Fara í efni
Pistlar

Um nöfn og flokkunarkerfi. Seinni hluti

TRÉ VIKUNNAR - 139

Pistill í röðinni Tré vikunnar birtist vikulega á vef Skógræktarfélags Eyfirðinga, alla miðvikudaga. Akureyri.net birtir brot úr hverjum pistli til að vekja athygli á skrifunum og hvetur fólk til að lesa meira á vefsíðu félagsins.
_ _ _

Þann 19. mars síðastliðinn birtum við pistil um tvínafnakerfið sem vísindasamfélagið notar til að flokka allar lífverur. Auðvitað var kastljósinu fyrst og fremst beint að trjám en í leiðinni sögðum við frá uppruna kerfisins og sögu þess. Við bendum áhugasömum á þann pistil til upprifjunar.
 

Við höggvum nú í sama knérunn og segjum nánar frá þessu kerfi og notkun þess. Einnig kynnum við hugtakið kvæmi og fjöllum um íslenska nafnahefð. Það liggur fyrir að ekki eru allar plöntur sömu tegundar nákvæmlega eins. Komið hefur í ljós að hverri tegund má oft og tíðum skipta í smærri flokkunareiningar. Eins bráðsnjallt og tvínafnakerfi Linnæusar reyndist vera hefur það ekki dugað til að lýsa nákvæmari flokkunareiningum en hann skilgreindi forðum. Því þurfti að endurbæta kerfið og laga það að aukinni þekkingu. Þessi pistill fjallar um það og er beint framhald af áðurnefndum pistli. Við lýsingu á frekari flokkun er hér meðal annars stuðst við Stóru Garðabókina frá 1996 sem Ágúst H. Bjarnason ritstýrði.

Utanverðir Leyningshólar í nóvember 1960. Birkið í Leyningshólum er ekki alveg eins og annað birki á Íslandi en það er samt birki. Mynd úr safni SE.
Utanverðir Leyningshólar í nóvember 1960. Birkið í Leyningshólum er ekki alveg eins og annað birki á Íslandi en það er samt birki. Mynd úr safni SE.

Frekari flokkun

Í fyrri pistli okkar um tvínafnakerfið (e. binomial nomenclature) sögðum við frá því að nöfn trjáa og reyndar allra annarra lífvera eru sett saman af tveimur nöfnum. Annars vegar er það ættkvíslarheiti og hins vegar viðurnafni. Stundum er þörf á að flokka tegundirnar nánar. Þá gerir tvínafnakerfið ráð fyrir að hægt sé að bæta þriðja heitinu við. Hvernig það er gert fer eftir því hve frábrugðnar plönturnar eru aðaltegundinni.

Sé um verulegt frávik að ræða sem nær yfir stóran hluta útbreiðslusvæðis tegundarinnar er gjarnan talað um undirtegund eða subspecies. Oftast er látið duga að stytta orðið, til dæmis með því að skammstafa það sem subsp. eða ssp. Sambærilegar skammstafanir eru notaðar fyrir önnur frávik og eru þau sett í sviga hér á eftir. Sé frávikið og útbreiðslan minni en svo að kalla megi þær undirtegundir er talað um afbrigði eða varietas (var.).
 

Þessi tvö ofantöldu dæmi eiga vanalega við um hóp planta sem finnast á ákveðnu svæði. Breytileiki sem getur skotið upp kollinum hvar sem er á útbreiðslusvæðinu, svo sem hvít blóm í stað annarra lita hjá mörgum tegundum, eða sérkennilegt útlit laufblaða, kallast tilbrigði eða forma (f.). Þegar einhverju þessara heita er bætt við er viðeigandi skammstöfun höfð á undan því. Þetta þriðja heiti er haft skáletrað, en ekki skammstöfunin, enda er hún ekki hluti af nafninu. Við getum nefnt eini, Juniperus communis L. sem dæmi. Einirinn á sér stórt útbreiðslusvæði í heiminum en hér á landi vex undirtegund sem kallast Juniperus communis L. subsp. nana (Willd.) Syme ef við viljum vera nákvæm. Við vekjum athygli á að orðið Syme er ekki skammstöfun og því er ekki punktur á eftir því eins og hjá hinum nöfnunum. Þarna er vísað í þrjá mæta menn sem koma að þessum nafngjöfum. Oft er nöfnum þeirra (eða skammstöfunum) sleppt. Þá gætum við skrifað: Juniperus communis ssp. nana. Það dugar alveg.

Íslenskur einir, Juniperus communis ssp. nana, getur komist af við erfið skilyrði. Mynd: Sig.A.
Íslenskur einir, Juniperus communis ssp. nana, getur komist af við erfið skilyrði. Mynd: Sig.A.

