Fara í efni
Pistlar

Ástand lands og landlæsi. Seinni hluti: Afneitun

TRÉ VIKUNNAR - 138

Pistill í röðinni Tré vikunnar birtist vikulega á vef Skógræktarfélags Eyfirðinga, alla miðvikudaga. Akureyri.net birtir brot úr hverjum pistli til að vekja athygli á skrifunum og hvetur fólk til að lesa meira á vefsíðu félagsins.
_ _ _

Fyrir viku birtum við fyrri hluta pistils um landlæsi og ástand lands. Í honum sögðum við frá því að rannsóknir hafa verið gerðar sem staðfesta að þótt finna megi fín dæmi um gott ástand vistkerfa sem í sumum tilfellum eru jafnvel í framför er ástand íslenskra vistkerfa almennt ekki þannig að ástæða sé til að hrópa ferfalt húrra fyrir því. Við sögðum líka frá samdaunasýkinni sem verður til þess að fólk, jafnvel í ábyrgðarstöðum, afneitar slæmu ástandi. Forsenda þess að norrænir bændur gátu sest að á Íslandi á landnámsöld var sú að hér var öflugur gróður og frjósamur jarðvegur. Í þessum hluta förum við yfir algengustu rök þeirra sem ekki vilja horfast í augu við að ástand íslenskra vistkerfa sé slæmt vegna athafna mannsins og húsdýra hans.
 

Veðurfar, eldgos og kolagerð

Stafar slæmt ástand landsins fyrst og fremst af þeim þáttum sem sjá má í fyrirsögninni? Tveir þeir fyrrnefndu falla í flokkinn óblíð náttúra, en sá síðasti í flokkinn áhrif mannsins og húsdýra hans. Þessa flokkun nefndum við í lok fyrri hluta pistilsins sem birtur var fyrir viku.

Fyrir það fyrsta er rétt að hafa í huga að bæði fyrir og eftir landnám og allt til vorra daga hafa eldgos og vond veður verið eðlilegir þættir í náttúru Íslands. Samt var landið betur gróið fyrir landnám. Því hefur það ekki dugað öllum að kenna veðurfari og eldgosum um slæmt ástand íslenskra vistkerfa. Þar kemur kenningin um kolagerð inn í söguna.

Áður en við skoðum hvern þessara þriggja þátta skulum við hafa eftirfarandi þætti í huga.

Landnýting ræður miklu um viðnám jarðvegs gegn áhrifum náttúruafla. Eyðing skóga veikir varnir jarðvegs og annars gróðurs. Beit, einkum mikil beit í vistkerfum sem þróast hafa án stórra beitardýra, veikir viðnám gróðurs gegn áföllum eins og kólnandi veðurfari og gjóskufalli. Að auki getur beitin komið í veg fyrir endurnýjun gróðurs og hefur mikil áhrif á tegundasamsetningu vistkerfisins. Þess vegna er lítið um náttúrulega skóga á Íslandi.

Við skulum nú skoða þessa þrjá þætti aðeins nánar.

 
Málverkið Udslidt frá 1889 eftir danska málarann H.A. Brendekilde. Myndin sýnir útslitna bændur og gróðursnauðan berangur sem tákn um harða lífsbaráttu danskra smábænda á ofanverðri 19. öld. Síðan tóku heimamenn sig saman í andlitinu og endurheimtu skóga með innlendum og erlendum tegundum eins og þeir þekkja sem heimsótt hafa landið.  Danir hafa ekki reynt að kenna kolagerð, litlu ísöld eða eldgosum um að stór hluti landsins leit svona út um aldamótin 1900.
Málverkið Udslidt frá 1889 eftir danska málarann H.A. Brendekilde. Myndin sýnir útslitna bændur og gróðursnauðan berangur sem tákn um harða lífsbaráttu danskra smábænda á ofanverðri 19. öld. Síðan tóku heimamenn sig saman í andlitinu og endurheimtu skóga með innlendum og erlendum tegundum eins og þeir þekkja sem heimsótt hafa landið. Danir hafa ekki reynt að kenna kolagerð, litlu ísöld eða eldgosum um að stór hluti landsins leit svona út um aldamótin 1900.

