Kveikjum á kerti fremur en að kvarta yfir myrkrinu

Rúnar Sigþórsson, prófessor emeritus við Háskólann á Akureyri, flutti eftirfarandi erindi fyrir kertafleytingu á Leirutjörn í gær, miðvikudag 6. ágúst, þegar 80 ár vor liðin frá kjarnorkurásinni á japönsku borgina Hirosima. Rúnar gaf Akureyri.net góðfúslegt leyfi til að birta erindið.
_ _ _ _
Við skulum byrja þessa stund á því að fara í huganum 80 ár aftur í tímann. Í borginni Hírósíma, austur í Japan, er nýr dagur að hefjast, mánudagurinn 6. ágúst 1945. Í borginni búa um það bil 350 þúsund manns. Hún hefur vissulega mikla hernaðarlega þýðingu í styrjöld Japana við Bandaríkin en er líka mikilvæg iðnaðarborg og samgöngumiðstöð og miðstöð opinberrar stjórnsýslu og borgaralegra umsvifa.
Þessi mánudagsmorgunn í Hírósíma er öðrum líkur. Fólk vaknar til vinnu og börn fara í skólann. Og veðrið er líka gott; það er hægur vindur, léttskýjað og hitinn vel yfir 20 gráður. Það sem fólk veit ekki er að kl. 2:45 um nóttina hafði hafið sig til flugs, frá bandarískri herstöð í Mariana-eyjaklasanum í Kyrrahafinu sunnan við Japan, eitt af tækniundrum bandaríska hersins, Boeing B-29 sprengiflugvél. Superfortress – fljúgandi ofurvirki – var hún kölluð með stolti og flugstjórinn – Paul Tibbets hét hann og var offursti – hafði nefnt þessa tilteknu flugvél eftir móður sinni: Enola Gay. Áfangastaðurinn var Hírósíma og þangað var um það bil fimm og hálfs tíma flug.
Allt þetta er auðvelt að sjá fyrir sér, allt þangað til klukkan varð 8:15. Þá sprakk sprengjan yfir borginni og það sem þá tók við getur, held ég, ekkert okkar með nokkru móti gert sér í hugarlund. En það eru til vitnisburðir þeirra sem lifðu af og við skulum grípa niður í einn slíkan. Yoshitaka Kawamoto var 13 ára skólastrákur og var auðvitað kominn í skólann sem var um 800 metra frá staðnum þar sem sprengjan sprakk. Hann segir:
Allt sem ég man er skær blossi sem varði í tvær eða þrjár sekúndur. Síðan datt ég út; ég veit ekki hversu lengi en þegar ég rankaði við mér var ég fastur undir braki umlukinn reyk og ryki. Flest bekkjarsystkini mín höfðu dáið samstundis en ég heyrði hróp þeirra sem enn voru á lífi og einhverjir byrjuðu að syngja skólasönginn til að vekja athygli á okkur og ég tók undir. En það kom enginn og smám saman urðu hrópin veikari og söngurinn hljóðnaði. Bekkjarsystkini mín dóu eitt af öðru. Það gerði mig skelfingu lostinn og mér tókst að losa mig undan brakinu og litaðist um. Í gegnum gat á þakinu sá ég að himinn var svartur og eitthvað sem líktist eldkeilu þyrlaðist yfir himininn. Það blæddi úr efri gómnum á mér og mig vantaði þrjár framtennur. Þær voru líklega brotnar eftir fljúgandi þakflís. Tréflís stóð í gegnum vinstri handlegginn á mér eins og ör. Ég gat ekki dregið hana út, mér tókst að binda um handlegginn og draga úr blæðingunni. Önnur sár hafði ég ekki og ég fór að skríða um í brakinu og athuga hvort ég gæti náð einhverjum með mér út – okkur hafði jú verið kennt að það væri hugleysi að yfirgefa þá sem væru hjálparþurfi.
Rúnar Sigþórsson flytur erindið við Leirutjörn í gærkvöld. Mynd: Skapti Hallgrímsson
