Fara í efni
Pistlar

Úrillt og ráðvillt trippastóð

ORRABLÓT - 54

Synd væri að segja að dans hefði verið rauði þráðurinn í pistlum mínum á þessum vettvangi. Það á sér ósköp eðlilegar skýringar – ég hef afskaplega litla þekkingu á dansi og kann sjálfur ennþá minna fyrir mér í þeirri ágætu grein. Það breytir ekki því að ég ber mikla virðingu fyrir dansi og dönsurum, sem eru þegar best lætur ofboðslega flinkt og elegant fólk. Ef marka má Vísindavefinn þá er talið að dans hafi fylgt manninum frá upphafi vega, eða að minnsta kosti jafnlengi og trúarbrögð. Margir sagnfræðingar aðhyllast raunar þá kenningu að dans hafi upphaflega verið af trúarlegum toga, þótt ekki sé vitað hvernig frummaðurinn dansaði. Synd og skömm. Hugsið ykkur hvað sú vitneskja myndi gera fyrir okkur í dag!

Börn í Dansskóla Sigurðar Hákonarsonar. Rétt er að taka fram að Orri Páll Ormarsson er ekki á myndinni enda er hún nýleg og fengin að láni á vefsíðu skólans.

Eina formlega þjálfunin sem ég hef hlotið í dansi var þegar Sigurður Hákonarson mætti með harðsnúið lið sitt í Þelamerkurskóla í blábyrjum áttunnar. Okkur, guðhræddum börnunum, var smalað inn í íþróttasal, þar sem okkur voru kennd grunnsporin í helstu samkvæmisdönsunum, svo sem Cha Cha Cha, Enskum vals, Paso Doble og Jive. Nei, nú er kapp hlaupið í kinn, ég man ekki nákvæmlega hvaða dansar þetta voru. En djöfull væri nú gaman að geta sagt að maður hefði dansað Paso Doble!

Hitt man ég vel, að sjálfur var ég í basli. Svona fínhreyfingar eiga alls ekki við mig. Ég náði á endanum „hliðar, saman, hliðar” en þar með held ég að segja megi að það sé upp talið. Hinir krakkarnir náðu hins vegar sumir hverjir ansi góðu valdi á þessu. Sigurði og liði hans til mikillar gleði. Bekkjarbróðir minn Fúsi á Einarsstöðum var til dæmis ansi hreint liðugur og mjúkur í snúningunum.

Best náði ég mér á strik þegar hent var, alltaf í blálok æfingarinnar, í Hókí póki enda er Hókí pókí um margt líkara leikfimisæfingu en virðulegum samkvæmisdansi. Hóhókíhókípókí, þetta er allt og sumt! Þið þekkið þetta. Þarna var ég loksins kominn inn fyrir þægindaramann.

Glerárskóli (á efri myndinni) og Þelamerkurskóli. Sómahjónin Sæmundur Bjarnason og Guðrún Jónsdóttir við hliðið að lóð skólans. Hann var skólastjóri og hafði verið lengi þegar Orri Páll kom í skólann og hún kenndi yngstu börnunum af alúð og almennum elskulegheitum. Myndin birtist í Morgunblaðinu í maí 1979 eftir að fréttaritari blaðsins kom í heimsókn.

Ekki svo að skilja að maður hafi gert eitthvað við þessa grunnþekingu á samkvæmisdönsunum. Næst þegar dansleik var slegið upp á Þelamörk hristi maður sig bara einhvern veginn og skók á gólfinu, spuni frá innstu rótum. Hver með sínu nefi. Og enginn amaðist við því. Eins gott að Sigurður heitinn var á bak og burt, hann hefði fundið til inn að beini yfir tilviljunarkenndum tilburðunum. „Segið mér, hef ég bara talað inn í tómið? Hef ég bara talað inn í tómið?”

Auðvitað sagði hann þetta ekki – en hefði alveg getað gert það.

