Fara í efni
Pistlar

Krúttlegasti knattspyrnuvöllur í heimi

ORRABLÓT - 53

Sana-völlurinn. Sana-Wembley, eins og margir kölluðu hann af djúpri lotningu en um leið ofurlítilli kaldhæðni. Er hægt að hugsa sér krúttlegri knattspyrnuvöll í þessum heimi? Og samvinnuþýðari. Meðan allt gras lá í dvala og malarvellir Þórs og KA komu seint og illa undan vetri var Sana-völlurinn alltaf klár í slaginn eldsnemma á vorin, jafnvel meðan enn ríkti vetur. Hvað hefðu sparkendur bæjarins gert án hans, árum og áratugum saman? Ábyggilega koðnað niður og dregist aftur úr kollegum sínum fyrir sunnan.

Ég man fyrst eftir að hafa sótt kappleiki á Sana-vellinum seint í sjöunni. Það voru aðallega vormót og æfingaleikir en líka Íslandsmótsleikir, ef enginn annar völlur var í boði. Mér er sérstaklega minnisstæður leikur KA og Hauka í fyrstu umferð Íslandsmótsins vorið 1979. Tvennt kemur þar til.

Í fyrsta lagi fór úrslitaleikur enska bikarsins milli Arsenal og Manchester United fram á sama tíma á hinum eiginlega Wembley-leikvangi í Lundúnum. Ekki var um beinar útsendingar að ræða á þeim tíma og maður róaði því bara taugarnar og mætti á Sana. Lengi vel bárust engar fréttir frá heimsborginni en skyndilega gall í einhverjum manni við hliðarlínuna á Sana (það var engin stúka á staðnum): „Arsenal er 2:0 yfir og lítið eftir af leiknum!” Þvílík tíðindi og mér þótti strax vænt um þennan mann, þó ég þekkti hann ekki neitt.

Mér brá því allverulega þegar ég kom heim og heyrði að United hefði jafnað leikinn undir blálokin. Til allrar hamingju rauk Arsenal strax í sókn og Alan Sunderland skoraði sigurmarkið eftir glæsilegan undirbúning Liams Bradys og Grahams Rix. 3:2 í einum frægasta bikarúrslitaleik sögunnar.

Í öðru lagi mætti Haukaliðið, eins og það lagði sig, í kaffi til konu í næsta raðhúsi eftir leikinn, sem KA vann, 3:1. Verðum við ekki að láta það koma fram? Sú ágæta kona mun hafa verið úr Hafnarfirði og mátti til með að fylla maga sveitunga sinna áður en þeir legðu í’ann suður. Ég held að þeir hafi fengið lummur með sykri sem þeir skoluðu niður með ískaldri nýmjólk.

Við strákarnir í götunni störðum opinmynntir á þegar hver kempan af annarri steig út úr liðsrútunni. Frægari menn höfðum við ekki í annan tíma séð í slíku návígi. Ég meina, þetta voru leikmenn í 1. deild í knattspyrnu. Við erum að tala um kappa á borð við Ólaf Jóhannesson, Björn Svavarsson og Guðmund Sigmarsson.

Sigbjörn heitinn Gunnarsson, Bjössi í Sporthúsinu, var mátulega hrifinn í umsögn sinni um leikinn í Morgunblaðinu: „Vart verður sagt að það hafi verið glæsiknattspyrna, sem sást norður á Akureyri á laugardag. Hvort tveggja var að leikurinn fór fram við fremur slæmar aðstæður, það er að segja á malarvelli, sem aldrei hefur verið hátt skrifaður af knattspyrnumönnum, en er þó alls ekki lakari en gengur og gerist, svo og voru leikmenn greinilega allþrúgaðir af spenningi, enda fyrsti leikurinn í deildinni.”

Í liði KA á þessum tíma voru meðal annarra Elmar Geirsson, Njáll Eiðsson, Gunnar Blöndal og Jóhann Jakobsson, Donni.

Seinna átti ég sjálfur eftir að mæta á ófáar æfingarnar á Sana-vellinum og spila kappleiki, að vori og stundum fram á sumarið. Það var eins og Sana-völlurinn stæði í öðru veðurbelti en vellir KA og Þórs. Allur gangur var þó á aðstæðum, stundum var völlurinn glerharður en stundum eins og leðjuakur. Að ekki sé talað um svellbunkana sem leyndust hér og þar. Hafið þið prófað að fóta ykkur á takkaskóm á svelli? Ófáir limirnir urðu þarna fyrir tjóni.

Oftast var þó bara allt í lagi að spila á Sana; maður þekkti svo sem ekkert annað enda alinn upp á malbiki, eins og Emmsjé Gauti löngu síðar, fyrir framan Lundarskóla, Þelamörk og Glerárskóla.

