Fara í efni
Umræðan

Óánægja með skort á samráði við skipulag

Hönnunarverslunin Vorhús er starfrækt í Hafnarstræti 71 (rauði ferningurinn). Samkvæmt tillögu að breyttu skipulagi hverfa öll bílastæði sem hafa verið framan við verslunina en í staðinn kemur sleppistæði fyrir rútur. Mynd: Vinnslutillaga Akureyrarbæjar.

Rekstraraðilar við þann hluta Hafnarstrætis sem til stendur að gera að vistgötu eru margir hverjir afar ósáttir við skort á samráði og upplýsingagjöf af hálfu Akureyrarbæjar þegar tillaga um breytingar á deiliskipulagi svæðisins var unnin. Breytingatillagan verður auglýst formlega í dag, miðvikudag, og þá gefst kostur á að gera athugasemdir við hana.

Þau sem akureyri.net ræddi við og eru ósátt við vinnubrögð bæjaryfirvalda í málinu gera sér ekki miklar vonir um að einhverjar breytingar náist fram og benda á að verið sé að hraða afgreiðslu málsins til að frágangi götunnar framan við nýtt hótel verði lokið þegar það verður opnað þann 1. maí. Í raun sé skipulagstillagan sniðin að þörfum þessa nýja hótels.

Breytingu „laumað inn“

Hönnunarverslunin Vorhús er starfrækt í Hafnarstræti 71, milli bygginga Hótel Akureyrar í Hafnarstræti 69 og 73-75 og gegnt nýja Skáld hótelinu. Eydís Ólafsdóttir, einn eigenda Vorhús, gagnrýnir málsmeðferð bæjaryfirvalda. „Það hefur ekki verið samráð um eitt né neitt í þessu skipulagsferli, hvorki núna né til dæmis þegar ákveðið var að breyta þessum hluta götunnar úr tvístefnu í einstefnu til suðurs. Þeirri breytingu var bara laumað inn með einni setningu þegar deiliskipulagi Austurbrúarreitsins var breytt í eitt skiptið. Sú breyting hafði mikil áhrif á okkur, við báðum um fund með skipulagsyfirvöldum en það kom ekkert út úr honum,“ segir Eydís.

Furða sig á að fyrirkomulaginu

Eydís segir ennfremur að þegar fyrir tæpum tveimur árum hafi rekstraraðilar við götuna furðað sig á áformum um að beina allri bílaumferð eftir Hafnarstræti í stað þess að nýta t.d. aðkomu frá Drottningarbraut. „Á þeim tíma sendum við líka athugasemdir við að það ætti að beina allri framtíðarumferð inn á þetta svæði frá horninu við Kaupvangsstræti. Okkur fannst mjög sérstakt að ætti að gera það, bara yfirhöfuð, því eins og við vitum er gangandi umferð þarna á sumrin ofsalega mikil. Og þá ætla þeir að bæta í bílaumferð, í staðinn fyrir að halda tvístefnunni hér fyrir framan Hafnarstræti 71 og hafa e.t.v. einhvers konar snúningspunkt,“ segir Eydís. Við afgreiðslu þessara athugasemda taldi skipulagsráð ekki mögulegt að breyta áformum um akstursleiðir á svæðinu því uppbyggingin á svæðinu miðaðist við breytta akstursstefnu.

Eydís tekur fram að þau hafi ekkert á móti uppbyggingu á svæðinu en finnst að taka hefði mátt tillit til sjónarmiða þeirra rekstraraðila sem fyrir eru. „Okkur langar engan veginn í neikvæða eða leiðinlega umræðu. Þetta er tuttugu ára gamalt akureyrskt fyrirtæki og við erum búin að vera á þessum stað í átta ár. Við erum bara að reyna að vera með verslun hérna og það hefur verið alveg hræðilega krefjandi að vera inni á miðju byggingarsvæði í öll þessi ár,“ segir Eydís.

Skissa úr vinnslutillögum Akureyrarbæjar með deiliskipulagstillögunni. Óvarðir vegfarendur verða settir í forgang í umferðinni um götuna. Sleppistæði fyrir rútur verða framan við Hafnarstræti 71 (græna rútan) og Hafnarstræti 73 (hvíta rútan) en viðkomandi hús eru reyndar ekki sýnileg á þessari mynd. Nýja Skáld hótelið sést til hægri.

Samkvæmt skipulagstillögunni sem nú er auglýst mun bílastæðum fækka umtalsvert þegar þessi hluti Hafnarstrætis verður gerður að vistgötu. Óvarðir vegfarendur verða settir í forgang, gangstéttar verða breiðar og gert ráð fyrir sérmerktri hjólaakrein til norðurs, sem hluta af stofnstíg.

