Fara í efni
Pistlar

Stál og hnífur stöðvuðu svefninn

ORRABLÓT - 48

Ég er í hópi allra slöppustu útihátíðarmanna þessarar þjóðar. Og þó meðal fleiri þjóða væri leitað. Það hlýtur því að skjóta skökku við að ég sé hér í þann mund að hlaða í heilan pistil um slík mannamót. En er ekki öllum mönnum hollt að fara annað slagið út fyrir þægindarammann? Það var gömul frænka mín vön að segja.

Fyrsta útihátíðin sem ég sótti var ekki útihátíð. Alltént ekki í hefðbundnum skilningi þess orðs. Það voru engin skipulögð skemmtiatriði, engin alvöru gæsla og það kostaði hvorki lifur né lunga að ganga inn á svæðið. Við erum að tala um Vaglaskóg 1986. Löngu áður en Kaleo gerði þann góða skóg heimsfrægan. Jökull Júlíusson var ábyggilega ekki einu sinni fæddur.

Mótshaldarar voru engir; ungmennin á Akureyri létu bara boð út ganga: „Eigum við ekki að fjölmenna í Skóginn um Verslunarmannahelgina?“ Boðin bárust mér til eyrna og þar sem ég er í kjarnanum stemningsmaður gat ég ekki látið mig vanta.

Ég tók rútu austur ásamt nokkrum félögum mínum. Þetta var heljarinnar ferðalag á þessum tíma og við höfum ábyggilega tekið með okkur nesti. Smurt og jafnvel ósmurt.

Mikið stuð var á svæðinu og við Kjartan Guðmundsson og Bjarni Ármann Héðinsson slógum upp tjaldi. Nú myndum við nú aldeilis sletta úr klaufunum. Dagurinn leið, kvöldið og eitthvað af nóttinni og í minningunni var þetta bara þrælgaman. Ungmenni að hlæja, ærslast og skemmta sér saman. Mann hvorki eftir pústrum né átökum.

Að því kom að við Katti og Manni gerðumst lúnir og ákváðum að bjóða góða nótt og taka á okkur náðir. Lögðumst til hvílu í tjaldinu sem var á afar fjölmennu tjaldstæði. Af einhverjum ástæðum höfðu ýmsir aðrir engan skilning á þessu og héldu bara áfram að skemmta sér, syngja og tralla og eftir atvikum reka upp vein. Útilokað var að festa svefn í þessum hávaða. Við byltum okkur bara og byltum.

En viti menn. Skyndilega datt allt í dúnalogn. Það var eins og almættið hefði mætt á svæðið með kúst og sópað öllu liðinu burt. Við fórum með viðeigandi bænir í þakkarskyni. Nú gætum við loksins sofnað.

Eða hvað? Þegar við þremenningar vorum komnir langleiðina inn í draumalandið hlammaði trúbador sem aldrei var kallaður annað en Halli Bowie sér hins vegar beint fyrir framan tjaldið okkar og byrjaði að spila á gítar og syngja. Ómögulegt er að segja hvaðan hann kom. „Stál og hnífur er merki mitt, merki farandverkamanna,“ gall í kappanum. Söngur Halla var fagur og flutningurinn fumlaus. Þetta var bara hvorki staður né stund.

Mér hefur verið frekar illa við Stál og hníf allar götur síðan.

Næsta atlaga að útihátíð var gerð 1988 en þá var haldin hátíð undir nafninu Ein með öllu á Melgerðismelum. Raunar ætlaði ég alls ekki að fara. Var nýbúinn að kaupa mér bíl og á leið á tónleikahátíð á Englandi nokkrum dögum síðar. Fyrir vikið þurfti að halda þétt um pyngjuna.

Hjalti S. Hjaltason aldavinur minn skellti sér á föstudeginum og gerði afar góðan róm að veislunni þegar hann sneri heim til að steypibaða sig á laugardeginum. Ég yrði að mæta á svæðið um kvöldið. Ég bar ekki bara við fátækt heldur líka almennu áhugaleysi en Hjalti átti ás í erminni. „Er þetta ekki þín gamla heimasveit? Þú getur ekki verið þekktur fyrir að láta ekki sjá þig!”

