Fara í efni
Pistlar

Skógarfuglinn músarrindill

TRÉ VIKUNNAR - 114

Pistill í röðinni Tré vikunnar birtist vikulega á vef Skógræktarfélags Eyfirðinga, alla miðvikudaga. Akureyri.net birtir brot úr hverjum pistli til að vekja athygli á skrifunum og hvetur fólk til að lesa meira á vefsíðu félagsins.
_ _ _

Með aukinni skóg- og trjárækt hafa skilyrði fyrir ýmsa skógarfugla batnað stórlega. Minnkandi beit og jafnvel beitarfriðun birkiskóga hafa lagst á sömu sveif. Hlýnandi veðurfar hefur einnig hjálpað til. Einn af þeim fuglum sem notið hafa þessara breytinga er lítill, fjörugur og forvitinn fugl sem kallast músarrindill eða Troglodytes troglodytes islandicus. Hann er einn af einkennisfuglum birkiskóga en hann finnst einnig í blandskógum. Músarrindlum hefur fjölgað mikið frá því sem var um aldamótin nítjánhundruð og nú nema þeir sífellt fleiri svæði um allt land þar sem uppvaxandi tré og skóga er að finna. Gera má ráð fyrir að við landnám hafi þó verið enn meira um músarrindil á Íslandi en nú er, enda var þá landið mun betur gróið en síðar varð og birkiskógar miklu algengari en nú er.
 
 

Lýsing

Það sem helst einkennir músarrindil er smæðin og hið smáa en sperrta stél. Á því þekkist hann langar leiðir. Ef fuglinn er ekki á flugi vísar það nær alltaf beint upp. Svo þekkist hann á sínum kraftmikla og skæra söng. Ungfuglarnir líkjast þeim fullorðnu (Jóhann Óli 2011, Einar 2016).

Þessi litli söngfugl er aðeins um 6-20 g að þyngd. Heimildum ber illa saman en að auki getur skipt máli hversu vel nærður hann er. Hann verður um 9 cm langur með hnubbótt vaxtarlag. Karlinn er að jafnaði heldur stærri en kerlingin en kynin eru mjög áþekk að sjá. Þótt músarrindill sé sérstaklega krúttlegur fugl verður hann seint talinn með litskrúðugustu fuglum. Hann er móbrúnn á litinn með ljósari rákir á fjöðrum og með ljósa rák yfir augunum. Bakið er mórautt en að neðan er hann grárri. Bæði goggur og fætur eru dökkir á litinn. Sigurður Ægisson (2022) bendir á að fæturnir séu óvenju sterklegir miðað við búkstærð fuglsins.

Músarrindill á grenigrein. Hvíta rákin yfir auganu er áberandi og fætur og tær dæmigerð fyrir spörfugla. Mynd: Emma Hulda Steinarsdóttir.
Músarrindill á grenigrein. Hvíta rákin yfir auganu er áberandi og fætur og tær dæmigerð fyrir spörfugla. Mynd: Emma Hulda Steinarsdóttir.

Atferli

Músarrindill heldur sig helst við trjástofna eða í runnum. Gjarnan er hann niður undir jörðu og sjái hann girnileg skordýr á jörðinni hoppar hann þangað en annars tekur hann fæðu sína af greinum trjáa og runna. Hann er fremur spakur og forvitinn og ákaflega fjörugur, kvikur og skemmtilegur fugl. Hann er alltaf á iði og stoppar sjaldan nema eina sekúndu eða svo á sama stað og hallar stundum undir flatt. Svo tekur hann nýjan sprett og skimar eftir frekara æti.

Músarrindill er forvitinn fugl. Oft má sjá músarrindla nálgast mannfólk svona eins og til að kanna hver sé á ferðinni. Þeir eiga það jafnvel til að koma sjálfir til að skoða göngufólk í skógum, en ekki öfugt. Ef mannfólkið sýnir af sér ró og gerir ekkert sem rindillinn gæti túlkað sem ógnun þá virðist hann treysta gestum skógarins (Einar og Daníel 2006). Annars er hann fremur felugjarn og litirnir gera það að verkum að hann er ekki áberandi.

 

Músarrindillinn flýgur sjaldan en þegar hann gerir það flýgur hann hratt og beint með höfuðið teygt fram. Þá heyrist heilmikill þytur í vængjunum. Þótt músarrindlar séu að jafnaði einfarar þá sjást þeir stundum í för með öðrum skógarfuglum eða í smáhópum. Má nefna glókollinn sem dæmi, en þeir sækjast eftir svipaðri fæðu, einkum á vetrum.

