Jóhann Árelíuz skrifar
23. nóvember 2025 | kl. 06:00
EYRARPÚKINN - 66
Sól skein yfir skýjadrögum á blálofti vordaginn níunda apríl 1959.
Bar þá að hvalastóð og fór mikinn inn Vopnafjörð.
Fífldjarfir Tangabúar tefldu fram skektum sínum til að flýta för hvalanna inn í Sandvík og hin mesta mildi að hvalirnir skyldu ekki hvolfa kænum þeirra eða brjóta í flissandi öldum.
Reyndu bátsverjar að aflífa hvalina með litlum rifflum og skutu hverju skotinu á fætur öðru í spikið í fjörunni en kom fyrir ekki.
Einnig hringdu þeir suður í Hvalfjörð og vildu að hvalstöðin yrði opnuð í tilefni strandsins.
Hvalirnir voru fimmtán talsins og um fimmtán metrar á lengd hver hvalur og vógu þúsundir tonna.
Nýmetið fyllti forðabúr vopnfirskra og komu menn norðan af Melrakkasléttu til að krækja sér í spik og rengi, birgðu sig upp af sporðstykkjum og settu kjöt í frystingu en það mesta fór til spillis og jók fagnaðarfjöld hrafna og máfa.
Í áraraðir eftir hvalvöðuna miklu mátti sjá tröllskinin bein á Sandvíkurströndinni.
Jóhann Árelíuz er rithöfundur og skáld.
- Á sunnudögum síðustu misseri hefur akureyri.net birt kafla úr Eyrarpúkanum, gáskafullu skáldverki Jóhanns Árelíuzar sem gerist á Eyrinni á Akureyri um miðja síðustu öld. Bókin kom út 2003. xxxxxx. er kafli úr bókinni Sveskjur í sólarlaginu, síðari bók Jóhanns um Eyrarpúkann en þar segir einkum frá dvöl drengsins á æskuslóðum föður hans í Vopnafirði. Bókin kom út 2010.