12 ára gamall hóf ég nám í Glerárskóla og þar voru stundum haldin dansiböll, í stofu sem var ábyggilega númer 16. Stór stofa og rúmgóð. Einu sinni reyndu nemendur meira að segja fyrir sér í maraþondansi. Man ekki af hvaða tilefni. Kannski til að safna áheitum fyrir Dansskóla Sigurðar Hákonarsonar? Ég treysti mér ekki í það verkefni en einhverjir félagar mínir dönsuðu næturlangt og fram á næsta dag, muni ég rétt. Aðrir hófu leik, hættu eftir klukkutíma og fengu vottorð frá skólanum. „Nemandinn dansaði í 1 klukkutíma.” Síðan héldu menn þráðbeint á djammið, bættu bara 0 fyrir aftan 1 á plagginu, og fengu klapp á bakið frá mömmu og pabba fyrir dugnaðinn og úthaldið. „Dansaðirðu í 10 klukkutíma samfellt? Duglegur strákur!”

Við nefnum að sjálfsögðu engin nöfn í þessu sambandi.

Dynheimar við Hafnarstræti. Nýlega var byggt ofan á húsið sem nú er hluti Hótels Akureyrar.

Dansleikjahald á þessum árum tengi ég best við Dynheima, athvarf okkar unglinganna. Þangað stefndu menn reglulega (dans)skónum. Auðvitað komu menn líka saman til skrafs og ráðagerða eða til að fara í sjómann. Rúnar vinur minn Friðriksson náði að skora flesta stráka sem vísiteruðu Dynheima á hólm uppi á svölunum – og leggja þá líka. Hraustur maður, Rúnar.

Mest dönsuðum við strákarnir í hópum og höfum þá ábyggilega minnt meira á úrillt og ráðvillt trippastóð en fágaða dansara. Það voru helst rokkslagarar sem drógu okkur fram á gólfið og þá meira til að hoppa en dansa, í eiginlegri merkingu þess orðs. Mest tengi ég slagara á borð við Run Runaway með Slade og I Was Made for Lovin’ You með Kiss við þennan gjörning. Öllum þessum árum síðar finn ég enn fyrir óstjórnlegri þörf til að hoppa þegar ég heyri þessi lög. Hvar sem ég er staddur.

Steindór Geir Steindórsson – Dyni – umsjónarmaður Dynheima á unglingsárum höfundar Orrablótsins. Hann er í því hlutverki á myndinni til vinstra en á þeirri hægri undir stýri á glæsibifreið af gerðinni Dixie Flyer, árgerð 1919, í kvikmyndinni Land og synir árið 1980.

Eftirminnilegasti dansinn sem ég steig í Dynheimum var þó ekki á dansgólfinu, heldur í rýminu fyrir framan það. Ég var þá nýkominn í hús og á leið inn í aðalrýmið þegar bláókunnugur strákur, sem var allmörgum árum eldri, réðst óvænt á mig og gaf mér á lúðurinn. Enginn aðdragandi var að þeim gjörningi. Eins og ég segi þá þekktumst við ekki neitt og ólíklegt að ég hafi verið búinn að gera neitt á hans hlut. Árásarmanninum til málsbóta skal því til haga haldið að hann var mjög ölvaður og virtist ekki endilega standa klár á því hvar hann væri staddur í heiminum. Þess utan var hann orðinn alltof gamall til að vera af fúsum og frjálsum vilja í Dynheimum.

Eftir að hafa heilsað mér að sjómannasið keyrði gaurinn mig upp að vegg og tók svo fast um hálsinn á mér að ég hallaðist einna helst að því að nú væru dagar mínir taldir. Líf mitt stóð mér fyrir hugskotssjónum. Eða þannig, kannski aðeins ofmælt. Þetta gerðist allt mjög hratt.

En þegar neyðin er stærst þá er Dyni næst. Umsjónarmaður hússins, sem aldrei var kallaður annað en Dyni, skarst í leikinn, losaði mig úr prísundinni og henti dólginum öfugum út á stétt. Spurði því næst hvort ég væri í lagi. Jú, jú, auðvitað var mér brugðið og svolítið illt í sálinni en líkamlegt tjón var óverulegt. Ég hélt því bara sem leið lá inn í danssal og byrjaði að hoppa með hinu liðinu. Það var enginn stemmari fyrir drama, tíðarandinn var bara þannig.