Veðurfar

Stundum hefur því verið haldið fram, bæði í ræðu og riti, að slæmt ástand gróðurs og jarðvegs á Íslandi stafi af vondum veðrum. Samt er það þannig að það gátu alveg komið vond veður fyrir landnám. Aftur á móti hefur veðrið ekki alltaf verið eins. Veður við landnám er talið hafa verið milt en tímabilið frá um 1350 til um 1850 var óhagstætt gróðri. Kallast sá tími litla ísöld. Sumar heimildir telja þetta tímabil lengra en aðrar styttra enda eru ártölin ekki meitluð í stein. Þegar veðurfari er kennt um ástand og hrun íslenskra vistkerfa er oftast vísað til litlu ísaldar. Fáir halda því fram nú orðið að almennt sé veðurfar á landinu þannig að gróður, einkum trjágróður, fái hér ekki þrifist. Þó má nefna að þessi fullyrðing, sem mætti kalla bullyrðingu, heyrðist mjög oft þar til andstæðingar skógræktar fóru að halda því fram að skógar væru orðnir of miklir á Íslandi. Þá gekk fyrri fullyrðingin ekki lengur upp. Því verjum við ekki plássi í hana.

Allt bendir til að aðrir þættir en litla ísöld hafi skipt meira máli þegar stór hluti íslenskra vistkerfa hrundi. Það sést meðal annars á því að landi fór hratt aftur áður en litla ísöld gekk í garð. Í sagnagarði Landgræðslunnar, sem nú er hluti af Landi og skógi, segir að á Suðurlandi hafi skógar eyðst að mestu í byggð á aðeins 80-130 árum. Héruð eins og Húnaþing og Skagafjörður urðu einnig snemma skóglaus samkvæmt því sem þar má lesa. Litlu ísöld verður ekki kennt um þetta. Þessum svæðum fór svona mikið aftur áður en hún gekk í garð og á meðan veðurfar var gróðri sérlega hagstætt. Auðvitað má segja að þótt skógum hafi verið eytt þurfi það ekki endilega að merkja að landrof hafi átt sér stað. Ef til vill var skóglendinu bara breytt í annars konar gróðurlendi. Það má vel vera rétt. Þá er gott að hafa í huga að skógar veita landinu meiri vörn en annar gróður, eins og áður er nefnt. Þetta er ef til vill ekki ósvipað og þegar maður er sviptur vetrarúlpunni sinni og þarf að fara út í kuldann í bolnum. Hann er auðvitað ekki nakinn, en verndin hefur minnkað. Þetta getur skipt miklu máli þegar tíðin er slæm.
 
Víða um land má sjá glögg merki um áhrif beitar þótt landið sé tiltölulega létt beitt. Nema ef girðingarnar á þessum myndum séu allar reistar á sérstaklega skörpum veðurskilum. Á þessum fjórum myndum sést alls staðar trjákenndur gróður að spretta upp í kjölfar beitarfriðunar. Ein er tekin á Suðurlandi, tvær á Norðurlandi og ein á Austurlandi. Myndir: Sig.A.

Merkilegt má heita að sum svæði á láglendi fóru illa á þessu kalda skeiði þótt þau hafi tilheyrt þeim svæðum landsins þar sem veðurfarið var (og er) hvað mildast. Má nefna Krýsuvík sem dæmi. Á sama tíma hélt byggð velli á harðbýlum svæðum, svo sem sums staðar við hálendisbrúnina og á svölum svæðum eins og Hornströndum. Það gerðist án þess að gróðri færi þar tiltakanlega mikið aftur miðað við önnur svæði. Nefna má sem dæmi að talið er að Hólsfjöll hafi verið að mestu algróin fram á 16. öld en að lokum gaf gróðurþekjan sig þar eins og sjá má ef farið er um svæðið.