Svo sá ég handlegg hreyfast undir spýtnabraki. Það var Ota, vinur minn. Hann hafði höfuðáverka. Hægra augað lá úti og hékk niður á kinn en hann horfði beint á mig með því vinstra. Hann reyndi að segja eitthvað en ég greindi ekki orðaskil. Hann fiskaði þá vasabók upp úr brjóstvasa sínum og rétti mér. „Viltu að ég færi mömmu þinni hana?“ spurði ég. Ota kinkaði kolli og bandaði mér síðan burtu. Neðri hluti líkama hans var sundurkraminn og fastur undir brakinu og ég gat ekkert meira gert fyrir hann. Nú var skólinn að verða alelda og ég fór að reyna að koma mér út en leit um öxl og sá heila augað hans Ota horfa á eftir mér, svo staulaðist ég út yfir látna og lifandi líkama skólafélaga minna. Ég gat ekkert meira gert, ég bjargaði bara sjálfum mér, og það sem mætti mér þarna hefur ásótt mig æ síðan.
Yoshitaka Kawamoto lifði af og varð seinna forstöðumaður Friðarsafns Hírósíma (Hiroshima Peace Memorial Museum). Vitnisburð hans má lesa í sérriti TIME-tímaritsins frá 29. júlí 1985 og á vefsíðunni https://www.atomicarchive.com.[1]
Þennan mánudagsmorgun létu á bilinu 60–80 þúsund manns lífið í Hírósíma og þremur dögum seinna, 9. ágúst, bætti svo bandaríski herinn um betur og drap um það bil 40 þúsund manns í kjarnorkuárás á Nagasaki. Talið er að áður en árið 1945 var úti hafi fjöldi látinna í borgunum tveimur verið kominn vel yfir 200 þúsund og að um 90% þeirra hafi verið óbreyttir borgarar en eins og gefur að skilja eru þessar tölur á reiki.
Þá eru ótaldar þúsundirnar sem létust árin á eftir úr hvítblæði og fleiri sjúkdómum sem rekja mátti beint til árásanna. Ótaldar eru líka andlegar og líkamlegar skelfingar þeirra sem lifðu af, og hremmingar þeirra sem máttu þola óverðskuldaða félagslega útskúfun vegna ótta um að þeir bæru á einhvern hátt í sér langtímaafleiðingar árásanna.
Og hvers vegna stöndum við nú hér þessum 80 árum síðar til að hugleiða saman og fleyta kertum. Því svarar auðvitað hver fyrir sig en ég get sagt ykkur mínar ástæður:
- Ég vil minnast þeirra sem létu lífið af völdum árásanna á Hírósíma og Nagasaki.
- Ég vil sömuleiðis votta þeim virðingu mína og samúð sem komust af, en máttu þola sjúkdóma, félagslega útskúfun, andlegar þjáningar, og óafmáanlegar minningar eins og Yoshitaka Kawamoto.
- Ég vil lýsa andstyggð minni á framferði þeirra sem ákváðu að tendra sprengjurnar tvær 6. og 9. ágúst 1945.
- Ég vil líka lýsa andstyggð minni á framferði þeirra sem af miskunnarlausri grimmd svelta og myrða saklaust fólk í dag og votta fórnarlömbum þeirra, látnum sem lifandi, virðingu mína.
- Og síðast en ekki síst vil ég leggja minn litla skerf af mörkum til þess að slíkar ákvarðanir verði ekki teknar í framtíðinni.
Því miður virðist þó harla fátt hafa áunnist við að slaka á spennu í heiminum, draga úr vígbúnaðarkapphlaupi og stemma stigu við hörmungum styrjalda. Í Úkraínu geisar óskiljanlegt stríð sem var hafið, að því er virðist, vegna óra valdasjúks einræðisherra. Þeir snúast að einhverju leyti um að endurheimta land sem hann telur þjóð sína eiga tilkall til á langsóttum sögulegum forsendum, en blandast engu að síður inn í refskák stórvelda um hernaðarmátt og yfirráðasvæði. Þetta illskiljanlega stríð hefur fært vá kjarnorkuvopnanna nær okkur en hún hefur verið lengi. Það hefur aukið útgjöld Evrópuþjóða til vígvæðingar og að sama skapi dregið úr framlögum þeirra til mannúðarmála og þróunaraðstoðar sem valda mun þjáningum og dauða á skala sem erfitt er að sjá fyrir sér.