Þar með var það selt. Til að komast hjá því að ég yrði tekinn til gjaldþrotaskipta fengum við stórkostlega hugmynd. Hjalti hafði borgað sig inn á svæðið og var bæði með armband, eins og tíðkast á svona hátíðum, og aðgöngumiða. Ég fékk miðann í hendur og átti að halda því fram að ég hefði týnt armbandinu á föstudagskvöldinu. Eins erfitt og það var, þau voru reyrð við úlnliðinn, nánast inn að beini.

En alla vega. Vopnaðir þessum mergjuðu áformum brunuðum við félagar fram á Melgerðismela á BMW-inum hans Hjalta. Bara helvíti góðir með okkur. Við komuna á svæðið tók Bjarni Bjarnason dansari úr Skriðjöklum á móti okkur í hliðinu. Hjalti sýndi honum armbandið og ég miðann. Málið dautt, að við héldum.

„Hvar er armbandið þitt?” spurði Bjarni mig.

Ég týndi því í gær. Þetta var heljarinnar geim, svaraði ég eins sannfærandi og ég gat.

„Já, einmitt,” sagði Bjarni. Ábyggilega búinn að heyra þetta oft áður. „En hvar er þá miðinn þinn?” spurði hann Hjalta.

„Ég er búinn að týna honum!”

„Já, einmitt.”

Við gerðum okkur strax grein fyrir því að Bjarni hafði lesið okkur eins og opna bók. Trúði ekki orði af því sem við sögðum. Eðlilega, þetta var eftir allt saman alveg ofboðslega vond hugmynd.

En hvað var a’tarna? „Jæja þá, inn með ykkur,” sagði Bjarni mæðulega, okkur til mikillar undrunar. Ætlar hann virkilega að sleppa okkur? Ekki bar á öðru. Við létum ekki segja okkur það tvisvar, heldur brunuðum inn á svæðið og héldum okkur langt frá hliðinu það sem eftir lifði kvölds og nætur.

Hvers vegna lá svona vel á Bjarna dansara þetta kvöld veit ég ekki. Kannski var hann bara búinn að gefast upp á bullinu í gestum hátíðarinnar. En hvað sem því líður hefur mér verið hlýtt til mannsins allar götur síðan. Takk fyrir, Bjarni minn, og afsakaðu þessa vitleysu!

Bandvalið á Melgerðimelum var óvenjulega hresst. Við erum að tala um Skriðjökla, Sniglabandið, Stuðkompaníið, Rokkabillíband Reykjavíkur, Viking band frá Færeyjum og Víxla í vanskilum og ábeking. Maður heyrir varla orðið ábekingur lengur. Synd. Auk þessa fór fram hljómsveitakeppni, þar sem ótilgreindur fjöldi hljómsveita atti kappi saman. Þokkalegur moli fór með sigur af hólmi. Hvað varð um það ágæta band?

Rúsínan í pylsuendanum var svo flunkunýtt stjörnuband, Sálin hans Jóns míns, með einn vinsælasta söngvara landsins, Stefán Hilmarsson, í broddi fylkingar en hann var þarna nýkominn heim úr miklum Júróvisjón-leiðangri með þeim félögum Sverri Stormsker og Sókratesi. Jón Ólafsson píanóleikari var líka í bandinu á þessum tíma, löngu áður en hann gerðist tvífari ritstjóra Akureyri.net.

Ég lét eitt kvöld duga á Melgerðismelum; gat ekki lagt meira á Bjarna dansara.

„Mér sýnist hátíðin standa á núllinu, vonandi þó réttu megin,“ sagði Pétur Bjarnason, einn af mótshöldurum á Melgerðismelum í samtali við Morgunblaðið að helginni lokinni. Um það bil 3.200 aðgöngumiðar seldust en á svæðinu voru rúmlega 4.000 manns þegar mest var. Pétur sagði mikil brögð hafa verið að því að fólk hefði reynt að komast óséð inn, annaðhvort með þvi að klofa yfir Eyjafjarðarána eða á annan hátt.

Að heyra þetta!

