Aðflugsljós við Leiruveg

Nýlega hafa millilandaþotur frá Edelweiss og Transavia þurft að hætta við lendingar á Akureyrarflugvelli vegna þess hve flugvöllurinn er vanbúinn, sem einkum kemur fram við skilyrði með lélegu skyggni og lágri skýjahæð. Á sama tíma lentu Dash 8-400 vélar Icelandair óhindrað úr suðri. Við suðurenda flugvallarins eru mun betri aðflugslágmörk fyrir Dash 8, sem þoturnar geta ekki nýtt, auk þess að ljósabúnaður er til staðar og mjög öflugur.
Brýn þörf á aðflugsljósum norðan flugbrautar hefur því lengi verið ljós, enda geta þau ráðið úrslitum um hvort hægt sé að lenda. Þau auka flugöryggi og bæta aðgengi t.d. vegna millilandaflugs, og ættu að fjármagnast með varaflugvallargjaldi. Ljósin hafa verið í skipulagsreglum flugvallarins frá árinu 2011, á aðalskipulagi Akureyrar frá 2018 og á nýju deiliskipulagi Akureyrarflugvallar.
Aðflugsljós norðan við flugbrautina á Akureyri. Ljósin hafa verið í skipulagsreglum flugvallarins frá árinu 2011, á aðalskipulagi Akureyrar frá 2018 og á nýju deiliskipulagi Akureyrarflugvallar.
Vegagerðin stóð nýlega fyrir verulegum endurbótum á Leiruveginum, með nýjum hjólastíg og öflugri brimvörn. Isavia var boðin þáttaka í verkinu vegna löngu fyrirséðra jarðvegsframkvæmda fyrir framangreindan aðflugsbúnað. Samvinnan var afþökkuð af einhverjum ástæðum, þrátt fyrir augljósa þörf, samlegðaráhrif, og verulegan sparnað á skattfé.
Frá árinu 2018 hafa aðflugsferlar úr norðri verið stórbættir, bæði með nýjum ILS búnaði og með flugferlum sem byggja á þróaðri gerfihnattaleiðsögu. Slíkum flugferlum fylgja kröfur um viðeigandi aðflugsljós, í samræmi við alþjóðareglur. Þær kröfur eru ekki uppfylltar með núverandi stöðu og rýra þjónustustig flugvallarins eins og dæmi sanna.
Aðflugsljós eru að norður-suðurbraut Reykjavíkurflugvallar, staðsett við Hringbraut.
Staðsetning ljósa við Leiruveg og norður í Poll er viðkvæm á margan hátt og verðskuldar ekki endilega ódýrustu lausnir. Vonandi finna Akureyrarbær og Isavia útfærslur þar sem frágangur er til sóma og möstrin sjónræn staðarprýði.
Til hliðsjónar má hafa aðflugsljós við Miklubraut og Hljómskálagarð, sem snjalla lausn á viðkvæmum stað. Staðbundnir verktakar eru alvanir að sérsmíða búnað sem standast þarf krefjandi aðstæður í særoki og seltu.
Lengi hefur verið beðið eftir nýjum aðflugsferlum úr suðri, sem eru svo sérkapítuli.
Nú leikur vafi á hvort þeir muni nýtast í vetur, vegna tafa á hönnun og flugprófunum.
Víðir Gíslason er einn af hollvinum Akureyrarflugvallar


Að klára verkefnin – hvað er í gangi á Ásnum ?

Ef við getum ekki lækkað fasteignaskatt, þá eigum við að hagræða

Verulegt rými til framfara

Látið hjarta Akureyrar í friði
