Fara í efni
Pistlar

Ég gleymdi bestu gjöfinni... Og ljóðið endar hér.

Komdu inn í kofann minn er vel þekkt íslenskt sönglag, þar sem stytt útgáfa af ljóði Davíðs Stefánssonar er sungið við lag ungverska tónskáldsins Emmerich Kálmán. Við höfum flest kyrjað þetta rómantíska heimboð Davíðs til ókunnrar meyjar, ýmist á þorrablóti eða gítarpartíi einhversstaðar inn til sveita. 

Í ljóðinu segir Davíð, á biðilsbuxunum, að ungu konuna skuli aldrei iðrast þess að eyða nótt hjá sér og kúra við arineldinn í kofanum hans. En ekki nóg með það. Til þess að krydda boðið aðeins, þá nefnir hann töluverðan fjölda gjafa, sem hann er tilbúinn að færa henni ef hún kemur. Notagildi gjafanna má liggja á milli hluta, en það er gaman að velta þessum ævintýralegu loforðum fyrir sér.

Hvað hefur ung Eyjafjarðarmær við austurlenska aldingarða að gera, þegar hún hefur Lystigarðinn og Kjarnaskóg? Eða gylltan burðarstól, ef enginn er til þess að bera hana? Svo er það töluverður bjarnargreiði, að gefa fólki tíu skip í Noregi. Hver á að sjá um mannauðsmál? Og viðhald? 

Í lokin á ljóðinu kemur þó í ljós, að eftir alla þessa upptalningu stórkostlegra gjafa, er besta gjöfin eftir. En hér hefur eitthvað átt sér stað sem tengist mannauðsmálum í norskum sjávarútvegi ekki neitt, heldur hefur einhver lagt skáldinu orð í munn í öllu óðagotinu frá því að hann samdi þennan ástaróð – til dagsins í dag þegar óðurinn er orðinn þekktur samkvæmissöngur og dægurlag. 

Við syngjum endinn á laginu svona:

Ég gleymdi einni gjöfinni
og gettu, hver hún er.
Ég gleymdi bestu gjöfinni,
ég gleymdi sjálfum mér!

 

En þetta er ekki það sem skáldið vildi. Eins og oft, vildi hann tala undir rós. Í ljóði Davíðs endar kvæðið einfaldlega svona:

Ég gleymdi einni gjöfinni
og gettu, hver hún er.

 

Engum hefur sennilega dulist, hver gjöfin var, en það er spurning hvernig það orsakaðist að skáldinu voru lögð orð í munn. Það hefur kannski passað laginu að bæta við tveimur línum, og ekki hefur náðst í ungverska tónskáldið í síma (enda dó hann 1953), til þess að hagræða laginu eftir ljóði íslenska skáldsins. Ef til vill var nærtækara að bæta við tveimur línum, en spurningin er hvað skáldinu hefði fundist um það. Ef lesendur vita eitthvað um málið, væri mjög áhugavert að heyra af því. Hver botnaði Davíð?

Undirrituð sér um ljóðaklúbb á öldrunarheimilinu Hlíð einu sinni í viku, ásamt Arnari Arngrímssyni rithöfundi, og málið kom upp á fundi ljóðaklúbbsins nýverið. Þó að þar sitji sumt af því fróðasta fólki um ljóð og kvæði, sem um getur, var enginn með skýringu á þessu máli. 

 

Hér fylgir svo allt ljóð Davíðs, en það birtist fyrst í Lögbergi árið 1929.

Komdu inn í kofann minn,
er kvölda og rökkva fer.
Þig skal aldrei iðra þess,
að eyða nótt hjá mér.
Við ævintýraeldana
er ýmislegt að sjá,
og glaður skal ég gefa þér
alt gullið, sem ég á,
tíu dúka tyrkneska
og töfraspegla þrjá,
níu skip frá Noregi
og naut frá Spaníá,
austurlenzkan aldingarð
og íslenzkt höfuðból,
átta góða gæðinga
og gyltan burðarstól
fjaðraveifu fannhvíta
og franskan silkikjól,
eyrnahringi, ennisspöng
og alabastursskrín,
hundrað föt úr fílabeini
full með þrúguvín,
og lampa þann, sem logaði
og lýsti Aladín,
kóraninn í hvítu bandi
og kvæðin eftir Poe,
myndastyttu meitlaða
af Michelangelo,
alla fugla fljúgandi
og fiska alla í sjó,
rúnakefli, reykelsi
og ríki mitt og lönd,
indversk blóm, egypsk smyrsl,
ítölsk perlubönd
og róðukross úr rauðavið,
sem rak á Galmarsströnd.
Komdu inn í kofann minn,
er kvölda og skyggja fer.
Alltaf brennur eldurinn
á arninum hjá mór.
Ég gleymdi einni gjöfinni
og gettu, hver hún er.“

 

130 ár eru frá fæðingu Davíðs Stefánssonar í ár, og árið haldið hátíðlegt með ýmsum viðburðum í Davíðshúsi og víðar á svæðinu vegna þess. Lesendur eru hvattir til þess að fylgjast með Facebook síðu Davíðshúss til þess að missa nú örugglega ekki af neinu. 

No photo description available.

Útvarpið okkar

Kristín Aðalsteinsdóttir skrifar
23. maí 2025 | kl. 06:00

Skógarfuglinn músarrindill

Sigurður Arnarson skrifar
21. maí 2025 | kl. 09:00

Chelsea

Sigmundur Ernir Rúnarsson skrifar
19. maí 2025 | kl. 11:30

Kattaraugun

Jóhann Árelíuz skrifar
18. maí 2025 | kl. 06:00

Ofvirkir unglingar að æpa á róandi?

Stefán Þór Sæmundsson skrifar
17. maí 2025 | kl. 09:00

Hvernig koma á Skoda upp brekku

Orri Páll Ormarsson skrifar
16. maí 2025 | kl. 15:00