Fara í efni
Pistlar

3+30+300

TRÉ VIKUNNAR - 113

Pistill í röðinni Tré vikunnar birtist vikulega á vef Skógræktarfélags Eyfirðinga, alla miðvikudaga. Akureyri.net birtir brot úr hverjum pistli til að vekja athygli á skrifunum og hvetur fólk til að lesa meira á vefsíðu félagsins.
_ _ _

Norræna ráðherranefndin er opinber samstarfsvettvangur norrænu ríkisstjórnanna. Á heimasíðu nefndarinnar segir að hún vinni að sameiginlegum norrænum lausnum sem skila sýnilegum árangri fyrir alla þá sem eiga heima á Norðurlöndum.
 

Óhætt er að fullyrða að fátt er ráðherranefndinni óviðkomandi er við kemur lausnum sem ætlast er til að nýst geti öllum íbúum svæðisins. Má nefna að í ár eru 30 ár síðan farið var að veita Umhverfisverðlaun Norðurlandaráðs. Hér segir frá því markmiði að Norðurlönd eigi að verða sjálfbærasta og samþættasta svæði heims á árunum fram til 2030. Einn þáttur í þeirri viðleitni er skýrsla sem heitir Yggdrasil – The Living Nordic City, eða: Yggdrasill - hin lifandi norræna borg. Þetta er hluti af stærra verkefni sem kallast Náttúrumiðaðar lausnir fyrir norrænar borgir. Í þessari skýrslu eru sett fram viðmið um innleiðingu lausna sem stuðla eiga að grænni og betri borgum. Byggt er á meginreglu sem kallast 3+30+300. Þessi regla setur fram skýr viðmiðunarmörk fyrir lágmarksfjölda trjáa í þéttbýli. Við mælum með þessari fróðlegu skýrslu.

Hér má sjá samantekt á íslensku.

Forsíða skýrslunnar sem er grunnur þessa pistils.

Forsíða skýrslunnar sem er grunnur þessa pistils.

Þumalputtareglan 3+30+300

Meginregla, sem við köllum þrír, þrjátíu, þrjúhundruð, á að styðja við líffjölbreytileika og ekki síður að stuðla að bættri heilsu íbúanna. Reglan ber þetta nafn því samkvæmt henni ættu allir að geta séð að minnsta kosti þrjú stór tré frá hverjum dvalarstað, svo sem vinnustað, skóla eða heimili. Ekki er tiltekið hversu stór þau þurfa að vera og má vera að það sé æði misjafnt í huga fólks eftir því hvar við berum niður. Að auki ætti að vera að minnsta kosti 30% laufþekja í hverju hverfi og hvergi ætti að vera lengra fyrir íbúa en 300 m í næsta græna svæði. Þetta er ný þumalputtaregla fyrir trjárækt og grænar lausnir í þéttbýli á Norðurlöndum og hana á að nota allstaðar þar sem því verður við komið. Þessar meginreglur þarf að hafa í huga við allt skipulag og þegar kemur að þéttingu byggðar er mikilvægt að geta dregið trýnið upp úr trogi efnishyggjunnar þannig að það séu fyrst og fremst þarfir íbúanna sem hafðar eru í huga. Þétting byggðar á alltaf að fara fram á forsendum meginþorra íbúa.

Þar sem því verður við komið er mælt með því að nota innlendar trjátegundir eins og hægt er í nafni líffræðilegs fjölbreytileika. Aftur á móti teljum við að þar sem flóran er fátækleg sé heppilegt að auka fjölbreytileikann með því að planta heppilegum, innfluttum trjám. Í skýrslunni segir að vegna skorts á innlendum trjátegundum í Færeyjum, á Íslandi og Grænlandi, verði að leggja mat á raunhæfa nálgun við að uppfylla markmið 3+30+300 meginreglunnar.

Borgargróður í Þórshöfn í Færeyjum. Mynd: Sig.A.
 
Borgargróður í Þórshöfn í Færeyjum. Mynd: Sig.A.

Kuming-Montreal

Eitt af þeim markmiðum sem skýrsluhöfundar hafa sett sér er að benda á leiðir og setja fram leiðbeiningar þannig að öll Norðurlöndin geti innleitt Kunming-Montreal markmiðin um líffræðilega fjölbreytni fyrir grænar borgir. Á ensku kallast þetta Kunming-Montreal Global Biodiversity Framework og má lesa um verkefnið hér. Sérstaklega er bent á tólfta markmiðið sem felur í sér að auka beri verulega flatarmál grænna svæða í þéttbýli og að bæta aðgengi almennings að þeim. Það á að gera með því að auka verndun og sjálfbæra nýtingu og tryggja að borgarskipulag taki mið af líffræðilegri fjölbreytni með það að markmiði að bæta heilsu og auka vellíðan íbúanna með bættri tengingu við heilnæma náttúru. Allt borgarskipulag á að taka mið af þessu.

Dæmi um náttúrumiðaðar lausnir eru blágrænar lausnir í Hagahverfi. Mynd: Johanna Madsen.

Dæmi um náttúrumiðaðar lausnir eru blágrænar lausnir í Hagahverfi. Mynd: Johanna Madsen.

Meira á vef Skógræktarfélagsins.

Sigurður Arnarson er í stjórn Skógræktarfélags Eyfirðinga.

Smellið hér til að sjá allan pistilinn

Export

Sigmundur Ernir Rúnarsson skrifar
12. maí 2025 | kl. 11:30

Með hæla í rassi

Jóhann Árelíuz skrifar
11. maí 2025 | kl. 06:00

Hús dagsins: Aðalstræti 62

Arnór Bliki Hallmundsson skrifar
11. maí 2025 | kl. 06:00

Örlítið brot frá unglingsárum

Kristín Aðalsteinsdóttir skrifar
09. maí 2025 | kl. 06:00

Barkarbjöllur – ógn við íslenska skóga

Sigurður Arnarson skrifar
07. maí 2025 | kl. 08:45

Serie A

Sigmundur Ernir Rúnarsson skrifar
05. maí 2025 | kl. 11:30