Fara í efni
Umræðan

Akureyri kortlögð fyrir 3+30+300 regluna

Íbúar Akureyrar ættu allir að geta séð að minnsta kosti þrjú stór tré frá heimili sínu, vinnustað eða skóla, laufþekja innan hverfis ætti að ná að minnsta kosti 30 prósentum og hvergi ætti að vera lengra fyrir íbúa í næsta græna svæði en 300 metrar. Þetta eru meginatriði svokallaðrar 3+30+300 reglu sem stefnt er að hjá Akureyrarbæ og unnið verður út frá við skipulag og þéttingu byggðar.

Vinna er hafin við að kortleggja stöðuna með tilliti til þessara þriggja þátta á Akureyri. Breskt fyrirtæki hefur verið fengið til að kortleggja gróðurþekjuna, byggt á gögnum sem fást með Lidar-skönnun sem framkvæmd er með loftmyndatöku, að því er fram kom á kynningarfundi Akureyrarbæjar um skipulagsmál sem haldinn var í liðinni viku. Þar kemur fram að stefnt sé að því að fyrstu drög að niðurstöðum kortlagningar og stefnumörkun liggi fyrir vorið 2026 og að þessi kortlagning muni hjálpa við að velja svæði til þéttingar og setja skilyrði um uppbyggingu. 

Myndir úr kynningu á skipulagsmálum fyrir íbúa á kynningarfundi sem haldinn var í Hofi 6. nóvember. 

Þarfir íbúanna í forgangi

Sigurður Arnarson fjallaði um þessa reglu í pistli sínum í röðinni Tré vikunnar á vef Skógræktarfélags Eyfirðinga 14. maí á þessu ári. Þar segir hann meðal annars: 

Þetta er ný þumalputtaregla fyrir trjárækt og grænar lausnir í þéttbýli á Norðurlöndum og hana á að nota allstaðar þar sem því verður við komið. Þessar meginreglur þarf að hafa í huga við allt skipulag og þegar kemur að þéttingu byggðar er mikilvægt að geta dregið trýnið upp úr trogi efnishyggjunnar þannig að það séu fyrst og fremst þarfir íbúanna sem hafðar eru í huga. Þétting byggðar á alltaf að fara fram á forsendum meginþorra íbúa.

Þar sem því verður við komið er mælt með því að nota innlendar trjátegundir eins og hægt er í nafni líffræðilegs fjölbreytileika. Aftur á móti teljum við að þar sem flóran er fátækleg sé heppilegt að auka fjölbreytileikann með því að planta heppilegum, innfluttum trjám. Í skýrslunni segir að vegna skorts á innlendum trjátegundum í Færeyjum, á Íslandi og Grænlandi, verði að leggja mat á raunhæfa nálgun við að uppfylla markmið 3+30+300 meginreglunnar.

Áskoranir á norðurslóðum

Innleiðing reglunnar á Norðurlöndum er hluti af norrænu samstarfsverkefni um náttúrumiðaðar lausnir í borgum og sveitarfélögum, að því er fram kemur í frétt á vef Akureyrarbæjar. Með því að leggja áherslu á innlendar tegundir, fjölbreyttan gróður og vel hönnuð opin svæði stuðli Akureyrarbær að grænni, heilsusamlegri og vistvænni byggð til framtíðar. Það sé hins vegar áskorun í löndum eins og Íslandi, Færeyjum og Grænlandi að finna raunhæfa nálgun við aðlögun reglunnar, þar sem innlendar trjátegundir séu fáar og loftslag krefjandi. Þar geti áhersla á annan innlendan gróður og fjölbreyttar grænar lausnir nýst til að ná markmiðunum. 

Fasteignaskattsprósenta lækkar!

Meirihlutinn í bæjarstjórn Akureyrar skrifar
13. nóvember 2025 | kl. 19:00

Tjaldsvæðisreiturinn eða Húsmæðraskólatúnið?

Benedikt Sigurðarson skrifar
13. nóvember 2025 | kl. 18:00

Álögur á heimili og fyrirtæki hafa aukist verulega á kjörtímabilinu

Sunna Hlín Jóhannesdóttir skrifar
08. nóvember 2025 | kl. 11:30

Græni dagurinn

Hlín Bolladóttir skrifar
07. nóvember 2025 | kl. 22:30

Afsakið – Kemst ekki á fundinn

Jón Hjaltason skrifar
03. nóvember 2025 | kl. 15:30