Þið kannist við jólaköttinn ...
LEIKHÚS
„Þið kannist við jólaköttinn, sá köttur var gríðarstór. Fólk viss‘ ekki hvaðan hann kom eða hvert hann fór.“ - Þetta textabrot Jóhannesar úr Kötlum, við lag Ingibjargar Þorbergs, hefur mér fundist ramma inn dulúðina í kringum jólaköttinn.
Þetta dularfulla kattarskarn stígur nú á fjalir Freyvangsleikhússins þar sem sagan af hinum alíslenska jólaketti blandast við ýmsar sögupersónur.
Höfundur og leikstjóri er Jóhanna S. Ingólfsdóttir sem einnig er formaður Freyvangsleikhússins
Þetta er fjórða aðventusýningin í röð hjá Freyvangsleikhúsinu sem Jóhanna leikstýrir og af þeim eru tvær þar sem hún er höfundur.
Finnst mér ástæða til að staldra þar aðeins við. Margur hefur nú fengið hrósið fyrir minna. Já, talandi um frumkvæði, nýsköpun og menningarlega innspýtingu í samfélagið. Ekki má nú gleyma Eiríki Bóassyni sem hristir fram nýja tónlist í aðventuverkum Freyvangsleikhússins enn eitt árið. Skyldi Logi Einars vita af þessu? En ég varð nú bara að koma þessu að því þetta er ekki slitið upp úr götunni eins og sagt er.

Leikarar í sýningunni: Birgitta Brynjarsdóttir (hreindýrið Helgi) og Hallur Örn Guðjónsson (Jólakötturinn).
Það var dulúð og svarta myrkur þegar við þrjú keyrðum fram í Freyvang. Afar táknrænt. Með mér voru Emilía Ósk og Haukur Heiðar, stóru barnabörnin sem hafa í gegnum tíðina farið á ófáar sýningar með afa gamla.
Utan úr myrkrinu er komið inn í hlýlegt og ansi jólalegt umhverfi. Framan við salinn eru skemmtileg tækifæri fyrir myndatöku sem við nýttum okkur áður en við birgðum okkur upp af sykri úr sjoppunni. Já, þarna var tónninn settur fyrir góða kvöldstund.
Inni í sal hljóma svo ljúfir tónar Reynis Schiöth sem er einn af tríói kvöldsins ásamt Hermanni Arasyni og Gunnari Möller. Þeir flytja frumsamda tónlist Eiríks Bóassonar í leikritinu og fara nú heldur betur létt með það.
Og sagan fer af stað með sögumanninum Kristbirni Steinarssyni sem kemur með kósý stemningu. Það vantaði raunar bara snarkið frá arineldinum. Hann segir söguna af jólakettinum sem hittir ýmsar sögupersónur. Flestar eru kunnuglegar hér á landi. Hreindýrið Helgi er hins vegar væntanlega frá Ameríku því hreindýrin á Héraði eru minna í því að fljúga með jólasveininn. Það kemur fram í leikritinu að á Íslandi eru sveinarnir 13 en bara einn í Ameríku. Svo sem ekki sagt beinum orðum en látið í það skína og að málið sé afar viðkvæmt. Það kemur líka fram þessi skemmtilega reiknivilla Íslendinga; 1+8:-=13!

Barnabörn og með-gagnrýnendur Péturs Guðjónssonar, Emilía Ósk og Haukur Heiðar.
Jólakötturinn fær nóg af þessari taumlausu jólagleði allt í kringum hann og ákveður að fara að heiman. Honum finnst hann vera einn með þessa skoðun og verður einmana.
Á leið sinni upp fjallið hittir hann ýmsar furðuverur en finnur samt ekki sína líka þar, því flestum finnst jólin frábær.
Það má alveg horfa á þetta út frá augum þeirra sem finnst jólin ekkert sérstök en eru samt í hringiðu samfélagsins þar sem allt er svo æðislegt. Að þú átt bara að vera glaður/glöð/glatt af því að jólin eru að koma. Sennilega líður viðkomandi þá eins og jólakettinum.
Það eru sjö leikarar í sýningunni auk hljómsveitar. Hallur Örn Guðjónsson er jólakötturinn og setur strax tóninn hversu leiður hann er á þessu jólastandi. Það getur verið erfitt að halda uppi „stuðinu“ á sviðinu þegar persónan er í hálfgerðri fýlu og ástandið ömurlegt. Því kemur góð innspýting þegar hreindýrið Helgi mætir á svæðið. Birgitta Brynjarsdóttir leikur hið síglaða hreindýr og verður samspilið skemmtilegt.
Ferðalag þeirra minnir ansi oft á Shrek og Asna. Og hreindýrið hittir sinn líka þegar tröllastelpan (Katrín Ósk Steingrímsdóttir) mætir á svæðið. Hún er glöð og finnst hreindýrið frábært. Og hreindýrið Helgi er líka á sama máli og tröllastelpan. „Þú ert frábær - nei þú ert frábær.“ Skemmtilegt og einfalt grín sem verður fyndið.
Aðrar persónur sem þau mæta eru; Stúfur (Jóhannes Már Pétursson, músin (Svanhvít Elva Einarsdóttir) og veiðimaðurinn (Þjóðann Baltasar Guðmundsson). Þar eru ólíkar persónur, undirgefin mús, ofur glaður jólasveinn og svo veiðimaður sem ætlar að veiða Helga en er snúið við á punktinum að hugsa nú meira um að vera góður en grimmur.
Það er gott að svífa inn í aðventuna og minna okkur á, að kannski eru margir jólakettir þarna úti sem eiga pínu erfitt. Kannski er einhver nálægt þér sem fer að haga sér eins og jólakötturinn. Finnst pressa jólanna of mikil og finnst allir vera glaðir nema viðkomandi.
Niðurstaða okkar þriggja sem fórum á sýninguna, var að það væri full ástæða til að kúpla sig út frá öllu og fara í Freyvangsleikhúsið á aðventunni. Sýningin er stutt, sem gerir Tiktok kynslóðinni kleift að halda athygli. Og boðskapurinn sem höfundur hefur óbilandi trú á, samkvæmt því sem fram kemur í leikskrá; hið góða, kærleikur, væntumþykja og virðing eru megin stef í sýningunni. Það á vel við þegar aðventan gengur í garð.
Takk fyrir okkur og til hamingju Freyvangsleikhúsið.
Pétur, Emilía Ósk og Haukur Heiðar.

Barnabörn og með-gagnrýnendur Péturs Guðjónssonar, Emilía Ósk og Haukur Heiðar.
Hreyfing hreyfingarinnar vegna
Djúpstæð augu sviðakjammanna
Einmanaleiki
Krúttlegasti knattspyrnuvöllur í heimi