Hvernig væri ásýnd Akureyrar án stóru trjánna?

Það vakti athygli að rótgróið tré í götumynd Innbæjarins, síberíulerki nokkurt, var fellt 3. júlí síðastliðinn. Tréð stóð í garðinum að Aðalstræti 19, og stóð heldur nálægt húsinu, þar sem það teygði sig 17 metra til himins. Mörgum er eftirsjá af þessu tré, en það var sennilega rúmlega 100 ára gamalt. Í pistli um tréð á heimasíðu Skógræktarfélags Eyjafjarðar segir meðal annars: Tréð er grannt og tígullegt og setur mikinn svip á götumyndina.
Sigurður Arnarson vakti athygli á fellingu trésins á Facebook síðu sinni, og skapaðist nokkur umræða um leyfi til trjáfellinga í bæjarlandinu. Eftir nokkur símtöl og eftirgrennslan, komst blaðamaður að því að það er í dag leyfilegt að fella hvaða tré sem er á eigin landi á Akureyri. Enn er þó hægt að finna samþykkt um verndun trjáa frá 2002, þar sem talað er um að leyfi þurfi fyrir fellingu trjáa sem eru yfir 8 metrar á hæð eða yfir 60 ára gömul. Ekki er auðvelt að finna upplýsingar um málið á heimasíðu Akureyrarbæjar, en eftir að ná sambandi við starfsfólk bæjarins er það komið á hreint að þessi samþykkt er ekki lengur í gildi. Vert er að taka fram að Reykjavíkurborg fer ennþá eftir þessu, og þar þarf að sækja um leyfi enn í dag.
Akureyri hefur verið oft verið rómuð fyrir fagra bæjarmynd og þar spilar trjágróðurinn stórt hlutverk. Það hefur farið þónokkur vinna í það hjá ýmsum aðilum í gegn um tíðina, að skoða og kortleggja sjaldgæf og einstök tré á Akureyri, en hér er til dæmis hægt að skoða kortasjá á vef Skógræktarfélagsins, þar sem helstu tré eru staðsett og kortlögð. Rauðir punktar á kortinu sýna stórmerkileg tré, segir í kynningartexta fyrir kortasjánna. Þetta eru falleg tré, gömul, stór og oft sjaldgæf, segir þar ennfremur. Þessi tré voru valin í bæklinginn Merk tré á Akureyri, sem var gefinn út árið 2005, en mörg þeirra hafa verið felld síðan.
Að ímynda sér Akureyri án trjátoppanna, sem rísa upp úr byggðinni, er svolítið kuldalegt. Staðreyndin er samt sú, að tæknilega séð gætu garðaeigendur bæjarins fellt trén sín eitt af öðru og ekkert væri út á það að setja.
Síberíulerkið hávaxna, sem féll í valinn er þarna hægra megin á myndinni. Mynd: Kjarnaskogur.is
Það er áhugavert að velta fyrir sér tilverurétti, þegar tré á í hlut. Á íbúðarlóð þarf auðvitað að taka til greina, hvort að tréð sé orðið hættulegt í einhverjum skilningi, getur það skaðað húsið? Mörg munum við eftir dramatískri bíómynd sem heitir 'Undir trénu', þar sem tré á íbúðarlóð verður rótin að miklum nágrannaerjum þar sem tréð skyggir á verönd í næsta garði og gerir vonir íbúana um sólbað og sælu að engu. Sumum þykir ekkert tiltökumál að fella stór og voldug tré, en öðrum þykir það mesta synd.
Svo er áhugavert að velta fyrir sér, hvert er hlutverk trjágróðurs í bæjarlandinu? Í áskorun til bæjaryfirvalda frá Skógræktarfélaginu í Eyjafirði árið 2023 segir meðal annars: Tré, einkum stór tré, bæta lífsgæði íbúa í bænum. Þau binda mikið magn kolefnis sem skiptir miklu máli í baráttunni við hamfarahlýnun af mannavöldum. Að auki mynda þau skjól fyrir vindum og draga úr svifryks- og hljóðmengun. Jafnframt er búið að sýna fram á að gróður hefur jákvæð áhrif á sálarlíf manna af öllum kynjum, enda leitar fólk í skóga. Því er mikilvægt, fyrir lýðheilsu og fegurð bæjarins, að bæjaryfirvöld geri trjágróðri hátt undir höfði.
Í rannsóknarleiðangri sínum um tilvistarrétt trjágróðurs í bæjum, sló blaðamaður á þráðinn til umhverfissálfræðingsins Páls Jakobs Líndal, sem var meira en til í að veita viðtal um einmitt þetta viðfangsefni. Við birtum viðtalið við hann á Akureyri.net á morgun. „Manneskjan kemur út náttúrunni upphaflega og er hönnuð fyrir náttúrlegt umhverfi. Í upphafi borgmenningar og þéttbýlismenningar, höfum við alltaf haft þessa tilhneigingu, til þess að taka náttúruna með okkur. Við viljum hafa tengingar við náttúruna í kring um okkur og það skiptir okkur máli,“ segir Páll Líndal meðal annars í viðtalinu.
Það er mögulegt, að með því að kynna sér uppruna og sögu þeirra trjáa sem prýða garðinn við heimilið, gæti sýn íbúanna á trén eitthvað breyst. Ef áhugi er fyrir því, þá er hægt að skoða kortasjánna sem nefnd var fyrr í þessari grein, og sjá hvort að einhverjir góðkunningjar leynist þar merktir. Ef lesendur vilja fræðast um trén í garðinum sínum, eða telja að þar leynist merkilegt tré sem ætti skilið að fá athygli, má hafa samband við Skógræktarfélagið og fá aðstoð og upplýsingar. Hafa má samband á: ingi@kjarnaskogur.is.
Höfundur er blaðamaður Akureyri.net


Útí dokk

Pabbi minn, hvers vegna keyptirðu leigubíl?

Stari

Hús dagsins: Smíðahúsið á Skipalóni
