Fara í efni
Pistlar

Troðum í okkur töflum

„Ef ég notaði nýju íslenskuna myndi ég segja núna: Ég er ekki að nenna þessu Íslandi lengur. Jú, landið er fallegt en þjóðin komin í algjört fokk. Þetta er svipað og Tyrkland - og þó ekki. Ég hef þrisvar farið til Tyrklands og upplifað fallegt landslag, fornar minjar og frábæran mat en þjóðin er alls ekki að mínu skapi, karlembur og öfgalið upp til hópa, falskir og gráðugir ræningjar, brosa með munninum en hata með augunum. Íslendingar eru kannski ekki alveg þarna en það er samt eitthvað svo galið við þessa þjóð, þessa tattúveruðu, sílíkontroðnu og bótoxsprautuðu smartlandskynslóð sem er svo upptekin af sjálfri sér að það þarf heila herdeild af sérfræðingum til að reyna að greina afkvæmi þeirra og setja þau á rétt lyf.“

Aðalsteini vini mínum Öfgar var mikið niðri fyrir. Hann hafði sjálfur verið, sem fyrr, greindur með fíknsjúkdóm fyrir utan geðhvörfin og besta ráðið til að halda sig á réttri braut var að forðast öll vímuefni, tengjast fólki sem var að berjast við sömu drauga, taka geðlyfin og ræða við fagfólk. Og umfram allt að vera í jafnvægi, ekki æsa sig upp yfir smámunum eða vera sífellt með puttann á lofti. Þetta síðastnefnda átti hann frekar erfitt með.

„Já, ég veit, taka því rólega, einn dag í einu, live and let live, góðir hlutir gerast hægt og allir þessi frasar. Ég verð bara svo æstur þegar ég hugsa um hvernig við höfum látið íslenskt þjóðfélag sigla í siðferðilegt strand, þessi fámenna og frábæra þjóð sem gæti verið til fyrirmyndar í svo mörgu. Þess í stað setjum við heimsmet í notkun geðlyfja, svefnlyfja, ofvirknislyfja og hvers konar raskana og fíknar, bara vegna þess að við nennum ekki að hugsa um börnin okkar eða geðheilsuna, bara rassgatið á sjálfum okkur. Ef eitthvað bjátar á heimtum við greiningu og lyf; aldrei má blása á móti, aldrei nýta virkni í íþróttir eða aðra hreyfingu, aldrei fara í rækilega naflaskoðun, bara heimta lyf til að slá á einkennin.“

Nú var Alli orðinn móður af æsingi og ekki laust við að ég væri það líka. Ég hafði vitaskuld fylgst með fréttum og vissi til hvers hann var að vísa. Íslendingum virðist um megn að takast á við mál eins og uppeldi, frávik í hegðun, siðferðileg álitamál, vanlíðan eða of mikla gleði, allt sem krefst þess að maður staldri við, líti í eigin barm og ræði saman á lausnamiðaðan hátt. Nei, það er of erfitt og tímafrekt og þess í stað er hlaupið til læknis eða í blöðin/netið og kvartað í blöðunum að ekki sé hægt að fá tíma hjá lækni eða ef maður hefur fengið tíma hjá lækni þá hefur hann kannski ekki viljað lækna vandann með lyfjum.

„Akkúrat. Við höldum að lyf leysi vandann. Allt í góðu, stundum gera þau það og ég þekki það í sambandi við geðhvörfin en þegar um er að ræða að börn sem eru óróleg, börn sem eru værukær, unglinga sem eiga erfitt með að slaka á eða sofna, fullorðið fólk sem er alltaf í símanum eða tölvunni, afa og ömmu sem eru sífellt sullandi í bjór og léttvíni, Sillu frænku sem getur ekki sofið fyrir magafylli, Konna frænda sem syngur ekki sama tenórinn og fyrir tutttugu árum; og öll heimta lyf til að laga það sem þau telja hafa farið úrskeiðis! Þetta er bara ekki í lagi – en vissulega ýta lyfjarisarnir undir þetta, maður má ekki svo mikið sem ropa eða fá sting í magann, þá stíga apótekin inn og vilja troða í okkur töflum.“

Þar sem Aðalsteinn Öfgar var nýlega kominn af Vogi fannst mér við hæfi að reyna að róa hann niður og ekki gefa honum færi á frekari útblæstri. Kannski ættum við öll eða sem flest að fara í einhvers konar meðferð, læra að hægja á lífsklukkunni, draga úr á ásókn í veraldleg gæði, líta inn á við og tileinka okkur sjálfsaga, sálarró og sáttfýsi. Ég held að það sé margt til í því sem Alli er að gagnrýna og í guðanna bænum ekki dæma hann úr leik þótt hann sé greindur með geðröskun og fíknsjúkdóm og hafi verið öryrki í allmörg ár. Hann hefur sannarlega reynt og stundum komist út á vinnumarkaðinn í gegnum Virk og náð einhverjum tíma þar. Umfram allt er Aðalsteinn Öfgar góð sál með ríka réttlætiskennd en vissulega fer orðræða hans stundum út í öfgar.

Þangað til næst... Lifið heil.

Stefán Þór Sæmundsson er hvítur maður á sjötugsaldri, reyndar sólbrúnn nokkuð, allþekktur fyrir stílbrögð og skáldskap.

Ellefu bækur í jólagjöf

Jóhann Árelíuz skrifar
13. október 2024 | kl. 06:00

Hryllilega skemmtileg hryllingsbúð

Rakel Hinriksdóttir skrifar
12. október 2024 | kl. 18:00

Kjaftagleiðir Akureyringar

Stefán Þór Sæmundsson skrifar
12. október 2024 | kl. 06:00

Eltu drauminn þinn – því draumar geta ræst

Hrund Hlöðversdóttir skrifar
11. október 2024 | kl. 06:00

Geðheilsa á vinnustöðum

Ólafur Þór Ævarsson skrifar
10. október 2024 | kl. 10:00

Hinn fágæti rúmenareynir og ný ættkvísl reynitrjáa

Sigurður Arnarson skrifar
09. október 2024 | kl. 12:00