Aftur gaf ég mér tvö ár til að safna kröftum milli útihátíða. Ekki veitti víst af. 1990 var það aftur Vaglaskógur og sem fyrr engin skipulögð hátíð, bara stuð af fingrum fram. Með í för voru aldavinir mínir Arnaldur Skúli Baldursson og Magnús Ingi Magnússon og Arnar Már Arngrímsson sem síðar varð kennari og verðlaunarithöfundur. Þeir Skúli unnu saman þetta sumar. Helvíti þéttur og sprækur hópur.

Ekki minnist ég þess að neitt sérstakt hafi drifið á daga okkar félaga, kvöldið leið bara við gott spjall og almenna gleði. Þarna var margt góðra manna. Skúli og Arnar tjölduðu en við Massi brugðum á það eðalráð að sofa í bílnum hans; lögðum bara niður hvor sitt framsætið. Það snarvirkaði. Hefði einhver trúbadorinn fengið þá afleitu hugmynd að hlamma sér niður fyrir utan bílinn hefðum við í öllu falli getað hurðað helvítið. Til þess kom þó ekki.

Við renndum heim í bað daginn eftir og endurtókum svo leikinn á laugardeginum. Á sunnudeginum vildu þeir félagar ólmir brenna í Húnaver, þar sem skipulögð hátíð var í algleymingi. Ég sat eftir heima. Haraldur Hauksson, bróðir Eiríks stórsöngvara, var þarna nýbúinn að skera úr mér botnlangann og ég var gjörsamlega búinn á því. Komst ekki einu sinni fram úr rúminu, hvað þá meira.

Ári síðar fór ég hins vegar í Húnaver með Skúla og Massa. Við vorum á leið til Reykjavíkur og ákváðum að koma við á sunnudagskvöldinu í Húnaveri, þar sem aftur var haldin útihátíð. Það var svalt gigg og hápunkturinn þegar hið goðsagnakennda málmband Bootlegs steig á svið. Þá var oss skemmt. Náði Bootlegs líka sama ár í kjallara Menntaskólans við Sund. Tryllt band!

Við hittum líka nokkra þungarokkara í Húnaveri sem voru með böggum hildar vegna þess að þeir höfðu vaðið út í á kvöldið áður í fullum herklæðum og höfðu áhyggjur af því að leðrið væri ónýtt. Veit ekki hvernig það fór.

Síðan hef ég ekki komið á útihátíð í neinni mynd sem er kaldhæðnislegt í ljósi þess að höfundur slagarans ódauðlega Útihátíð, Sveinbjörn Grétarsson, Bjössi Greifi, hefur búið á ská fyrir ofan mig í tvo áratugi með minni gömlu skólasystur Guðrúnu Hauksdóttur og stórmerkilegum hundi sem lokið hefur framhaldsprófi í óperusöng.

Aldrei hef ég komið á Þjóðhátíð í Eyjum; dreif ekki einu sinni þangað þegar sonur minn, Nökkvi Fjalar Orrason, stóð þar á sviðinu, ekki bara einu sinni, heldur tvisvar, með skemmtihópnum sáluga Áttunni. Ég sé eftir því í dag.

Áttan færði á sinni tíð fjöll með lífsgleði sinni og uppbyggilegri orku.

Orri Páll Ormarsson er fæddur 1971. Hann ólst upp á Akureyri, er Þorpari, Þórsari, og blaðamaður á Morgunblaðinu. Pistlar hans fyrir Akureyri.net birtast hálfsmánaðarlega, á föstudögum.

Geðheilsa aldraðra

Ólafur Þór Ævarsson skrifar
04. september 2025 | kl. 12:30

Arnold Arboretum

Sigurður Arnarson skrifar
03. september 2025 | kl. 09:00

50 kall

Sigmundur Ernir Rúnarsson skrifar
01. september 2025 | kl. 11:30

Legið í gottinu

Jóhann Árelíuz skrifar
31. ágúst 2025 | kl. 06:00

Björgum heilsunni hið snarasta

Stefán Þór Sæmundsson skrifar
30. ágúst 2025 | kl. 06:00

Elri. Hjálplegt, gagnlegt og fallegt

Sigurður Arnarson skrifar
27. ágúst 2025 | kl. 08:00