Eftir eitt ár í menntaskóla fór að þykja yfirgengilega hallærislegt að fara í Dynheima sem þýddi að við krakkarnir urðum svolítið landlaus í danslífinu um skeið. Ég meina, maður þurfti að vera orðinn fullra 18 vetra til að færast upp á næsta stig, H 100. Einhver sluppu inn fyrr, einkum stelpurnar, en við félagarnir áttum ekki breik. Dyraverðirnir voru upp til hópa strákar úr Þór, nokkrum árum eldri en við, og vissu upp á hár hvað við vorum gamlir. „Þú ert í 3. flokki, ekki láta þig dreyma um að koma hér inn!”

Biðin eftir að komast inn í H 100 varð svo löng að eftirvæntingin var eiginlega bara liðin hjá þegar maður var loksins kominn með aldur. Í einhver skipti leit maður þó við og í mér situr minning um Stefán Hilmarsson og félaga í Sálinni hans Jóns míns að flytja hinn eldhressa slagara Glamour Boys eftir bandaríska tilraunamálmbandið Living Colour í einhverju rými hússins. Það gæti þó alveg hafa verið draumur. En menn voru í öllu falli í banastuði. Á sviði sem gólfi.

Orðinn 18 ára fór maður frekar í Sjallann, ef sletta þurfti úr klaufunum. Sá þjóðþekkti og goðsagnakenndi staður var í fínu formi á þeim árum og oftar en ekki grenjandi stemmari á gólfinu. Hvort sem band var á sviðinu eða plötusnúður í búrinu.

Svo kom skemmtistaðurinn 1929, þar sem Nýja bíó var áður til húsa og sveitaballaböndin biðu í röðum eftir að láta ljós sitt skína. Þá var ég hins vegar farinn suður til náms en náði aðeins að þefa af þeirri stemningu á sumrin.

Fyrir sunnan hafði slamdansinn rutt sér til rúms og var stíft stundaður á stöðum eins og Fimmunni, Grjótinu og LA Café. Við Akureyringar létum ekki okkar eftir liggja og ég man eftir ófáum hólmgöngunum með félögum af Nýja-Garði, eins og Torfa Rafni Halldórssyni, dr. Þorleifi Ágústssyni, Einari Pálma Sigmundssyni og Jóni Sigtryggssyni. Jón er heljarmenni að burðum og ekki amalegt að láta hann valda sig á gólfinu þegar slammið náði mestum hæðum. Varla er hægt að hugsa sér betra adrenalínkikk í þessum heimi en almennilegan slamdans.

En þarna var maður auðvitað kominn óravegu frá rótunum, það er dansnámskeiðunum hjá Sigurði Hákonarsyni. Slam er ekkert Paso Doble …

Orri Páll Ormarsson er fæddur 1971. Hann ólst upp á Akureyri, er Þorpari, Þórsari, og blaðamaður á Morgunblaðinu. Pistlar hans fyrir Akureyri.net birtast hálfsmánaðarlega, á föstudögum.

Strandrauðviður

Sigurður Arnarson skrifar
26. nóvember 2025 | kl. 20:00

Hvalastrandið

Jóhann Árelíuz skrifar
23. nóvember 2025 | kl. 06:00

Þið kannist við jólaköttinn ...

Pétur Guðjónsson skrifar
22. nóvember 2025 | kl. 16:00

Um nöfn og flokkunarkerfi. Seinni hluti

Sigurður Arnarson skrifar
19. nóvember 2025 | kl. 12:00

Hreyfing hreyfingarinnar vegna

Guðrún Arngrímsdóttir skrifar
18. nóvember 2025 | kl. 06:00

Djúpstæð augu sviðakjammanna

Jóhann Árelíuz skrifar
16. nóvember 2025 | kl. 06:00