Fara í efni
Umræðan

Að standa saman sem samfélag

Þegar eitthvað bjátar á þá hjálpumst við að. Þegar fram koma hugmyndir sem við teljum að geti bætt samfélagið í heild þá styðjum við þær hugmyndir. Við viljum öll það sama en leiðirnar að því eru stundum mismunandi. Við viljum samfélag sem vex og dafnar og að íbúum þess líði vel. Að þeim líði eins og þeir hafi hlutverk og séu öruggir. Þetta er grunnurinn sem við stefnum öll að.

Veðurhamfarir

Vetrarveðrin 2019/2020 voru á þann hátt að það reyndi á okkur sem samfélag. Á meðan þeim stóð stukku öll stig samfélagsins fram og var reynt að bjarga öllu því sem bjargað varð. Lífi fólks, búfénaði, heimilum, útihúsum, atvinnuhúsnæðum og öðrum grunnstoðum samfélagsins.

Þarna komu svo í ljós brotalamir á kerfinu okkar, samfélaginu okkar. Við höfðum ekki tryggt fjarskipti nógu vel, við höfðum ekki tryggt rafmagnsflutninga nógu vel og hafði þetta töluverð áhrif á líf margra. Sem samfélag sendum við til að mynda varðskip til Dalvíkur, settum upp rafstöðvar, stukkum öll af stað og gerðum það sem við gátum.

Það sem gerir okkur að samfélagi eru viðbrögð okkar og það sem við gerum í framhaldinu. Við hjálpum þeim sem urðu fyrir tjóni, bætum innviði eins og raforkuflutninga og fjarskipti og byggjum sterkari stoðir undir samfélagið svo koma megi í veg fyrir að sama veður hafi sömu neikvæðu áhrif. Ef það kæmi fram beiðni til þorps eða bæjar um að allir þyrftu að hætta að nota rafmagn svo næsta samfélag gæti komið sér í gegnum skyndilega krísu þá myndum við öll taka þátt. Þetta er samfélag.

Núna í vetur voru það til dæmis skriðuföll á Seyðisfirði sem virkjuðu þennan samtakamátt okkar, við skelltum þaki yfir höfuð þeirra sem þurftu, aðstoð barst allstaðar að og allir tilbúnir að gera sitt. Uppbyggingin er síðan það sem við þurfum að taka að okkur sem samfélag. Styðja hvort annað.

Veirufaraldur

Covid-19 hefur verið að hrjá okkur í rúmt ár. Mikilvægi samfélags og samvinnu er sjaldan skýrara heldur en í svona árferði. Til þess að hægja á vexti faraldurs þurfa allir að taka þátt. Þetta höfum við sýnt í verki. Til þess að stöðva alveg faraldur þá þurfum við helst að bólusetja 90% fólks, þetta verkefni er í vinnslu. Sem samfélag höfum við sett upp kerfi sem tekur á því sem upp kemur. Allir hafa sitt hlutverk og enginn hefur öll svörin. Við leggjum traust okkar á að við sem samfélag sigrumst á þessu saman. Til þess að það sé hægt þurfum við að treysta því að næsti einstaklingur í samfélaginu standi við sitt og þú við þitt. Svoleiðis virkar hinn óskrifaði samfélagssáttmáli.

Okkar færustu sérfræðingar og vísindamenn á einu sviði samfélagsins setja upp áætlun og vinnum við eftir henni. Við sem samfélag höfum sammælst um að verja þá sem geta farið verst út úr því að fá veiruna og byrjum því á okkar elsta fólki. Þessu vinnum við saman að. Við viljum að heilbrigðiskerfið standi af sér högg svo við verjum það með því að bólusetja starfsmenn þess framarlega í röðinni. Þetta gerum við því við erum samfélag. Við viljum passa upp á að grunnstoðirnar standi þó fleiri bylgjur skelli á. Sjúkraflutningafólk, lögreglufólk, starfsmenn öldrunarheimila, skóla og leikskóla. Við viljum að grunnhjólin snúist. Við viljum bólusetja fólk sem er í meiri hættu vegna undirliggjandi sjúkdóma, vegna notkunar ákveðinna lyfja eða á annan hátt er í meiri hættu vegna veirunnar framarlega í röðinni. Því næst bólusetjum við restina. Þetta gerum við því við erum samfélag.

Aldrei í sögunni hefur heimurinn brugðist eins hratt við faraldri og núna. Allir fóru af stað og gerðu það sem þeir gátu. Fyrirtæki deildu upplýsingum um erfðaefni veirunnar og heimsbyggðin hjálpaðist að. Upp úr því kom að við fengum margar tegundir af bóluefnum, öll með sýna eiginleika og aukaverkanir eins og öll önnur lyf í sögu mannkyns. Við sem samfélag flokkuðum bóluefnin eftir virkni og aukaverkunum og lögðum til hvaða hópur fengi hvaða efni. Þetta er sáttmáli sem við gerum sem samfélag. Markmiðið okkar er sameiginlegt og við tökum öll þátt.

Efst í huga mér er þakklæti fyrir að búa í samfélagi sem getur tekist á verkefni eins og þessi. Ég mun ekki sýna vanþakklæti þegar röðin kemur að mér í bólusetningu heldur treysta kerfinu sem við höfum komið okkur upp og spila mitt hlutverk í þeirri keðju sem samfélag er. Ég mun segja takk fyrir bóluefnið sama hvaða nafni það nefnist.

Þetta er brotabrot af því sem við gerum sem samfélag. Saman byggjum við upp heimili, atvinnu, samgöngur og net innviða sem hífa okkur upp og gera okkur sterkari saman.

Ketill Sigurður Jóelsson er verkefnastjóri á rekstrardeild umhverfis- og mannvirkjasviðs hjá Akureyrarbæ, fjögurra barna faðir og frambjóðandi í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Norðausturkjördæmi.

Sókn Landsnets gegn hagsmunum Akureyringa

Ólafur Kjartansson skrifar
17. maí 2024 | kl. 12:00

Um raflínur og tryggingafélög

Inga Sigrún Atladóttir skrifar
15. maí 2024 | kl. 08:50

Fjórða læknaferðin endurgreidd

Líneik Anna Sævarsdóttir skrifar
14. maí 2024 | kl. 17:00

Búum til börn

Ingibjörg Isaksen skrifar
12. maí 2024 | kl. 06:00

Akureyrarklíníkin

Friðbjörn Sigurðsson skrifar
11. maí 2024 | kl. 14:00

Blöndulína 3, jarðstrengsumræðan og framtíðin

Steinunn Þorsteinsdóttir skrifar
30. apríl 2024 | kl. 10:10