Fara í efni
Pistlar

Aðventukvíði í rafmagnaðri jólapeysu

Í þriðju matvöruversluninni sem við mæðgin heimsóttum á dimmum eftirmiðdegi í lok nóvember, flökkuðu rauð augu mín á milli tuttuguogtveggja mismunandi jóladagatala sem í boði voru. Átta ára sonur minn var jafn týndur í veröldinni, enda valkvíðinn um það bil að gera útaf við hann. Það er bara hægt að velja sér jóladagatal einu sinni á ári.

Hann tók þessa litríku kassa upp, hvern á fætur öðrum og sneri á alla kanta. Spurði mig hvort þau lumuðu á súkkulaði eða sleikjóum eða dóti eða pínulitlum dyrasprengjum. Ókei, þetta síðasta sagði hann ekki. En það voru pínulitlar dyrasprengjur í taugakerfinu á mér, og óþolandi rödd sem sífellt velti upp óvelkomnum athugasemdum í vitund mína.

Þú fékkst nú bara alltaf jóladagatal sjónvarpsins! Þar sem gluggarnir buðu ekki upp á gotterí né dót, heldur mynd. Og þú varst bara helsátt! Hvert erum við komin eiginlega? Hann hefur ekkert að gera með að fá nýtt, pínulítið dót á hverjum degi til jóla! Er ekki nóg að þrettán jólasveinar gefi honum í skóinn? Nóg er nú samt af draslinu!

Látum liggja á milli hluta að dótadagatölin kosta tæplega sjö þúsund krónur.

Röddin hélt áfram: Svo eru eflaust einhver fátæk börn í Kína sem voru látin steypa þetta pínulitla plastdót í pínulítil mót með pínulitlu höndunum sínum. Á 12 tíma vöktum með hinum börnunum sem voru að búa til rafmagnaðar jólapeysur úr pólíestermartröð. Á þessum tímapunkti var ég farin að ofanda.

Ég stóð þarna í jólaskreyttri matvörubúðinni á meðan sonur minn gekk fimmtán hringi í kring um jóladagatalaúrvalið, hlustaði á Eika Hauks garga á mig að hann vildi óska þess að alla daga væru jól og það helltist yfir mig heiftarlegur aðventukvíði. Af hverju í ósköpunum erum við búin að gera okkur lífið svona flókið í desember?

Desember er dimmasti mánuður ársins. Af hverju er hann búinn að umbreytast úr kertaljósi, smákökum og Ólsen-Ólsen í að vera ein löng búðaferðarhægðatregða og brjóstsviðatöflubryðjun hjá allt of mörgum?

Desember hefur verið mér erfiður lengi, og í rauninni á aðventukvíðinn minn sér langa sögu, sem er eflaust ekki óvenjuleg á neinn hátt. Á þessum tíma er kastljósinu beint á fjölskyldutengsl, samveru og ríkidæmi, sem hljómar ekkert illa fyrir þau sem eru í vísitölufjölskyldum, hafa engan misst og eiga peninga. En veröldin er nú kannski ekki barmafull af svoleiðis rjómabollum. Mörg eigum við fleira en eitt heimili, flókin fjölskyldutengsl, höfum misst mikilvæga pósta úr tilverunni eða glímum einfaldlega við félags- eða fjárhagskvíða. Tilfinningarnar klessast jafn staðfastlega framan í mann eins og samfallnir marenstoppar á þessum tíma, og það er engin undankomuleið.

Það er samt nákvæmlega þarna, sem við finnum hvað jólin eru í raun og veru. Í sorginni og kvíðanum neyðumst við til þess að brotna svolítið niður og leggja spilin á borðið. Hvort sem við erum í kínverskri jólapeysu sem límist við líkamann á röngum stöðum eða ekki.

Þegar jólin nálgast, finn ég fyrir meiri sorg í hjartanu og saknaðar til þeirra sem eru farin. Það er eins og jólaljósin í gluggum bæjarins séu örlitlar minningar um æskujólin, litlar týrur sem birta mér myndir af kertaljósum í rafmagnsleysi, mandarínum, kasínu og piparkökum dýfðum í lítið mjólkurglas. Jólasveininn sem ég föndraði með ömmu minni úr seríospakka og var líka sprellikarl. Það var hægt að toga í spotta og hendur og fætur sveinka sveifluðust upp og niður eins og hann væri afvelta fluga í gluggakistunni.

Mér fannst amma vera stórkostlegur uppfinningamaður, eins og maðurinn með hárflókann sem fann upp afstæðiskenninguna, þegar sveinki sprellaði í fyrsta sinn. Þvílíkt sjónarspil, og gríðarleg framför hjá seríospakka. Þessi jólasveinn er ennþá til, og þó að einn fóturinn hreyfist sama og ekki neitt, þá er hann ennþá vitnisburður um snillinginn hana ömmu mína.