Þegar hann situr sveiflar hann uppsperrtu stélinu ótt og títt.

 Það geta ekki allir fuglar verið litskrúðugustu fuglar í heimi.  Mynd: Sigurður H. Ringsted.
Það geta ekki allir fuglar verið litskrúðugustu fuglar í heimi. Mynd: Sigurður H. Ringsted.

Músarrindlar í húsum

Margar sagnir hafa spunnist um það að músarrindill á það til að álpast inn í hús. Hin síðari ár eru það aðallega gróðurhús en þjóðsögur segja frá heimsóknum í önnur hús. Reyndar hafa þessar heimsóknir í gróðurhús vakið athygli margra. Þar má oft finna fjölmörg skordýr sem fuglinn tínir upp. Má jafnvel flokka fuglinn sem lífræna vörn í gróðurhúsum. Þegar hann gerir þetta er áberandi að hann lætur ekki blekkjast af gagnsæjum gluggum eða veggjum. Margir fuglar, til dæmis flestir þrestir, eiga það til að fljúga á gler- eða plastveggi slíkra húsa, jafnvel aftur og aftur. Þetta gerir músarrindillinn ekki. Hann heldur sínu fjöruga jafnaðargeði og á ekki í minnstu vandræðum með að rata út úr húsinu ef á þarf að halda.

Þessar heimsóknir í gróðurhús virðast ekki tengjast neinni þjóðtrú enda eru þau tiltölulega ný á Íslandi. Öðru máli gegnir um önnur hús. Við getum ekki stillt okkur um að nefna dæmi og notum bók Sigurðar Ægissonar frá 2020 sem heimild.

Ein sagan er sú að fuglinn sé spáfugl sem veit fyrir harðviðri ef hann flýgur inn í hús. Þetta er sennilega saklausasta sagan um húsvitjanir músarrindils en í bók sinni segir Sigurður (2020) frá mörgum dæmum um þessa trú. Eggert Ólafsson og Bjarni Pálsson ferðuðust um landið á árunum 1752-1757 og sögðu frá ýmsu merkilegu. Þar segir að músarrindill sæki inn í híbýli manna í gegnum strompinn og haldi sig í reyk og sóti. Þar leitar hann að hangikjöti og grefur sig inn í það þar sem holdið er þykkast. Þess vegna þurfa bændur að setja grind yfir strompinn sem fuglinn þorir ekki í gegnum. Aðrir láta nægja að setja kross við strompinn. Músarrindillinn er svo mikill óheillafugl og svo vel tengdur myrkraöflunum að þá þorir hann ekki inn. Aðrir eru þessu algerlega ósammála. Þeir telja að það sé af tómri guðhræðslu sem fuglinn fer ekki um stromp sem varinn er með krossmarki. Þeir vilji ekki vanvirða hið góða merki með því að fara þar um. Því til frekara sannindamerkis benda þeir á hversu fagra söngrödd fuglinn hafi. Hún minnir sannarlega ekki á neitt illt. Öðru nær (Sigurður 2020).

 
Músarrindill sem brostið hefur í fagran söng. Svona fugla er varla hægt að tengja við neitt illt. Mynd: Sigurður H. Ringsted.
Músarrindill sem brostið hefur í fagran söng. Svona fugla er varla hægt að tengja við neitt illt. Mynd: Sigurður H. Ringsted.  

Meira á vef Skógræktarfélagsins.

Sigurður Arnarson er í stjórn Skógræktarfélags Eyfirðinga.

Smellið hér til að sjá allan pistilinn

Chelsea

Sigmundur Ernir Rúnarsson skrifar
19. maí 2025 | kl. 11:30

Kattaraugun

Jóhann Árelíuz skrifar
18. maí 2025 | kl. 06:00

Ofvirkir unglingar að æpa á róandi?

Stefán Þór Sæmundsson skrifar
17. maí 2025 | kl. 09:00

Hvernig koma á Skoda upp brekku

Orri Páll Ormarsson skrifar
16. maí 2025 | kl. 15:00

3+30+300

Sigurður Arnarson skrifar
14. maí 2025 | kl. 09:20

Export

Sigmundur Ernir Rúnarsson skrifar
12. maí 2025 | kl. 11:30