Nú mæla reglur svo fyrir að þegar undirtegundir eru skilgreindar þá skuli aðaltegundin einnig teljast undirtegund. Þá er viðurnafn endurtekið án nafnhöfundar. Þá kallast einirinn Juniperus communis subsp. communis. Ef þú, lesandi góður, vilt skoða fleiri svona dæmi má minna á þennan pistil um stafafurur þar sem nefnd eru þrjú afbrigði furunnar.

Stundum hefur skammstöfunum verið sleppt með öllu. Þannig er því til dæmis háttað þegar talað er um fugla og önnur dýr. Við getum hér tekið dæmi af músarrindli sem við höfum skrifað um. Íslenski stofninn er skýrt afmarkaður og hefur nokkur sérstök útlitseinkenni. Því er eðlilegt að flokka hann sem sérstaka undirtegund. Vaninn er að skrifa það með þremur nöfnum án skammstafana. Hann heitir Troglodytes troglodytes islandicus. Þetta viðgengst ekki hjá plöntum. Þá hefði verið skrifað Troglodytes troglodytes subsp. islandicus. Ágúst Bjarnason hefur útskýrt fyrir höfundi að ástæðan fyrir því, að dýrafræðingar sleppa ssp. (eða subsp.) er sú, að þeir nota aldrei frekari flokkun. Þeir eru löngu hættir að nota var. og f. eins og grasafræðingar. Þess vegna er þriðja orðið er ávallt ssp. og því óþarfi að taka það fram.
 

Breytingar

Við viljum geta þess að stundum eru undirtegundir það ólíkar megintegundinni að þær hljóta mismunandi tegundarheiti á íslensku. Þetta er þó langt frá því að teljast algilt. Þannig heitir öll stafafura á Íslandi stafafura, þótt augljós munur sé á undirtegundum. Stundum hafa rannsóknir leitt til þess að plöntur, sem áður voru taldar til tveggja tegunda, eru sameinaðar í eina. Hafi gömlu tegundirnar áður hlotið íslensk nöfn er vaninn sá að þær haldi þeim. Má nefna að lengi voru til tegundirnar dökkvíðir, Salix myrsinifolia (sem á sér samheitið S. nigricans) og viðja, S. borealis. Svo kom í ljós að þetta var ein og sama tegundin þótt munur væri á þeim. Þá var farið að telja viðjuna undirtegund dökkvíðis. Síðan heitir hún S. myrsinifolia ssp. borealis. Það er samt engin ástæða til að breyta um íslenskt heiti á viðjunni þótt grasafræðingar hafi flokkað hana á nýjan hátt. Fjölmörg sambærileg dæmi eru til. Þetta er til dæmis áberandi með elritegundir, Alnus spp., þar sem mikil uppstokkun fræðiheita hefur átt sér stað.

 
Við Moldhaugnaháls norðan Akureyrar hefur þessi glæsilega viðja sáð sér rétt við þjóðveginn. Hún er af tegundinni  Salix myrsinifolia ssp. borealis. Við gætum fjölgað henni kynlaust með græðlingum og þá gæti verið gott að geta greint afkomendurna frá öðrum viðjum sem vaxa á annan hátt. Næsti kafli fjallar um það. Mynd: Sig.A.
Við Moldhaugnaháls norðan Akureyrar hefur þessi glæsilega viðja sáð sér rétt við þjóðveginn. Hún er af tegundinni Salix myrsinifolia ssp. borealis. Við gætum fjölgað henni kynlaust með græðlingum og þá gæti verið gott að geta greint afkomendurna frá öðrum viðjum sem vaxa á annan hátt. Næsti kafli fjallar um það. Mynd: Sig.A.
 

Meira á vef Skógræktarfélagsins.

Sigurður Arnarson er í stjórn Skógræktarfélags Eyfirðinga.

Smellið hér til að sjá allan pistilinn

Hreyfing hreyfingarinnar vegna

Guðrún Arngrímsdóttir skrifar
18. nóvember 2025 | kl. 06:00

Djúpstæð augu sviðakjammanna

Jóhann Árelíuz skrifar
16. nóvember 2025 | kl. 06:00

Einmanaleiki

Ólafur Þór Ævarsson skrifar
16. nóvember 2025 | kl. 06:00

Krúttlegasti knattspyrnuvöllur í heimi

Orri Páll Ormarsson skrifar
14. nóvember 2025 | kl. 11:30

Ástand lands og landlæsi. Seinni hluti: Afneitun

Sigurður Arnarson skrifar
12. nóvember 2025 | kl. 09:30

„Brave“

Michael Jón Clarke skrifar
10. nóvember 2025 | kl. 17:00