Ég man að einu sinni í desember var hún skyndilega eitthvað niðurdregin. Ég var orðin unglingur, og eins og við vitum flest, þá eru unglingar sjálfhverfasta fólk veraldar. Ég var engin undantekning. Samt tókst mér að bera kennsl á það, að ekki væri allt með felldu, og spurði hana hvort eitthvað væri að. Þá hafði hún skreytt húsið fyrir jólin en ég og afi tókum ekki eftir því. Ég man að hún sagði að hún velti því stundum fyrir sér, hvort við myndum yfirleitt halda jól ef hún myndi ekki minna okkur á það.

Skemmst er að segja frá því að við afi skömmuðumst okkar réttilega fyrir tillitsleysið og þó að við höfum ekki sagt það upphátt, þá veit ég að hvorugt okkar hefði getað hugsað sér að missa jólin, né hana. Nú eru þau bæði farin, og ég held fast í minningarljósin sem ennþá kvikna á þessum tíma árs.

Ég ranka við mér, eftir að hverfa aftur í tímann til jólanna með ömmu minni og sprellikarlinum á meðan hann var heill heilsu. Ég stend ennþá hreyfingarlaus og andlaus í matvörubúðinni, og átta mig á því hvað ég er að reyna að gera. Þetta er allt tilraun til þess að færa honum jólin, eins og hún gerði fyrir mig.

Ég vandist því að amma kæmi með jólin til mín, og eftir að hún dó, hvarf einhver hluti af jólunum mínum með henni. Ég finn að mig langar til þess að gera það sama fyrir syni mína, að færa þeim jólin og tryggja að þeir verði fullorðnir og sjái litlar minningar í jólaljósum framtíðarinnar. En ég er alltaf hrædd um að geta það ekki, að vera ekki nóg og jólin mín ekki nógu góð. Slíkt er framboðið af dóti, drasli, skrauti, dagatölum, viðburðum, gjöfum og Guð má vita hverju, sem hægt er að gera eða kaupa fyrir jólin - að það er auðvelt að hrífast með og telja að um nauðsynjar sé að ræða. Það er öllu venjulegu fólki um megn að botna í slíkum hyl af drasli og gylliboðum, þannig að í staðinn brýst fram þessi tilfinning sem mig langar að kalla aðventukvíða.

En svo man ég, að það snýst ekki um dótið og draslið, þó að það geti verið ágætt í hófi. Það snýst ekki um jóladagatalið, eða að vera með jólapeysudaginn á hreinu eða velja bestu gjafirnar.

Það snýst um að vera saman. Amma mín gaf sér tíma í desember, til þess að sitja með mér að föndra eða spila, og það eru uppáhalds minningarnar mínar. Ég man ekkert hvað ég fékk í jólagjöf og jóladagatal sjónvarpsins var ágætt þó að ég muni lítið eftir því.

Dýrmætasta jólagjöfin sem hægt er að gefa er tími og nærvera. Sonur minn er ekki að fara að muna eftir dagatalinu sem hann velur sér í dag, nema kannski ef ég skyldi fá taugaáfall vegna þess.

Þegar ég er komin heim aftur, ætla ég að gera mitt besta til þess að komast að kjarnanum og losa mig við þær gerviþarfir sem jólin boða. Ég ætla að gera lista yfir það sem ég tel mig þurfa að gera eða eignast fyrir jólin, og fara svo aftur yfir listann. Hvað af þessu er í rauninni ekki nauðsynlegt? Burt með það.

Svarið við spurningunni Af hverju gerum við okkur lífið svona erfitt í desember er því þetta;

Við gerum það í góðri trú.

Við viljum standa okkur vel og sýna okkar nánustu hvað okkur þykir vænt um þau. Búa til minningar. En minningar verða ekki til í andlegri fjarveru í matvörubúð og syndaflóði af jóladrasli. Tínum af okkur gervijólaþarfir eins og api sem tínir af sér lýs. Eftir stendur það sem þú og þínir nánustu þurfa í rauninni á að halda til þess að njóta jólanna og dimmu desembermánaðar saman.

 

PS.

Krakkinn valdi sér dagatal fullt af marglitaðri sykurdrullu og ég hef aldrei verið jafn fegin að komast heim til mín.

Rakel Hinriksdóttir er blaðamaður á akureyri.net

Segularmböndin

Jóhann Árelíuz skrifar
07. desember 2025 | kl. 06:00

Helstu elritegundir

Sigurður Arnarson skrifar
03. desember 2025 | kl. 09:30

Veldu þinn takt á aðventunni

Hrafnhildur Reykjalín Vigfúsdóttir skrifar
02. desember 2025 | kl. 06:00

Hversdagshetjur

Ólafur Þór Ævarsson skrifar
01. desember 2025 | kl. 09:00

Fjalla-Bensi

Jóhann Árelíuz skrifar
30. nóvember 2025 | kl. 06:00

Hús dagsins: Aðalstræti 42

Arnór Bliki Hallmundsson skrifar
29. nóvember 2025 | kl. 06:00