Í deiliskipulagstillögunni segir um bílastæði:

  • Bílastæðum fækkar og fara því úr 49 almennum stæðum í götu í að lágmarki 14 en sérmerktum stæðum fyrir hreyfihamlaða fjölgar úr 2 stæðum í 4 ásamt því að komið er fyrir 2 sérmerktum sleppistæðum fyrir rútur fyrir framan Hafnarstræti 71 og 73.

Fyrir verslunina Vorhús í Hafnarstræti 71 þýðir þessi breyting að sögn rekstraraðila að 9 almenn bílastæði fyrir framan verslunina verða fjarlægð og sleppisvæði fyrir rútur sett þar í staðinn. Þetta segja þau enn eitt dæmið um að skipulagsbreytingin sé unnin í þágu eins aðila á þessu svæði og vísa þar í Skáld hótelið.

Ekki samráð við einn umfram aðra

Halla Björk Reynisdóttir, formaður skipulagsráðs Akureyrarbæjar, hafnar því að sérstakt samráð hafi verið haft við einn rekstraraðila á svæðinu umfram aðra. Undanfarin 4-5 ár hafi verið umfangsmiklar framkvæmdir í gangi við Austurbrú og Hafnarstræti. „Á þessum tíma hafa orðið nokkrar breytingar á umfangi og útfærslu uppbyggingar á svæðinu og var vinna við endanlega hönnun á götum og stígum í næsta nágrenni ekki sett í gang af fullum krafti fyrr en seint á síðasta ári. Frá upphafi hefur verið ljóst að aðlaga þurfi götu og stíga að þeim framkvæmdum sem hafa verið í gangi á svæðinu þar sem stígar og torg þurfa að „renna“ saman við nýtingu innan lóðar fyrir hótel og íbúðir austan Hafnarstrætis, en gert er ráð fyrir að almenningur geti gengið frá Hafnarstræti í gegnum inngarð innan lóðarinnar,“ segir Halla Björk í svari við fyrirspurn akureyri.net.

Formlegt samráðsferli hefst þegar breytingartillagan er auglýst

Halla Björk segir ennfremur að vinnuhópur til að klára hönnun götunnar hafi verið settur á fót sl. haust þegar það lá fyrir að framkvæmdir við hótelið myndu klárast um mitt þetta ár. „Í vinnuhópnum sátu fulltrúar skipulagssviðs og umhverfis- og mannvirkjasviðs ásamt tveimur utanaðkomandi landslagsarkitektum. Hópurinn naut einnig aðstoðar verkfræðinga við útfærslu ákveðinna þátta hönnunarinnar. Fulltrúar eigenda hótelsins voru ekki aðilar að vinnuhópnum en ákveðið samráð var við þeirra hönnuði þar sem hönnun lóðar og götu þarf að tala saman m.t.t. flæðis gangandi vegfarenda,“ segir Halla Björk.

Halla Björk bætir við að með auglýsingu umræddrar breytingartillögu við deiliskipulag svæðisins hefjist eiginlegt samráðsferli. Samhliða auglýsingunni verði send tilkynning til allra hagsmunaaðila við Hafnarstræti, frá Kaupvangsstræti að Drottningarbraut. Fulltrúar skipulagsráðs og bæjarfulltrúar munu síðan taka allar innsendar umsagnir til skoðunar og leggja eftir atvikum til breytingar sé ástæða til þess, áður en endanlegt skipulag er samþykkt, segir Halla Björk Reynisdóttir.

„Akureyrar ákvæðið“ um lagningu raflína í þéttbýli

Karl Ingólfsson skrifar
26. janúar 2026 | kl. 16:30

Hreint ekki eins og atvinnuviðtal

Hjörtur J. Guðmundsson skrifar
26. janúar 2026 | kl. 13:00

Tjaldsvæðisreiturinn auglýstur „til sölu“

Benedikt Sigurðarson skrifar
25. janúar 2026 | kl. 10:00

Gott að eldast

Kristín Áslaug Guðmundsdóttir skrifar
19. janúar 2026 | kl. 08:00

Hafirðu ekkert gott að segja er betra að þegja!

Hlín Bolladóttir skrifar
16. janúar 2026 | kl. 11:25

Samstaða í ferðaþjónustu aldrei mikilvægari

Halldór Óli Kjartansson skrifar
13. janúar 2026 | kl. 06:00