Fara í efni
Umræðan

Mikil vonbrigði með ráðherraskipan

Framsóknargleði á kosninganótt! Jóhannes Geir Sigurgeirsson, fyrrverandi alþingismaður, Ingibjörg Ólöf Isaksen, fyrsti þingmaður kjördæmisins, og Guðmundur Baldvin Guðmundsson, oddviti flokksins í bæjarstjórn Akureyrar. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson.

Framsóknarmenn á Akureyri og nágrenni eru ánægðir með stjórnarsáttmála ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur, sem kynntur var í gær. Þeir segja hins vegar hlut landsbyggðarinnar við ríkisstjórnarborðið talsvert umhugsunarefni og lýsa miklum vonbrigðum með að góður árangur flokksins í Norðausturkjördæmi endurspeglist ekki í ráðherraskipan.

Stjórn og varastjórn Framsóknarfélags Akureyrarog nágrennis hefur samþykkt eftirfarandi ályktun:

„Stjórnarsáttmálinn sem kynntur var um nýafstaðna helgi er framsækinn og endurspeglar vel meginstefið í öllum baráttumálum Framsóknar – fjárfesting í fólki. Sú bjartsýni sem í honum ríkir grundvallast á mannauði þessa lands og þeim náttúrugæðum sem gildi hafa fyrir okkur og heimsbyggðina. Tækifærin liggja um allt land til grænnar atvinnuuppbyggingar, skapandi landnýtingar, aukinnar verðmætasköpunar og sjálfbærrar orkunýtingar. Með kröftugri og réttlátri byggðastefnu eigum við svo sannarlega að geta tryggt hagsmuni núverandi sem komandi kynslóða.

Í þessu samhengi er hlutur landsbyggðarinnar við ríkisstjórnarborðið okkur talsvert umhugsunarefni. Enginn ráðherra kemur úr Norðausturkjördæmi, einungis tveir ráðherrar koma úr landsbyggðakjördæmunum þremur og í raun má segja að allir 12 ráðherrar nýrrar ríkisstjórnar komi frá áhrifasvæði höfuðborgarinnar. Þessi skipting er varhugaverð og til þess fallin að ýta undir það ójafnvægi sem glöggt má þegar greina milli höfuðborgar og landsbyggðar.

Með samhentu átaki og mikilli vinnu náði Framsókn frábærum árangri hér í Norðausturkjördæmi í síðustu kosningum, þar sem flokkurinn hlaut þrjá kjördæmakjörna þingmenn og oddviti okkar Ingibjörg Ísaksen hlaut glæsilega kosningu sem fyrsti þingmaður kjördæmisins. Það eru því mikil vonbrigði að sá góði árangur endurspeglist ekki í ráðherraskipan flokksins.

Þingmenn Framsóknarflokksins í Norðausturkjördæmi búa að mikilli og fjölbreyttri reynslu og við treystum þeim og styðjum heilshugar til góðra verka fyrir kjördæmið sem og málefni landsbyggðarinnar í heild sinni.

Við óskum nýrri ríkisstjórn velgengni í sínum störfum en um leið viljum við ítreka mikilvægi þess að málefnum landsbyggðarinnar sé haldið á lofti innan hennar.

Stjórn og varastjórn Framsóknarfélags Akureyrar og nágrennis."

Tryggjum öryggi Reykjavíkurflugvallar

Gunnar Már Gunnarsson og Sunna Hlín Jóhannesdóttir skrifa
21. janúar 2025 | kl. 14:45

Ferðaþjónustufólk kemur saman

Arnheiður Jóhannsdóttir skrifar
15. janúar 2025 | kl. 11:15

Læknadeild við Háskólann á Akureyri?

Ólafur Þór Ævarsson skrifar
14. janúar 2025 | kl. 09:00

Verður ársins 2025 minnst fyrir efndir kosningaloforða í málefnum eldra fólks?

Björn Snæbjörnsson skrifar
06. janúar 2025 | kl. 12:30

Háspennulínur í lofti við íbúabyggð á Akureyri?

Jón Ingi Cæsarsson skrifar
05. janúar 2025 | kl. 16:00

„Þetta er algerlega galið“

Hjörtur J. Guðmundsson skrifar
05. janúar 2025 | kl. 10:00