Steinvalan í öldugangi Öskjuvatns

DREKADAGBÓKIN - 8
Eftir vindasama daga er Öskjuvatn ekki ósvipað hafinu. Öldugangurinn er slíkur. Þegar ég sit í litlu fjörunni fyrir neðan Víti og fylgist með öldunum, verður mér hugsað til Ínu. Hún kom hingað árið 1908 til þess að finna svör. Spurningarnar voru stórar, en unnusti hennar, Walther, hafði horfið hérna við vísindastörf árið áður.
Öskjuvatn er 220 metra djúpt. Þegar ég horfi á ölduna gusast á grýttan sandinn sem ég sit á, sé ég Ínu fyrir mér gera það sama. Ætli næsta alda beri mér svör? Kannski þarnæsta? Á einhverjum tímapunkti hefur hún þurft að standa upp, snúa baki við Öskjuvatni, Öskju og þagga niður þrána eftir svörum. Walther og kollegi hans, Max, fundust aldrei og engar haldbærar skýringar á hvarfi þeirra.
Í hverri öldu sem rís, sé ég steinvölur velkjast um. Eitthvað mjakast til. Vatnið er tærara en sjór, og auðveldara að sjá í gegnum ölduna, sérstaklega svona seint að kvöldi. Sólin rís ekki hátt yfir fjöllin og gegnumlýsir hverja ölduna á fætur annari fyrir mér. Það er dáleiðandi að fylgjast með. Askja er í rauninni stór gígur, og á móti mér rís hár fjallgarður sem myndar eina hlið öskjunnar. Fjöllin eru rauðgullin í kvöldsólinni, hver einasta lína er dregin skarpt á milli ljóss og skugga.
Skjáskot úr myndavélinni á símanum mínum gerir upplifuninni ekki góð skil. En hér má kannski gera sér í hugarlund, hvernig aldan bar steinvölurnar í faðmi sér. Mynd: RH
Ég er vön því að fyllast þörf fyrir að fara út í flest vatn sem ég rekst á. Í sérstöku uppáhaldi eru tær stöðuvötn, fjallalækir og litlar ár. Ég fer líka í sjóinn, en er meira fyrir að vaða í honum, ekki synda. Ég bjóst við því að finna fyrir löngun til þess að vaða út í Öskjuvatn. Þegar ég hugsa um það, þarna í sandinum við vatnsbrúnina, langar mig ekki út í. Ég var svolítið hissa á þessu hiki, og fór að skoða innra með mér, hvers vegna.
Kannski er það vegna Ínu og sögu hennar af örlögum Walthers, að ég fyllist einhverri virðingu fyrir þessu vatni. Kannski er það líka vegna þess að ég veit að ég sit á lifandi landi. Virku eldfjalli. Tilfinningar mínar á þessum stað eru óttablandin virðing og aðdáun. Hér er það náttúran sem ræður ríkjum og ég er áhorfandi. Þakklát fyrir að fá að sitja hér, á þessum stað, í þessum tíma.
Þrátt fyrir að hafa tekið unnustann frá henni, þá róaði Öskjuvatn Ínu líka, og hún sætti sig við að vera áhorfandi og leggja frá sér þrána eftir sannleika mannanna. Í bók sem hún skrifaði eftir Íslandsferð sína og leit að örlögum Walthers, Ísafold, ferðamyndir frá Íslandi, skrifaði hún um staðinn:
„Sólfáða, silfurglitrandi, mikla, blágræna Öskjuvatn – óvænt, fagurt og mikilúðlegt – léttur andardráttur þess í kvöldgolunni var eins og hamrandi hjarta Dyngjufjalla innan þessara stórlátu hamraveggja. Hér er allt eins og sokkin Paradís, umlukt varnargörðum Ódáðahrauns. Dyngjufjöll eilífðarinnar með víðáttur hinna svörtu beinstirðnuðu hraunstrauma.
Hve konungleg gröf er þeim báðum búin sem hvíla á botni þess.“
Ég er líka að leita svara. Stöðugt að spyrja sjálfa mig spurninga um mismikilvæga hluti. Það er okkur eðlislægt að vilja fá svör og útskýra. Ef ég sé það ekki, þá er það ekki til, segja sumir. En stundum eru ekki svör. Stundum er ekki allt sem sýnist. Á stað eins og Öskju, þá hljóðnar sannleiksþörfin mín. Ég finn sátt með það að sitja kyrr. Njóta augnabliksins. Vera ein af þessum steinvölum, sem aldan í Öskjuvatni veltir upp og færir til. Ekki meira og ekki minna.
Öskjuvatn. 16. ágúst 2025.
*Mig langar að benda á að í Gestastofunni Gýg í Mývatnssveit er nýlega búið að setja upp fallega og vandaða sýningu um lífríki og jarðfræði Mývatns og norðurhálendis. Þar er fjallað um sögu Inu von Grumbkow og Walthers von Knebel. Einnig er hægt að sjá útsaumaðan dúk, sem Ina skildi eftir í vörðunni við Víti og Öskjuvatn, til minningar um Walther. Jón Sigurgeirsson frá Helluvaði, langafabróðir minn, fann dúkinn og sá til þess að hann yrði varðveittur.
- Hér má sjá áhugaverða grein Gerðar Steinþórsdóttur, sem setið hefur í stjórn Ferðafélags Íslands, um ferð Inu von Grumbkow til Íslands 1908 sem birtist í Morgunblaðinu 16. ágúst árið 2008 – Harmsögulegur atburður í Öskju
DREKADAGBÓK 2025
- 5 - Andleg klósettþrif milli vídda
- 6 - Þokaðu úr lokunni - aðeins andartak
- 7 - Á fjöllum erum við öll í sama liði
DREKADAGBÓK 2024


Gervisáli

Á fjöllum erum við öll í sama liði

Þessi þjóð er hrædd við útlendinga

Þokaðu úr lokunni, aðeins andartak