Á láglendi fór gróðri meira aftur þar sem þéttbýli var mikið en þar sem dreifbýlið var meira, burt séð frá veðurfari. Samt er óhætt að fullyrða að landnámið var ekki þéttast á köldustu svæðum landsins. Bendir það til að aðrir þættir en veðurfar hafi skipt meira máli og valdið hnignun landgæða. Á það jafnt við um litlu ísöld sem aðrar aldir sögunnar.

Geirstaðaskógur innarlega í Viðborðsdal. Viðborðsjökull gekk fram á 19. öld og náði um 1,5 km fram fyrir skóginn. Þá fóru um 200 metrar af neðsta skóginum í jökull. Þrátt fyrir að skógurinn væri jafnframt nýttur til eldiviðar á þessum kuldatímum lifði skógurinn. Hvorki litla ísöld né kolagerð tókst að eyða honum. Þessi mynd er tekinn í sudda og slarki 2. október 2013 þegar útlínur skógarins voru kortlagðar og 15 aldurssýni tekin úr stofnum trjánna. Skógurinn er mjög gamall og í honum vex einir um nánast allan skógarbotninn.  Birkistofnarnir voru 67-79 ára gamlir en einirinn 106-134 ára. Landnýting í Viðborðsdal hefur verið hófleg núna á síðustu áratugum og vistkerfið nýtur góðs af því. Myndir og upplýsingar: Friðþór Sófus Sigurmundsson
Geirstaðaskógur innarlega í Viðborðsdal. Viðborðsjökull gekk fram á 19. öld og náði um 1,5 km fram fyrir skóginn. Þá fóru um 200 metrar af neðsta skóginum í jökull. Þrátt fyrir að skógurinn væri jafnframt nýttur til eldiviðar á þessum kuldatímum lifði skógurinn. Hvorki litla ísöld né kolagerð tókst að eyða honum. Þessi mynd er tekinn í sudda og slarki 2. október 2013 þegar útlínur skógarins voru kortlagðar og 15 aldurssýni tekin úr stofnum trjánna. Skógurinn er mjög gamall og í honum vex einir um nánast allan skógarbotninn. Birkistofnarnir voru 67-79 ára gamlir en einirinn 106-134 ára. Landnýting í Viðborðsdal hefur verið hófleg núna á síðustu áratugum og vistkerfið nýtur góðs af því. Myndir og upplýsingar: Friðþór Sófus Sigurmundsson
Beint á móti Viðborðsdal er annar dalur sem heitir Hoffellsdalur. Þar voru fjórir bæir með skógarítök en ekki dugði það til að drepa skóginn. Hins vegar á birki þar verulega undir högg að sækja um þessar mundir. Samt er veðrið ekki verra um þessar mundir en það var á litlu ísöld. Helsta ástæða hnignunarinnar er of mikill sauðfjárbeit. Mynd og upplýsingar: Friðþór Sófus Sigurmundsson.
Beint á móti Viðborðsdal er annar dalur sem heitir Hoffellsdalur. Þar voru fjórir bæir með skógarítök en ekki dugði það til að drepa skóginn. Hins vegar á birki þar verulega undir högg að sækja um þessar mundir. Samt er veðrið ekki verra um þessar mundir en það var á litlu ísöld. Helsta ástæða hnignunarinnar er of mikill sauðfjárbeit. Mynd og upplýsingar: Friðþór Sófus Sigurmundsson.

Í þessu sambandi má minna á að hiti lækkar með vaxandi hæð. Lætur nærri að þetta séu um 0,6-0,9°C á hverja 100 metra eftir rakamagni. Einnig er gott að hafa í huga að hámarkshiti á skýldu svæði er um 1-2°C hærri en á óskýldu svæði. Örnefni og skógarleifar benda til fornra skóga í meira en 500 m hæð yfir sjávarmáli. Á þeim slóðum hefur hitastig ekki verið hærra fyrir landnám en á láglendi á litlu ísöld.