Í Afríku er talað um gleymd stríð, í þeim skilningi að fréttir af þeim eru sjaldheyrðar í vestrænum fjölmiðlum. Samt hafa á þessu ári geisað stríð í Súdan og Kongó þar sem hundruð þúsunda hafa látið lífið og milljónir hrakist á vergang. Fyrr á árinu var þessum stríðum lýst sem mestu mannúðarkrísu samtímans.
Og svo eru það níðingsverk ísraelska hersins og ísraelskra stjórnvalda á Gaza. Hver hefði trúað því árið 1945, að 80 árum síðar yrðu afkomendur helfararinnar á hendur Gyðingum í Evrópu meðal grimmustu böðla samtímans og framferði þeirra færi langt með að endurspegla óhæfuverkin sem forfeður þeirra máttu þola. Óhæfuverk Ísraelsmanna hafa reyndar staðið óslitið í 77 ár, síðan þeir hófu að flæma Palestínubúa skipulega burt af landi sínu, og í skjóli hryllingsins á Gaza halda þau áfram af auknum þunga á Vesturbakkanum þótt minna fari fyrir því í fréttum. Tala látinna á Gaza samkvæmt opinberum tölum er nú komin yfir 63 þúsund og í raun hefur samfélagið á Gazaströndinni verið jafnað við jörðu. Það hefur verið gert með bandarískum – og að einhverju leyti evrópskum – vopnum og fyrir utan hergögnin blasir nú fátt við annað en eyðilegging og dauði. Níutíu prósent þeirra tveggja milljóna sem búa á svæðinu hafa hrakist frá heimilum sínum og eru á vergangi. Síðustu mánuði hefur útbreidd hungursneyð, vandlega skipulögð af ísraelska hernum, bæst við hörmungarnar. Daglega deyja börn úr hungri og daglega eru foreldrar skotnir þegar þeir bera sig eftir þeirri hungurlús sem ísraelski herinn hleypir inn á svæðið og kallar mannúðaraðstoð.
Og hver þekkir ekki rökin: Blygðunarlaust kynþáttahatrið sem segir: við erum æðri – þið eruð óæðri og þess vegna ætlum við að smala ykkur í ghetto og útrýma ykkur síðan; drepa ykkur úr hungri ef ekki vill annað til, af því að við eigum tilkall til þessa lands og þið eruð fyrir okkur. Og á okkur dynur síbylja lyganna í þeirri trú að hún verði smátt og smátt að viðteknum sannleik í eyrum umheimsins.
Kínverskt spakmæli minnir okkur á að kveikja á kerti fremur en að kvarta yfir myrkrinu. Með því erum við minnt á það að þótt við eigum vissulega ekki að láta grimmdarverk í fortíð og nútíð falla í gleymsku, tryggjum við ekki frið með því einu að formæla ógnum styrjalda. Við verðum að vinna að friði. Og einmitt þess vegna stöndum við hér til að minnast fórnarlamba kjarnorkuárásanna fyrir áttatíu árum og annarra fórnarlamba styrjalda hvar sem er á jörðinni. Við gerum það á þann táknræna hátt að kveikja á kertum til að heiðra minningu þeirra, en við gerum það vonandi líka í anda spakmælisins kínverska og látum ljós kertanna votta þann ásetning að leggja, hvert og eitt, fram okkar litla skerf til að lýsa upp framtíðina.
[1] https://time.com/3977924/hiroshima-atomic-eye-witness/
https://www.atomicarchive.com/resources/documents/hibakusha/yoshitaka.html
https://www.nytimes.com/2025/08/05/world/asia/hiroshima-nagasaki-japan-nuclear-photos.html


Aðflugsljós við Leiruveg

Mikilvægara en veiðigjöldin

Að klára verkefnin – hvað er í gangi á Ásnum ?

Ef við getum ekki lækkað fasteignaskatt, þá eigum við að hagræða