Eftirminnilegur er leikur sem við Þórsarar í 4. flokki karla lékum á Sana-vellinum gegn meistaraflokki kvenna vorið 1985. Guðmundur Svansson þjálfaði bæði lið og þótti upplagt að þau reyndu með sér. Okkur strákunum fannst aðeins skrýtið að spila á móti fullorðnum konum, þó sumar hverjar væru að vísu litlu eldri en við, en létum slag standa og unnum býsna sannfærandi sigur. Kvennaknattspyrna var til þess að gera skammt á veg komin á Íslandi á þessum árum og framfarirnar síðan hafa verið gríðarlegar. Engin leið að bera þetta saman. 4. flokkur karla ætti ekki mikla möguleika í meistaraflokk kvenna í dag.

Vanda Sigurgeirsdóttir, sem síðar varð landsliðsmaður, landsliðsþjálfari og formaður KSÍ, var allt í öllu á miðjunni hjá meistaraflokksliðinu. Maður sá strax að hún ætti eftir að ná langt.

Eina konan sem ég hef reglulega glímt við á velli síðan er Halla Gunnarsdóttir, fomaður VR, en hún hefur lengi átt aðild að Knattspyrnufélagi Magnúsar Finnssonar sem starfrækt hefur verið á Morgunblaðinu frá árinu 1976. Halla er lunkinn leikmaður og fylgin sér; lætur okkur karlana ekki eiga neitt inni hjá sér.

Gummi Svans hafði mikinn metnað sem þjálfari og bryddaði ósjaldan upp á nýjungum, eins og að láta okkur spila 5 gegn 5 á stórum velli. Þá var nú aldeilis svæðið að hlaupa í en djöfull sem þetta gat verið erfitt. Sérstaklega þegar hlaupa þurfti til baka. Það er af einhverjum ástæðum alltaf auðveldara að hlaupa fram en til baka.

 

Raunar tengi ég Sana-völlinn ekki síst við hlaup. Gunnar Gunnarsson, Gassi, sem þjálfaði okkur Þórsara í 2. flokki lét okkur alltaf hlaupa frá Íþróttahúsi Glerárskóla niður á Sana fyrir æfingar og sömu leið til baka að þeim loknum. Ekki það skemmtilegasta sem við gerðum en skilaði sér í prýðilegu úthaldi. Það var þó alla vega fótbolti í boði inn á milli, ekki bara hlaup, hlaup og meiri hlaup, eins og á veturna áður en Sana-völlurinn kom undan sköflunum.

Ég man líka vel eftir leik með 1. flokki Þórs (varamenn úr meistaraflokki í bland við okkur strákana úr 2. flokki), eldsnemma um vor 1988. Það var ekki bara ískalt, heldur einnig svaðblautt og þjálfarinn, Jóhannes Sandhólm Atlason, hélt sig að mestu inni í bíl við hliðarlínuna og kallaði skipanir til okkar út um gluggann. Ég var í líki grýlukertis þegar ég kom heim og fór beina leið undir sæng að steypibaði loknu og horfði á beina útsendingu frá ítölsku knattspyrnunni. Sem maður gerði ekki nema orkan dygði ekki í neitt annað. Man ekki hvaða lið voru að keppa.

Bílarnir eru minnisstæðir frá Sana-vellinum enda nauðsynlegur staðalbúnaður. Varamenn héldu sig gjarnan þar, þangað til þeim var skipað að hita upp og koma sér inn á völlinn fyrir hina sem voru að niðurlotum komnir vegna kulda og vosbúðar. Og jafnvel löðrandi í drullu, frá hvirfli til ilja. Hvort þeim var hleypt þannig til fara inn í bílana man ég ekki. Það hlýtur þó að vera. Annars hefðu þeir króknað á hliðarlínunni.

Já, Sana-Wembley. Er hægt að hugsa sér krúttlegri knattspyrnuvöll í þessum heimi?

Orri Páll Ormarsson er fæddur 1971. Hann ólst upp á Akureyri, er Þorpari, Þórsari, og blaðamaður á Morgunblaðinu. Pistlar hans fyrir Akureyri.net birtast hálfsmánaðarlega, á föstudögum.

Ástand lands og landlæsi. Seinni hluti: Afneitun

Sigurður Arnarson skrifar
12. nóvember 2025 | kl. 09:30

„Brave“

Michael Jón Clarke skrifar
10. nóvember 2025 | kl. 17:00

Hús dagsins: Aðalstræti 40 (Bibliotekið)

Arnór Bliki Hallmundsson skrifar
10. nóvember 2025 | kl. 06:00

Rauði Skódinn

Jóhann Árelíuz skrifar
09. nóvember 2025 | kl. 06:00

Frystiklefafælni

Ólafur Þór Ævarsson skrifar
06. nóvember 2025 | kl. 06:00

Ástand lands og landlæsi – Fyrri hluti: Staðan

Sigurður Arnarson skrifar
05. nóvember 2025 | kl. 10:00