Að framansögðu má ljóst vera að litla ísöld var ekki frumorsök landeyðingar. Aðrir þættir skiptu meira máli þótt slæmt veður geti lagst á sveif með öðrum landeyðingaröflum. Þar kemur til sögunnar að beitin veikir viðnám gróðurs gegn áföllum eins og kólnandi veðurfari. Álagið af beitinni hefur verið gríðarlegt í köldum árum. Má segja að í hallærum bresti stoðir rányrkjunnar.

Frostlyfting og ísnálar geta slitið rætur og tafið fyrir sjálfgræðslu lands. Þess vegna er mikilvægt að nýta ekki land með þeim hætti að rofsár myndist. Mynd: Sig.A.
Frostlyfting og ísnálar geta slitið rætur og tafið fyrir sjálfgræðslu lands. Þess vegna er mikilvægt að nýta ekki land með þeim hætti að rofsár myndist. Mynd: Sig.A.

Vandræðahugtakið beitarþol

Áður en við snúum okkur að eldgosum og kolagerð skulum við velta fyrir okkur veðrinu og stöðunni eins og hún er á okkar tímum. Almennt er veðurfar hagstætt gróðri um þessar mundir en vitanlega koma slæm sumur inn á milli. Má nefna að sumarið 2024 var óhagstætt gróðri á Norðurlandi eins og til dæmis kartöflu- og grænmetisbændur tóku vel eftir.

 
Gróðurfar í úthaga getur minnt á mósaíkmynd. Hvernig á að meta beitarþolið á fjölbreyttu landi ef fénu er ekki haldið á best grónu svæðunum? Mynd: Sig.A.
Gróðurfar í úthaga getur minnt á mósaíkmynd. Hvernig á að meta beitarþolið á fjölbreyttu landi ef fénu er ekki haldið á best grónu svæðunum? Mynd: Sig.A.

Vandinn er meðal annars sá að fyrir fram höfum við ekki hugmynd um hvernig veðrið verður á komandi misserum. Í þessari skýrslu sem ber nafnið Ástand lands og hrun íslenskra vistkerfa og er eftir Ólaf Arnalds (2020), er komið inn á hugtakið beitarþol. Þetta er hugtak sem flestir sem gerst þekkja eru sammála um að er löngu úrelt, samanber þessa grein frá árinu 2016 eftir þáverandi landgræðslustjóra; Svein Runólfsson. Í sem skemmstu máli má segja að þeir Ólafur og Sveinn séu sammála um að hugtakið henti illa.

Útreikningar á búfjárfjölda sem landið gæti borið er afskaplega vandmeðfarið efni. Fyrst má nefna að erfitt er að taka tillit til þess að mjög fjölbreyttar vistgerðir kunna að koma fyrir í beitilandinu. Þannig er það oftast í íslenskum úthaga nema þar sem vistkerfið er hrunið og auðnin ein er eftir. Slíkt land þolir enga beit. Ekki liggur fyrir hvernig hægt er að taka tillit til vistfræðilegra þátta á borð við samsetningu gróðurs eða breytinga á gróðurfari og uppskeru í tíma, innan hvers árs og á milli ára.

 

Meira á vef Skógræktarfélagsins.

Sigurður Arnarson er í stjórn Skógræktarfélags Eyfirðinga.

Smellið hér til að sjá allan pistilinn

„Brave“

Michael Jón Clarke skrifar
10. nóvember 2025 | kl. 17:00

Hús dagsins: Aðalstræti 40 (Bibliotekið)

Arnór Bliki Hallmundsson skrifar
10. nóvember 2025 | kl. 06:00

Rauði Skódinn

Jóhann Árelíuz skrifar
09. nóvember 2025 | kl. 06:00

Frystiklefafælni

Ólafur Þór Ævarsson skrifar
06. nóvember 2025 | kl. 06:00

Ástand lands og landlæsi – Fyrri hluti: Staðan

Sigurður Arnarson skrifar
05. nóvember 2025 | kl. 10:00

Núvitund á mannamáli

Hrafnhildur Reykjalín Vigfúsdóttir skrifar
04. nóvember 2025 | kl. 10:00