki hér. Andleg klósettþrif eru ekki þannig. 

– Tíminn gerir mér glettu. Þokaðu úr lokunni. –

Það er rithöfundurinn Jakobína Sigurðardóttir sem á þessi orð. Ég er að hlusta á bók hennar, Í barndómi, sem er sú síðasta sem hún skrifaði. Bókin kom út árið 1994, sama ár og hún yfirgaf þennan heim. Bókin er sjálfsævisaga, þar sem Jakobína rifjar upp æsku sína í afskekktri sveit í Hælavík á Hornströndum. Söguhetjan, gamla konan, heimsækir Hælavík í bókinni, sem er löngu komin í eyði, og sér myndir og minningar í rústunum af bernskuheimilinu sínu.

– Þokaðu úr lokunni, aðeins andartak, svo eg nái til þeirra. –

Ský dregur frá sólu, og gamla konan heyrir, að í löngu yfirgefnu eldhúsinu er masað og hlegið. Ljóslifandi sér hún sjálfa sig sem litla stúlku, sem situr til borðs með foreldrum og systkinum og segir frá. Stundin er svo góð, að hún þráir að ferðast yfir tímans haf og komast aftur til þessarar stundar. Þokaðu úr lokunni

Ég hlusta á Vilborgu Halldórsdóttur lesa þessi orð, á meðan ég skúra síðasta hlutann. Ég minnist þess, hvað ég hef oft velt fyrir mér tímanum, einmitt þegar ég er stödd á þessum stað. Á fjöllum, þar sem klukkan er ekki neitt. Hvað er tíminn, og af hverju gerir hann okkur stöðugar glettur? Hvers vegna skríður hann eins og þungir þankar eina stundina og flæðir fram eins og fjallalækur þá næstu? Jakobína reynir að biðla til tímans, og ávarpar hann; lindin mín ljúf, og trú.

 

Silfurtær lækur rennur niður í gegnum Nautagil, sem er skammt frá Drekagili. Í eyðilegu umhverfinu er það lækurinn sem er ljósið. og lífið. Sífelldur klingjandi niður, í stöðugu flæði. Mynd: RH

Ísland er ungt í jarðarsögunni. Landið okkar hefur orðið til og byggst á stuttum tíma, miðað við stóran hluta heimsbyggðarinnar. Þegar gaus í Lúdentsgígum fyrir 2.300 árum síðan, og Mývatn eins og við þekkjum það í dag varð til – var fólk að spígspora á sandölum í Grikklandi að skrá hjá sér heimspekitilgátur og byggja stórkostlegar byggingar, sem margar hverjar standa enn í dag. 

Þegar Askja gaus síðast, árið 1875, myndaðist Öskjuvatn og sprengigígurinn Víti. Meðal annarra merkra atburða það ár á heimsvísu, má nefna að vinsæla óperan 'Carmen' var frumflutt í París við mikil fagnaðarlæti. Breskar lestar hættu að bjóða upp á annað farrými í vögnum sínum og héldu sig við að hafa bara fyrsta og þriðja. Á Íslandi bjó fólk við slík lífsskilyrði víða, að margir fóru að pakka í koffortin sín og flýja til Vesturheims. Sennilega fæstir á fyrsta farrými.

Í dag bjuggum við skálaverðirnir til heitt súkkulaði fyrir 26 ítali sem fóru að skoða Öskju. Þau voru komin aftur í Drekagil eftir heimsóknina á þennan vinsæla ferðamannastað. Allt umhverfi Dyngjufjalla – þar á meðal Drekagil og Askja – er ungt. Það yngsta er Holuhraun, en það eru bara 11 ár síðan það myndaðist í hraungosi, árið 2014. 

 

Umhverfi Drekagils er einstakt. Hráar og framandi bergmyndanir eru vitnisburður um eldsumbrot á jarðsögulegum nútíma. Eins og ljóslifandi minningar sem birtist þér í háskerpu. Myndir: RH

Á áttræðisaldri sat Jakobína Sigurðardóttir og skráði minningar sínar úr bernsku. Sumar óskýrar og fjarlægar, eins og bláir fjallstoppar í þokumistri, en sumar jafn ferskar og biksvart Holuhraunið. Í bréfi til systur sinnar árið 1992 skrifar hún: 

„Árum saman hef ég reynt að tína saman brot um bæina í Hælavík, minnið er svikult og ævin orðin löng. Það er víst meir en áratugur síðan ég byrjaði að leita, fyrst í eigin minni, síðan til þeirra sem enn eru eftir af hópnum, sem átti þar heima og eru næstir mér í aldri. En minni þeirra er eins og mitt, brot en ekkert heilt.“

Ég geng út á pallinn fyrir framan snyrtihúsið og helli úr skúringarfötunni. Kunnugleg þokulæða leikur um Drekagilið, eins og svo oft áður. Orð Jakobínu bergmála í huga mér.

– Tíminn gerir mér glettu. Þokaðu úr lokunni. –

 

_ _ _

  • Í Drekadagbókinni eru hugleiðingar, frásagnir og myndefni frá dvöl höfundar í Drekagili við Öskju, þar sem hún sinnir skálavörslu sumarið 2025 fyrir Ferðafélag Akureyrar. Rakel Hinriksdóttir er listakona, skáld, náttúruverndarsinni og blaðamaður Akureyri.net.

DREKADAGBÓK 2025

DREKADAGBÓK 2024

Þessi þjóð er hrædd við útlendinga

Stefán Þór Sæmundsson skrifar
16. ágúst 2025 | kl. 06:00

Andleg klósettþrif milli vídda

Rakel Hinriksdóttir skrifar
14. ágúst 2025 | kl. 11:30

Að gleyma sér 

Ólafur Þór Ævarsson skrifar
14. ágúst 2025 | kl. 08:45

Bláminn á barrinu

Sigurður Arnarson skrifar
13. ágúst 2025 | kl. 09:00

Ekki „gervigreind“ heldur upplýsingaverksmiðjur

Magnús Smári Smárason skrifar
12. ágúst 2025 | kl. 14:30

Sana

Sigmundur Ernir Rúnarsson skrifar
11. ágúst 2025 | kl. 11:30