Fara í efni
Umræðan

Raddir fólksins þagna

Öll getum við verið sammála um að ganga verði vel um náttúruna og nýta með skynsömum og sjálfbærum hætti. Hugtakið sjálfbærni vefst fyrir mörgum enda hefur útlegging hugtaksins breyst. Sumir eiga það til að leggja öðrum lífsreglur um það hvernig aðrir eiga að nýta auðlindir sínar. Er ekki í öllum tilfellum tekið tillit til neyslu þróaðri ríkja en sjálfbærni er oft reiknuð út frá lokuðu kerfi en aðdrættir inn í kerfið geta verið ósjálfbærir, alltaf þarf að líta á heildarmyndina til að jafnan gangi upp. Þeir sem hafa hag af nýtingu náttúru og víðernis eiga því að hafa rödd þegar rætt er um hálendisþjóðgarð. Þar má nefna ferðafélög, bændur og sveitarfélög sem og aðra náttúruunnendur en það eru sjónarmið þeirra sem sárlega vantaði inn í lög umhverfisráðherra um stofnun hálendisþjóðgarðs; samráð og samtal ekki einræða og áróður. Það er því mikilvægt að fara aðeins yfir staðreyndirnar.

Athugasemdir um samráðsleysi máttu sín lítils, við þeim var brugðist í orði en því miður ekki á borði. Nú hefur fyrirkomulagið verið haft svo, eins og Bændasamtökin bentu réttilega á í umsögn sinni, að sveitarfélög hvers rekstrarsvæðis munu eiga meirihluta fulltrúa í svokölluðu umhverfisráði. Hlutverk umhverfisráðs á svo að vera að setja stjórnunar- og verndaráætlun fyrir hvert rekstrarsvæði. Þetta hljómar vel í eyrum en stenst ekki skoðun. Ef frumvarpið er lesið betur þá kemur í ljós að stjórn hálendisþjóðgarðs er ekki bundin af tillögum umhverfisráða. Það þýðir sem sagt að þessar ábendingar sem komu frá og voru samþykktar af fólkinu sjálfu á svæðinu, því sem þekkir aðstæður og þarfir sveitarfélagsins best, verða virtar að vettugi ef stjórninni sýnist svo. Rúsínan í pylsuendanum er svo að ráðherra hefur heimildir til að gera breytingar á áætlun umhverfisráðanna og þarf hvorki að bera þær breytingar undir stjórn hálendisþjóðgarðsins eða umhverfisráðin sjálf. Ráðherra hefur því tryggt sér alvald yfir stjórn og fyrirkomulagi þjóðgarðsins og í stað þess að tryggja samráð, hafa lögin tryggt einráð.

Af öllum þeim sem bentu á samráðsleysi mætti helst nefna Bændasamtökin, Samtök útivistarfélaga, Samút, sem munu ekki eiga fulltrúa í svæðisráði og stjórn hálendisþjóðgarðsins. Ástæðan fyrir því að þessi sterku regnhlífasamtök, sem telja 18 aðildarfélög, fá ekki fulltrúa er að þau falla ekki undir skilgreininguna á „útivistarfélagi“ eins og nefnt er í 2. mgr. 8. gr. laganna og því verður rödd þeirra þögguð. Þetta er auðvitað afar bagalegt því samtökin hafa með sjálfboðavinnu gætt hagsmuna útivistarfólks og vilja geta gegnt því hlutverki áfram. Stjórnlyndi fólks sem umgengst eða nýtir náttúruna lítið sem ekkert en vill gjarnan leggja öðrum lífsregluna gengur undir ýmsum nöfnum. Það fólk sem situr á kaffihúsum fyrir sunnan má auðvitað hafa skoðanir en þær þurfa að byggjast á þekkingu og skilningi. Frumvarp um hálendisþjóðgarð ber keim af þekkingarleysi eða blindu fyrir staðreyndum. Sjálfskipaðir sérfræðingar, sem þekkja hvorki haus né sporð á því landi sem yfirtaka á og skipuleggja, mega ekki hafa slík völd án nokkurs samráðs við þá sem nýta landið. Reynslan ætti að hafa kennt okkur að þessi sérfræðistefna umfram reynslu þeirra sem gerst þekkja til er engum til gagns. Samráð er alltaf æskilegt en svo virðist því miður ekki vera.

Það er mikilvægt að muna eftir hvernig stjórnarflokkarnir skildu við lög umhverfisráðherra um stofnun hálendisþjóðgarðs á lokadögum þingsins síðastliðið vor. Á lokadögum þingsins skiluðu þingmenn ríkisstjórnarinnar í umhverfis- og samgöngunefnd áliti sem sannar að engin breyting mun verða á þessum vinnubrögðum. Lokaorð álits þingmanna stjórnarinnar í nefndinni segir allt sem segja þarf:

„Að þessu virtu leggur meiri hlutinn til að málinu verði vísað til ríkisstjórnarinnar og umhverfis- og auðlindaráðherra verði falið að leggja fram nýtt frumvarp um málið sem verði byggt á þeirri vinnu sem hér hefur verið rakin“.

Samráð og samstarf verður ekki of oft sagt í einni grein og því segi ég það einu sinni enn. Það þarf samstarf. Við í Miðflokknum teljum að nauðsynlegt sé að standa vörð um hálendið og náttúru Íslands. Það er best gert með eflingu innviða þeirra stofnana sem nú þegar standa vaktina og því að hvetja til aukins samstarfs við þær fjölbreyttu starfsstéttir, hópa og samtök sem njóta og vernda og nýta íslenska náttúru. Ráðherra á ekki að vinna þessa vinnu einn. Hagsmunirnir eru það miklir. Hann á að gera það í samstarfi við alla þá sem málið varðar og hefja þessa vinnu með að hlýða á hugmyndir þeirra. Vinna að róttækum breytingum á að byrja; hjá fólkinu.

Anna Kolbrún Árnadóttir er þingmaður Norðausturkjördæmis fyrir Miðflokkinn og skipar 2. sæti listans fyrir alþingiskosningarnar 25. september.

Mótmæli sjálfstæðismanna

Björn Valur Gíslason skrifar
15. mars 2024 | kl. 10:15

Frábærar viðtökur bæjarstjóra!

Hjörleifur Hallgríms skrifar
15. mars 2024 | kl. 09:30

Tjaldsvæðið – Villigötur

Jón Hjaltason skrifar
14. mars 2024 | kl. 10:45

Framhaldsskóli fyrir nemendur

Sverrir Páll skrifar
08. mars 2024 | kl. 06:00

Hér rís önnur heilsugæslustöð

Ingibjörg Isaksen skrifar
07. mars 2024 | kl. 13:11

Akureyri stendur ekki í vegi fyrir kjarasamningum

Heimir Örn Árnason skrifar
06. mars 2024 | kl. 15:15